Silja Björk Huldudóttir
silja@mbl.is
„Verkið fjallar um konu sem selur móðurást, en viðskiptavinir hennar eru stóru börnin sem koma til hennar með ólíkt veganesti úr lífinu,“ segir Lilju Sigurðardóttur, höfundur leikritsins Stóru börnin , sem leikhópurinn Lab Loki frumsýnir í Tjarnarbíói í kvöld kl. 20. Óhætt er að segja að það sé skammt stórra högga á milli hjá Lab Loka, því seinasta frumsýning leikhópsins á nýju íslensku leikriti var í vor sem leið þegar hann setti upp Hvörf sem byggðist á Guðmundar- og Geirfinnsmálinu. Leikstjóri beggja uppsetninga er Rúnar Guðbrandsson, sem stofnaði Lab Loka fyrir tuttugu árum, en með hlutverk fara Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir, Árni Pétur Guðjónsson, Birna Hafstein og Stefán Hallur Stefánsson.
„Þetta er flott verk um mannleg samskipti í mjög svo fjölbreyttri mynd, sem er sett inn í brjálað samhengi,“ segir Rúnar og tekur fram að hann hafi strax heillast af verkinu. „Mér fannst grunnhugmynd verksins afburðasnjöll, þ.e. að setja fólk inn í þennan heim sem felur í sér ákveðinn hlutverkaleik sem er oft mjög þakklátt í leikhúsinu. Þetta er flott dramatísk hugmynd og ekki spillir fyrir hversu flinkur plottari Lilja er,“ segir Rúnar.
Leikritaskrif lengi heillað
Stóru börnin er fyrsta sviðsverk Lilju, en á árunum 2009 og 2010 gaf bókaútgáfan Bjartur út glæpasögur hennar Spor og Fyrirgefning . Spurð um tilurð Stóru barnanna svarar Lilja: „Mig hafði lengi til að prófa að skrifa leikrit og var með góða hugmynd.“ Þegar Leikskáldafélagið í samstarfi við Þjóðleikhúsið bauð upp á höfundasmiðju sl. sumar sótti Lilja því um og komst að. „Ég var komin með gróf drög þegar ég sótti um og smiðjan reyndist mér mjög vel við áframhaldandi þróun verksins,“ segir Lilja og tekur fram að bakgrunnur hennar sem glæpasagnahöfundur geri það að verkum að hún sé mjög upptekin af söguþræðinum og dramatískri framvindu.Lilja er m.a. uppeldisfræðingur að mennt og því liggur beint við að spyrja hvort sá bakgrunnur hafi nýst henni við skrifin. „Já, því þetta er verk sem fjallar um þroska manneskjunnar og barnæskuna með áherslu á það sem getur farið úrskeiðis. Sum barnanna í verkinu þroskast og því nýttist þroskasálfræðin mér vel.“
Að sögn Lilju var það skemmtileg tilviljun að Rúnar var fenginn til að leikstýra og vinna með hennar leikrit í höfundasmiðjunni, því þau hafi lengi verið vinir. Í framhaldinu ákváðu þau að leikhópur Rúnars, Lab Loki, myndi setja verkið upp.
Fjallar um verslun með ást
„Hugmyndina að verkinu fékk ég þegar ég á námsárum mínum í Bretlandi sá heimildamynd í sjónvarpinu um „infantílista“,“ segir Lilja og útskýrir að „infantílistar“ sé fólk sem þráir að haga sér og láta annast sig eins og það sé börn. „Þessi mynd hefur setið í mér sl. þrettán ár, því þetta er svo áhugavert efni. Auk þess býður það upp á mjög skemmtilega og sjónræna möguleika,“ segir Lilja og tekur fram að svo ótrúlega vilji til að Rúnar hafi séð sömu heimildarmynd á sama tíma og hún þar sem hann bjó einnig í Bretlandi á þessum árum.„Hann heillaðist líka af þessu efni og hafði lengi langað til að gera sýningu um það. Maður spyr sig hvort þetta hafi verið hrein tilviljun eða karma að leiðir okkar lágu saman um þetta verkefni,“ segir Lilja.
Í samtali við blaðamann segja Rúnar og Lilja leikritið marglaga og að skilja megi það á ólíka vegu. „Verkið býður upp á djúpköfun í mannssálina og tekur á klassískum þáttum á borð við vald, mörk, boð og bönn,“ segir Rúnar og Lilja grípur boltann á lofti: „Verkið fjallar um verslun með ást, sem með öðrum orðum er vændi. Þannig spyrjum við spurninga um sálarástand þeirra sem versla með ást. En það má líka horfa á verkið sem hefðbundið fjölskyldudrama í óvenjulegri umgjörð,“ segir Lilja.
Þarf ekki próf til að skilja
„Svo má líka bara koma í leikhúsið og skemmta sér án þess að þurfa að skilja verkið á einhvern ákveðinn hátt. Áhorfendur þurfa ekki að vera með meistarapróf í bókmenntafræði til að geta skilið og notið sýningarinnar,“ segir Lilja og bætir við: „Mér finnst mikilvægt að vekja áhorfendur til umhugsunar og því gott ef þeir yfirgefa leikhúsið með fleiri spurningar í huganum en þegar þeir mættu.“Aðspurð segist Lilja orðin heilluð af leikhúsforminu og því sé hún þegar komin langt með næsta sviðsverk sem Lab Loki mun einnig setja upp, að sögn Rúnars, um leið og búið sé að fjármagna uppsetninguna. „Það heitir Valdarán og fjallar um valdarán í alls kyns myndum,“ segir Lilja að lokum.
Rétt er að geta þess að aðstandendur benda á að þrátt fyrir vinalegan titil sé verkið ekki við hæfi barna. Allar nánari upplýsingar og miðasala er á tjarnarbio.is.