Samþykkt hefur verið í Þýskalandi að heimila foreldrum barna sem eru með óljóst kyn að skrá þau hvorki sem dreng eða stúlku. Kynið er skilgreint sem „óákveðið kyn“.
Þýskaland verður fyrsta landið í Evrópu til að stíga þetta skref, að sögn fréttaveitunnar AFP . Tilgangur lagasetningarinnar er að létta þrýstingi af foreldrum þegar þau eignast börn með óljóst kyn. Árlega fæðast um 2.000 börn í Þýskalandi sem bera einkenni beggja kynja.
„Er hvorki karl né kona“
Stundum hefur verið gripið til skurðaðgerða til að laga kynfæri barna, en talsmenn laganna segja að þá sé ekki tekið tillit til óska barnanna sjálfra og dæmi séu um að með þessu inngripi hafi einstaklingur verið settur í vitlaust kyn.Stuðningsmenn laganna segja að til séu margar sorglegar sögur af því hvernig þrýstingur á að taka af skarið hefur haft slæm áhrif á líf fólks með óljóst kyn. Einn einstaklingur sem gekkst undir skurðaðgerð sem barn gagnrýnir aðgerðina sem hann fór í. „Ég er hvorki karl né kona. Ég mun alla tíð verða eins konar bútasaumur sem læknar bjuggu til með skurðaðgerðum.“
Í vegabréfi er fólk annað hvort skráð sem karl eða kona, en þeir sem tilheyra hvorugu kyninu verða skráðir sem X. egol@mbl.is