Helgi Seljan
Helgi Seljan
Eftir Helga Seljan: "Það er samfelld heild ljómandi starfsstétta á Reykjalundi, sem of langt væri að gjöra nákvæma úttekt á"

Það má nú ekki minna vera en maður þakki fyrir sig, sagði karlinn fyrir austan af einhverju tilefni. Hið sama gæti ég sagt þegar ég hugsa til SÍBS þegar það er 75 ára, og þá sér í lagi með þakklæti til flaggskips þess Reykjalundar, þeirrar stórmerku heilsustofnunar sem svo mörgu kraftaverkinu hefur í höfn skilað. Heiður og þökk sé SÍBS fyrir þeirra starf sem sér auðvitað víðar stað í þjóðfélaginu, en þá ekki sízt fyrir þessa frábæru stofnun. Stofnun sem slík byggist fyrst og síðast á traustu og góðu starfsfólki og styrkri stjórn þar sem allir leggjast á eitt með að veita sem allra bezt svo margvíslega þjónustu sem raun ber vitni.

Sú hefur verið reynsla þeirra þúsunda sem þarna hafa átt athvarf, þar sem yljandi viðmót og einlægur vilji hafa haldist í hendur og fært svo ótölulegum fjölda bætta heilsu, þar sem árangursrík endurhæfing hefur komið við sögu á svo margan veg. Reykjalundarsagan er hreint ævintýri, upphafið byggt á óbilandi bjartsýni forystufólks í SÍBS, vel að merkja fólks sem hafði sjálft háð erfiða baráttu við þann sjúkdóm sem boðaði svo mörgum feigð, berklana eða hvíta dauðann. Þar var lífsviljinn og baráttugleðin samt í fyrirrúmi fremst og skilaði Reykjalundi til komandi kynslóða sem glæsilegum minnisvarða um sanna manndáð.

Fremstur fór þar í flokki vaskra baráttumanna yfirlæknirinn Oddur Ólafsson, yfirburðamaður, ýtinn vel til allra góðra verka, en hógværðin einkennið umfram allt annað, en margir lögðu þar gjörva hönd á plóg.

Haukur Þórðarson hélt fram farsælu starfi af festu og hlýju og svo hefur áfram valist til forystu hæfileikafólk hinna beztu eiginda.

Það er samfelld heild ljómandi starfsstétta á Reykjalundi, sem of langt væri að gjöra nákvæma úttekt á, en þar er úrvalsfólk hvert sem litið var og er, án þess ég fari að telja upp allar þær hugarhlýju manneskjur sem þarna hafa starfað og starfa, en þar mæli ég af prýðilegri reynslu margra ára. Sjálfur á ég Reykjalundi mjög mikið að þakka, heilsudvalir þar hafa skilað mér ótrúlega miklu, það er máske ekki tignarlegt útlitið á mér í dag, enda Elli kerling farin að berja rösklega að dyrum, en ég má ekki hugsa til ástandsins, ef ég hefði aldrei notið Reykjalundar og ekki orð um það meir. En vera mín þar varð til þess að ég sá fjöldamörg ævintýri gerast sem árangur af endurhæfingunni skilaði, að ég ekki segi hrein kraftaverk. Það standa svo ótrúlega margir í stórri þakkarskuld við þetta höfuðból endurhæfingar, við SÍBS sem þetta og önnur afrek vann, og ég er aðeins einn í hópi fjöldans. Megi SÍBS og Reykjalundur blómstra sem bezt til blessunar fyrir íslenzka þjóð. Farsæld góð fylgi fólki öllu, starfandi sem þiggjandi þegna.

Höfundur er fv. alþingismaður.

Höf.: Helga Seljan