Stefán Eiríksson skrifaði íþróttafréttir, sem oft eru síðasta efnið, sem unnið er í blaðið: „Þá sat maður og hamraði inn síðustu orðin í umfjöllun um leiki kvöldsins, með heila hersingu yfir sér sem beið eftir afrakstrinum og því að setja vélarnar í gang.“
Stefán Eiríksson skrifaði íþróttafréttir, sem oft eru síðasta efnið, sem unnið er í blaðið: „Þá sat maður og hamraði inn síðustu orðin í umfjöllun um leiki kvöldsins, með heila hersingu yfir sér sem beið eftir afrakstrinum og því að setja vélarnar í gang.“ — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Morgunblaðið hefur fylgt mér með einum eða öðrum hætti eins lengi og ég man eftir mér.

Morgunblaðið hefur fylgt mér með einum eða öðrum hætti eins lengi og ég man eftir mér. Afi minn og amma norður á Akureyri, Stefán Eiríksson og Jódís Kristín Jósefsdóttir, voru umboðsmenn blaðsins á Norðurlandi og sáu um dreifingu þess með öllu því umstangi sem því fylgdi. Margar af mínum fyrstu minningum snúast því um blaðið; ég man eftir því að hafa verið í bílnum með afa þegar hann var að dreifa því á Akureyri og í glugganum á Moggahöllinni í Hafnarstræti þangað sem blaðburðarbörnin mörg hver sóttu blöðin. Seinna meir bættist ég í hóp þeirra og var það mín fyrsta launaða vinna. Það var afar forvitnilegt að kynnast fjölmiðlun frá þessari hlið, hvernig dreifingarnet var byggt upp og viðhaldið á stóru svæði og því viðamikla og fjölbreytilega starfi sem þessu fylgdi hjá afa og ömmu.

Þegar ég var í háskólanámi sótti ég um sumarstarf á Mogganum og varð að ósk minni þegar ég komst að í íþróttafréttunum. Fyrsta sumarið sem ég starfaði á blaðinu var óvenju viðburðaríkt. Þetta var sumarið 1992 þegar mikið var um að vera í heimi íþróttanna, bæði Ólympíuleikar í Barcelona og úrslitakeppni EM í knattspyrnu. Svo mikið var um að vera á tímabili að gefnir voru út sérstakir íþróttakálfar dag eftir dag, minnst átta síður og oftar en ekki mun stærri. Þetta kallaði á mikla vinnu hjá blaðamönnum íþróttadeildarinnar þar sem setið var við frá morgni til kvölds við að afla upplýsinga, skrifa fréttir, finna myndir og setja upp blaðið. Samhliða var fylgst með innlendum íþróttaviðburðum og oftar en ekki var tíminn til að skila inn síðasta efninu ansi naumur. Allt hafðist þetta að lokum og slysin voru vonandi ekki mörg. Mér er þó minnisstætt þegar Magnús Óskarsson borgarlögmaður hringdi einn morguninn og kraumaði í honum hláturinn vegna fyrirsagnar í blaði dagsins sem ég hafði skrifað. Magnús safnaði um árabil skondnum fyrirsögnum úr blöðum og þótti honum þessi eiga heima í því safni, en um var að ræða umfjöllun um leik í úrslitakeppni EM í knattspyrnu. Tvö atriði stóðu upp úr eftir leikinn, annars vegar heppni Þjóðverja við að krækja í jafntefli í fyrsta leik og hins vegar að fyrirliði þeirra og helsta stjarna, Rudi Völler, handleggsbrotnaði í leiknum. Að sjálfsögðu var hægt að klúðra þessu, Magnúsi og öðrum til mikillar skemmtunar.

Næstu árin var ég viðloðandi íþróttadeildina, var í fullu starfi yfir sumarið og sinnti ýmsum verkefnum yfir veturinn á íþróttasviðinu. Í sumarbyrjun í nokkur ár fylgdist ég náið með stórviðburðum á borð við Wimbledonmótið í tennis og Tour de France-hjólreiðakeppninni og kynnti mér allt það helsta í kringum þá viðburði. Lagt var upp með að sinna öllum helstu íþróttaviðburðum vel með þarfir íþróttaáhugamanna í huga og um leið að kynna íþróttagreinar og fjalla um söguleg atriði og helstu reglur og viðmið. Notast var við skýringarmyndir frá erlendum fréttastofum og stundum þurfti töluvert að leggja á sig til þess að ná öllum atriðum réttum. Þetta var jú á þeim tíma sem farsímaeign var ekki almenn og netið með litla útbreiðslu og man ég eftir einu tilviki þar sem ég þurfti að fara út og leita uppi fimleikasérfræðing til þess að bera undir hann hvort þýðingar á hugtökum væru réttar.

Með mér í deildinni á þessum árum störfuðu miklir snillingar, þrautreyndir íþróttafréttamenn sem höfðu mikla ástríðu fyrir sínu starfi. Þarna lærði maður eitt og annað, þar á meðal að vinna undir mikilli pressu því oftar en ekki var efni frá íþróttadeildinni það eina sem vantaði áður en blaðið fór í prentun. Þá sat maður og hamraði inn síðustu orðin í umfjöllun um leiki kvöldsins, með heila hersingu yfir sér sem beið eftir afrakstrinum og því að setja vélarnar í gang. Það var sannkallað draumastarf fyrir íþróttaáhugamann að fá að skrifa um íþróttir. Það besta við starfið var þó að fá að vinna með öllu þessu frábæra fólki, ljósmyndurum, blaðamönnum, umbrotsmönnum og öllum þeim öðrum sem komu að útgáfu blaðsins. Sannkallað draumalið.