Það heyrir nánast til undantekninga ef Alfreð Finnbogason skorar ekki fyrir Heerenveen. Þessi magnaði markaskorari hefur ekki náð að skora í síðustu tveimur leikjum liðsins en sjálfur kippir hann sér ekkert upp við það. „Cristiano Ronaldo og Lionel Messi skora ekki einu sinni í hverjum leik,“ sagði Alfreð á vef hollenska liðsins í vikunni. Alfreð er markahæstur í hollensku úrvalsdeildinni með ellefu mörk í níu leikjum.
Talandi um markaskorara. Margrét Lára Viðarsdóttir er sannkölluð markavél. Hún skoraði í vikunni sitt 71. mark fyrir íslenska landsliðið í 94. leiknum. Þetta er ótrúleg tölfræði og gerist vart betri í fótboltaheiminum. Ég sé alveg fyrir mér að Margrét brjóti 100 marka múrinn.
Litlu „ólympíuleikarnir“ fara fram í líkamsræktarstöðinni minni, Hress, í dag. Hressleikarnir svokölluðu hafa verið árlegur viðburður síðustu árin. Það verður svitnað og púlað fyrir frábært málefni í tvo klukkutíma og að þessu sinni verður fjölskylda á Völlunum í Hafnarfirði styrkt, hjónin Hanna Rósa Sæmundsdóttir og Jóhann Kristján Konráðsson og barn þeirra, Tanya Elísabeth. Hún er tíu ára en fimm ára greindist hún með Pseudoachondroplasia, sem lýsir sér m.a. í dvergvexti, gigt og veikum fótum. Þá greindist Hanna Rósa með krabbamein fyrir stuttu og þurfti að gangast undir lyfjameðferð og aðgerð í framhaldinu.