Agnes Bragadóttir segir að umfang viðskiptablaðsins haldist í hendur við viðskiptalífið.
Agnes Bragadóttir segir að umfang viðskiptablaðsins haldist í hendur við viðskiptalífið. — Morgunblaðið/Golli
Agnes Bragadóttir er einn reyndasti blaðamaður landsins og fréttastjóri viðskiptafrétta á Morgunblaðinu.

Þegar ég byrjaði á Tímanum var ég sett á ritvél, og lærði ekki á tölvu fyrr en ég kom hingað,“ segir Agnes Bragadóttir, einn af reyndari blaðamönnum Morgunblaðsins. Á næsta ári verða liðin þrjátíu ár frá því að hún hóf störf á blaðinu. Á þeim tíma hefur tækninni fleygt fram, en Agnes segir kröfurnar til blaðamannsins ekki hafa breyst. „Hann þarf að ná í fréttina, hafa hana rétta og staðreyna, það er óbreytt, en vissulega var þetta meiri handavinna í þá daga.“

Agnes er nú í annað sinn um „stundarsakir tímabundið“ fréttastjóri viðskiptafrétta, eins og hún orðar það. Hún segir að í upphafi ferilsins hafi hún fjallað mest um stjórnmál og síðar um sjávarútveg. „Svo þegar ég kom heim frá Srí Lanka, þar sem ég starfaði hjá friðargæsluliðinu, árið 2004 var mikil bóla í uppsiglingu. Styrmir Gunnarsson ritstjóri ræddi þá við mig og bað mig um að taka við viðskiptaritstjórninni tímabundið. Viðskiptafréttir Morgunblaðsins höfðu þá gjörbreyst frá því sem var,“ segir Agnes.

„Þegar ég byrjaði að vinna á blaðinu voru í raun engar sérstakar viðskiptafréttir. Það breyttist þegar Björn Vignir Sigurpálsson kom til baka árið 1985. Þá var hann sérstaklega fenginn til þess að byggja upp viðskiptaumfjöllun Morgunblaðsins, fyrst á afmörkuðum fréttasíðum og síðar með vikulegu viðskiptablaði,“ segir Agnes og bætir við að Björn Vignir hafi, ásamt öflugum viðskiptablaðamönnum, byggt upp umfjöllun blaðsins. „Ég tók við mjög góðu búi frá þeim,“ segir Agnes en þá voru í vændum mestu bóluárin í aðdraganda hrunsins.

Agnes segir að ástæða þess að Styrmir hafi beðið sig um að taka við stjórninni hafi líklega verið greinaflokkur eftir hana sem birtist í ársbyrjun 2003 sem fjallaði um baráttuna um Íslandsbanka. „Þar fékk ég bæði innsýn í viðskiptalífið og dýrmæt tengsl við heimildarmenn. Ég fékk því tækifæri til þess að rækta þau tengsl og efla á ný þegar ég tók við.“

Meira og fyrr á varðbergi

Mikið hefur verið fjallað um ábyrgð aðila á hruninu og gjörðum eða aðgerðaleysi í aðdraganda þess. Agnes telur að Morgunblaðið geti verið fullsæmt af því hvernig blaðið tók á málum. „Styrmir Gunnarsson ákvað í árslok 2005, eftir að hafa fengið í hendur neikvæða skýrslu bresks fjármálafyrirtækis um íslensku bankana, sem Arnór Gísli Ólafsson, þá blaðamaður á viðskiptaritstjórn Morgunblaðsins, hafði útvegað, að láta okkur í fréttum, bæði innlendum og viðskiptafréttum afla frétta frá erlendum greiningardeildum banka og fleirum. Morgunblaðið var því meira á varðbergi gagnvart því sem var að gerast en aðrir fjölmiðlar og jafnframt fyrr, og Styrmir átti frumkvæðið að því.“

Agnes minnist þess og segir rétt að halda því til haga að áhrifamiklir menn í viðskiptalífi landsins hafi verið ósáttir við fréttaflutning blaðsins. „Þessar fréttir, sem enduðu iðulega á forsíðunni, þær vöktu gríðarlega óánægju í bankakerfinu, bæði hjá stjórnendum og eigendum.“

Helst í hendur við viðskiptalífið

Spurð um framtíð viðskiptafrétta Morgunblaðsins segir Agnes að þær haldist mjög í hendur við það sem sé að gerast í viðskiptalífi landsins. Þannig hafi sérblaðið um viðskipti sem kemur út á fimmtudögum verið orðið mjög stórt á sínum tíma. „Það var svo mikið að gerast og vikulega blaðið fór hátt upp í fjörutíu síður þegar mest var.“ Eftir hrun hafi eðlilega fækkað síðunum í sérblaðinu, enda ákveðinn doði ríkt yfir viðskiptalífinu.

En þó eru jákvæð teikn á lofti. „Það eru merki þess að líf sé að færast á ný í vissa afkima viðskiptalífsins og ein helsta undirstöðugreinin, sjávarútvegur, gengur vel í dag. Fari viðskiptalífið aftur á flug, og vonandi ekki bóluflug að þessu sinni, mun þess sjá stað í viðskiptaumfjöllun Morgunblaðsins,“ segir Agnes. „Við munum þá byggja á góðu gildunum, afla fréttarinnar, staðreyna hana og flytja hana á eins skiljanlegu mannamáli og hægt er.“

Íslenskukunnátta lykilatriði

Talið berst að því hvaða kosti blaðamenn þurfi að hafa. „Almennur blaðamaður þarf að vera góður í íslensku, ég tel það lykilatriði fyrir alla sem ætla sér að vinna á fjölmiðlum. Í öðru lagi þarf maður að hafa eðlislæga forvitni, vilja til að læra og fræðast um hvað er að gerast.“ Að lokum segir Agnes að blaðamaðurinn þurfi að vera með ákveðinn og mikinn áhuga á málum til þess að „ná fréttinni“ og geta komið textanum frá sér á góðu og skiljanlegu máli.

„Þegar kemur að viðskiptablaðamönnum, skiptir höfuðmáli fyrir mig sem fréttastjóra að hafa blaðamenn sem eru sérmenntaðir í hagfræði og viðskiptafræði,“ segir Agnes, þar sem þeir geti þá nýtt sér menntun sína og fræði til þess að auka skilning fólks á umfjöllunarefni fréttanna. Hlutverk hennar sem fréttastjóra verði þá einfaldlega að laga textann ef þeir verða of fræðilegir í umfjölluninni, og gera hann læsilegan fyrir almenning. „En ég þarf ekki að gera mikið af slíku í dag, ég er með afburðamenn með mér,“ segir Agnes að lokum.