Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp dóm í tveimur meiðyrðamálum sem fjölmiðlamaðurinn Egill Einarsson höfðaði gegn karli og konu vegna ummæla þeirra í kjölfar viðtals sem birtist við Egil í Monitor, fylgiriti Morgunblaðsins. Karlmaðurinn var alfarið sýknaður af kröfum Egils en ummæli konunnar voru dæmd dauð og ómerk.
Kristján Ingi Sigurmarsson skrifaði „fuck you rapist bastard“ yfir mynd af Agli og birti á samfélagsvefnum Instagram. Dómari taldi enga hvatningu felast í orðum Kristjáns og að um fúkyrði væri að ræða frekar en staðhæfingu um staðreynd. Ekki bæri að skilja orð hans bókstaflega. „[Ummælin] eru ósæmileg og ósmekkleg en verða, líkt og aðrir gildisdómar, hvorki sönnuð né ósönnuð,“ segir í niðurstöðu dómsins.
Ummæli Sunnu Ben Guðrúnardóttur á Facebook voru hins vegar dæmd dauð og ómerk. Hún skrifaði: „Þetta er líka ekki árás á mann fyrir að segja eitthvað rangt, heldur fyrir að nauðga unglingsstúlku... Það má alveg gagnrýna það að nauðgarar prýði forsíður fjölrita sem er dreift út um allan bæ...“
Dómurinn taldi að Sunna hefði farið út fyrir mörk leyfilegrar tjáningar með orðum sínum. Hins vegar vildi dómari hvorki refsa Sunnu né dæma hana til að greiða Agli bætur vegna ummælanna. „Að mati dómsins verður að fara afar varlega í að beita refsingum við ærumeiðandi ummælum. [..] [Það] verður að taka tillit til þess við mat á miska stefnanda með hvaða hætti stefnandi sjálfur hefur skapað sér orðspor með framgöngu sinni á opinberum vettvangi. Ekki verður séð, þrátt fyrir miklar deilur um málflutning hans í nafni Gillz, að hann hafi skýrlega tekið afstöðu gegn kynferðislegu ofbeldi fyrr en kærur gegn honum komu fram. Hafði stefnandi þó fullt tilefni til að gera hreint fyrir sínum dyrum hvað þetta atriði varðar þegar haft er í huga að efni frá honum er á köflum afar tvírætt og ögrandi og má auðveldlega skilja sem hvatningu til ofbeldis af þessu tagi.“
Agli var gert að greiða Kristjáni Inga 400 hundrað þúsund krónur í málskostnað en í hinu máli verða Egill og Sunna að bera lögmannskostnað sjálf. andri@mbl.is