Bezti vinnuveitandinn – og sá næstbezti

Morgunblaðið er 100 ára í dag. Það eru merkileg tímamót í lífi dagblaðs og þess samfélags, sem það starfar í. Sameiginleg vegferð Morgunblaðsins og íslenzks samfélags er orðin löng. Hún hefur alltaf verið sviptingasöm og stundum stormasöm en þetta blað er fyrir löngu orðið merkur hluti af sögu okkar samtíma, þótt skoðanir fólks á blaðinu hafi verið mismunandi bæði fyrr og nú.

Á bak við svona blað er fólk og það er einn hópur af þeim, sem hafa staðið að baki því, sem sjaldan er minnzt á og fæstir vita um en það eru hinir gömlu eigendur blaðsins, það fólk og fjölskyldur, sem eignuðust blaðið nokkrum árum eftir að útgáfa þess hófst og héldu á því eignarhaldi fram á fyrstu ár nýrrar aldar.

Ég hef stundum haft á orði að beztu vinnuveitendur, sem ég hafi haft um dagana hafi verið bændur í Flókadal í Borgarfirði og skemmtilegasti vinnustaðurinn hafi verið fjósið á Hæli í Flókadal, þar sem ég lærði að vinna, mjólka kýr og moka flór. Og hef verið fjósamaður síðan.

En næstbeztu vinnuveitendur, sem ég hef haft voru hinir gömlu eigendur Morgunblaðsins og ritstjórn Morgunblaðsins næstbezti vinnustaðurinn. Þrír ættliðir fjölskyldu Valtýs Stefánssonar ritstjóra þessa blaðs frá 1924-1963 hafa komið við sögu Morgunblaðsins. Hið sama á við um fjölskyldur þeirra Sveins M. Sveinssonar, forstjóra Timburverzlunarinnar Völundar, og Hallgríms Benediktssonar, forstjóra H. Benediktssonar & Co. Afkomendur Garðars Gíslasonar stórkaupmanns komu einnig við sögu svo og Ólafs Þ. Johnson og fleiri. Þetta var kjarninn úr verzlunarstéttinni í Reykjavík fram eftir 20. öldinni.

Hver og einn þessara karla og kvenna er mér eftirminnilegur. Haraldur Sveinsson bar mesta ábyrgð á rekstri Morgunblaðsins á seinni helmingi 20. aldarinnar, ýmist sem stjórnarformaður Árvakurs hf. eða framkvæmdastjóri fyrirtækisins. Hann hefði eins getað verið stórbóndi í sveit eins og forstjóri í Reykjavík. Þegar mér var boðið starf sem aðstoðarritstjóri Morgunblaðsins í janúar 1971 átti ég samtal við Harald og Gunnar Hansson, sem var varaformaður Árvakursstjórnar og tengdasonur Valtýs Stefánssonar. Gunnar hafði orðið, bauð mér starfið en með einu skilyrði: ég mætti engum trúnaðarstörfum gegna fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Þetta var grundvallaratriði í hugum þessara manna.

Haraldur var áreiðanlega með fyrstu mönnum, sem sýndu aðild að Evrópusambandinu áhuga. Við deildum um það allan þann tíma, sem við unnum saman á blaðinu en aldrei datt honum í hug að reyna að hafa áhrif á ritstjórnarlega afstöðu blaðsins til málsins. Hann hafði hins vegar gaman af því að segja mér reglulega í tíð ríkisstjórnar Gunnars Thoroddsens, að Ragnar Arnalds (fyrrverandi formaður Alþýðubandalags) væri bezti fjármálaráðherra sem Ísland hefði haft. Ég gat vel fellt mig við þann dóm framkvæmdastjóra Morgunblaðsins um þennan æskuvin minn. Haraldur sagði mér líka reglulega að leiðarar Alþýðublaðsins væru beztu leiðarar sem birtust í íslenzku dagblaði en það var í ritstjóratíð Jóns Baldvins Hannibalssonar. Ég gat vel unnt mínum gamla vini þess að hann nyti slíks álits meðal kapítalistanna á Íslandi.

Geir Hallgrímsson var lengi bæði formaður Sjálfstæðisflokksins og stjórnarformaður útgáfufélags Morgunblaðsins. Við Morgunblaðsmenn hittum Geir reglulega og á þeim fundum var hart deilt um stjórnmál þeirra tíma, eins og ég hef fjallað um á öðrum vettvangi. Einu sinni hringdi Geir í mig með erindi fyrir þriðja mann. Ég brást eitthvað illa við og spurði hvort maðurinn gæti ekki talað við mig sjálfur. Þá sagði Geir: Ég ætla að vona, Styrmir, að það skaði ekki málið að ég hringi í þig út af því.

Ég lét mér þetta að kenningu verða og reyndar var það svo að ég lærði margt af samskiptum við þessa menn. Eitt sinn vorum við Bergur G. Gíslason stórkaupmaður, sem var einn af þessum hópi, að hraða okkur í málsverð. Þá kom maður, sem átti við mig erindi sem Bergi fannst ég afgreiða nokkuð snögglega og sagði við mig: Mér var nú kennt að kúnninn ætti að ganga fyrir. Eftir þessi orð lagði ég mig fram um að fylgja þeirri reglu.

Samtöl við þá Berg og Leif Sveinsson (bróður Haraldar), sem báðir lögðu áherzlu á aðhald í rekstri, gerðu mér ljóst að þótt Morgunblaðið væri vel statt bæri okkur starfsmönnum blaðsins að hafa það að leiðarljósi að gæta vel að kostnaði. Báðir komu reglulega í heimsóknir á ritstjórnina og vildu fylgjast með. Það gerði Ólafur J. Johnson ekki en kom sjónarmiðum sínum á framfæri af þeirri hógværð, sem einkenndi öll hans samskipti við okkur starfsmenn blaðsins.

Hulda Valtýsdóttir, (Stefánssonar) var í senn ljúf og föst fyrir. Eftir langt samtal um erfið samskiptamál sagði hún: þú verður bara að leysa þetta! Þótt málið virtist illleysanlegt hélt ég áfram að reyna eftir þetta samtal og það tókst.

Framan af áttum við ritstjórar Morgunblaðsins fundi með eigendum blaðsins einu sinni til tvisvar á ári. Þar vorum við skammaðir og þar urðu stundum mikil átök. Þeir vildu vita hvað við vorum að gera og hvers vegna og af því leiddu stundum miklar sviptingar. En báðir aðilar virtu þau grundvallaratriði, sem um var að ræða. Þeir höfðu ráðið okkur og þeir gátu rekið okkur en á meðan við gegndum þessum störfum réðum við ritstjórnarstefnu Morgunblaðsins.

Morgunblaðið var heppið með eigendur sína og við, starfsmenn blaðsins, vorum heppnir með vinnuveitendur okkar.

Styrmir Gunnarsson styrmir@styrmir.is

Höf.: Styrmir Gunnarsson styrmir@styrmir.is