Guðrún Hálfdánardóttir hóf störf á mbl.is í október 1997 sem fyrsti blaðamaðurinn þar þegar undirbúningur að því að hleypa mbl.is af stokkunum stóð yfir. Í október ári síðar færði hún sig um set og tók við starfi fréttastjóra viðskipta á Morgunblaðinu, en í október 2004 sneri hún aftur á netið í fréttastjórn og er nú fréttastjóri á mbl.is ásamt Sunnu Ósk Logadóttur.
„Net og blað eru í raun mjög ólíkir miðlar,“ segir Guðrún. „Á netinu er sagt frá hlutum um leið og þeir gerast. Í blaðinu er nálgunin önnur, lengri tími liðinn og oft um leið kafað dýpra en á netinu.“
Hún segir að það sé þó að breytast og sjáist best í erlendum fréttum: „Nú er ekki mikil áhersla á erlend málefni í Morgunblaðinu. Við leggjum miklu meiri áherslu á erlendar fréttir á netinu en blaðið gerir í dag.“
Guðrún telur að mbl.is hafi undanfarið færst að vissu leyti frá blaðinu.
„Við höfum tekið öðru vísi mál fyrir en Morgunblaðið,“ segir hún. „Þar má nefna dómsmál og mannréttindamál. Málefni innflytjenda og réttindi samkynhneigðra hafa verið ofarlega á baugi hjá okkur, staða karla, kvenna og barna.“
Dægurmál ráða ekki för
Lestur frétta má nú mæla í rauntíma þannig að hægt er að sjá hversu mikið hver frétt er lesin. Guðrún segir að ekki sé hægt að láta það stjórna fréttaflutningnum.„Þetta hefur í raun ótrúlega lítil áhrif,“ segir hún. „Það er fullt af fréttum, sem skipta miklu máli án þess að þær fái mikinn lestur, en við skrifum þær samt. Ef við ættum að hætta að segja frá stríðinu í Sýrlandi vegna þess að lesturinn er ekki mikill væri illa komið fyrir okkur sem fjölmiðli. Auk þess held ég líka að fólk fái alveg nóg af dægurfréttum á borð við að maður hafi bitið hund eða dægurstjarna hafi fengið sér fyllingar í varirnar. Þetta eru fínar fréttir til að hafa með, en fjölmiðill, sem á að hafa breiða skírskotun, verður ekki rekinn á svona fréttum. Slíkur miðill er sjálfdauður.“
Vefur í stöðugri þróun
Guðrún er þeirrar hyggju að vefmiðill sé frekar í samkeppni við ljósvakamiðla, en dagblöð.„Mbl.is er í samkeppni við aðra vefmiðla og ljósvakamiðlana, en samkeppnin við dagblöðin er mjög lítil,“ segir hún. „Við gerum ráð fyrir að fréttastreymið sé stöðugt á mbl.is og regluleg hreyfing sé á forsíðunni. Við sjáum að margir fara mjög oft inn á síðuna, kannski átta til tíu sinnum á dag að meðaltali. Við viljum ekki að fólk sjái alltaf sömu fréttina efst því þá er eins og ekkert hafi gerst. Með því að hafa svona mikla hreyfingu verður mbl.is að vissu leyti eins og fréttaveita eða fréttastofa. Efnið á mbl.is er gríðarlega mikið. Við erum með marga undirvefi og fréttirnar á þeim sjást á forsíðunni hjá okkur, ólíkt því sem gerist á vefjum eins og BBC. Vefurinn hefur þróast á þann hátt að frá hálf sex á morgnana til miðnættis er hreyfing á mbl.is og komi eitthvað upp um miðja nótt förum við af stað.“
Að nýta hljóð, mynd og grafík
Mbl.is er vefur í stöðugri þróun. Guðrún segir að undanfarið ár hafi átt sér stað breyting frá stuttum fréttum yfir í fréttaskýringar, viðtöl og myndasyrpur.„Ég vona að við eigum eftir að halda áfram að þróa þetta,“ segir hún. „Minn draumur er að ná lengra í að nýta saman hljóð, mynd og grafík og virkja skynjunina meira þannig að notandinn sé ekki bara með texta fyrir framan sig, heldur geti kynnt sér efnið eftir ýmsum leiðum. Það þarf þó að fara varlega í þeim efnum og vanda til verka því að annars er hætt við að lesandinn þreytist. En það er bara bull að fólk nenni ekki að lesa mikið á skjá, þess vegna sé ekki hægt að bjóða upp á langar greinar á netinu. Ég hélt þetta sjálf, en maður finnur í dag að þetta á sér enga stoð. Fólk les heilu bækurnar á skjá, háskólanemar í dag lesa nánast allt námsefnið á skjá. Fólk er orðið vant því að skjárinn er miðillinn. Ég finn það sjálf eftir að hafa unnið bæði á blaði og neti að nú finnst mér ekkert mál að lesa af skjá þótt mér hafi fundist það fyrst og ég held að það eigi við um stóran hluta þjóðarinnar.“
Þegar vefmiðlar voru að hefja göngu sína var takmörkuð virðing borin fyrir þeim og þeir voru hálfgerð olnbogabörn á þeim fjölmiðlum, sem þeir tengdust. Nú er öldin önnur.
„Ég held að margt hafi breyst í þessum efnum,“ segir Guðrún. „Lestrartölurnar segja sína sögu og viðbrögðin við því sem maður skrifar undir nafni á mbl.is segir sína sögu. Það sem skiptir hins vegar mestu er að ritstjórn mbl.is er skipuð frábærum hópi sem leggur metnað sinn í að skila vönduðu og áhugaverðu efni til lesenda sinna. Sú vinna skilar þeim árangri að mbl.is er mest lesni fjölmiðill landsins og sá fjölmiðill sem nýtur næst mest trausts meðal almennings á eftir RÚV.“
Mbl.is fór í loftið 2. febrúar 1998, á þeim tíma sem fyrstu fréttavefirnir voru að verða til á Íslandi. Öll vinnsla og forritun var þá miklu þunglamalegri en í dag auk þess sem markaðurinn var minni vegna þess að þetta var nýjung. „Nú leggjum við áherslu á að auka fjölbreytni og dýpt þannig að fólk þurfi ekki að leita annað til að fá upplýsingar.“