Vá hvað markið sem Gylfi Þór Sigurðsson skoraði fyrir Tottenham gegn Hull í vikunni var glæsilegt. Af mörgum glæsilegum mörkum sem Hafnfirðingurinn hefur skorað á ferli sínum held ég að þetta sé eitt það fallegasta.
Vá hvað markið sem Gylfi Þór Sigurðsson skoraði fyrir Tottenham gegn Hull í vikunni var glæsilegt. Af mörgum glæsilegum mörkum sem Hafnfirðingurinn hefur skorað á ferli sínum held ég að þetta sé eitt það fallegasta. Afgreiðslan var hreint út sagt frábær hjá Gylfa og hvernig hann lagði boltann fyrir sig áður en hann lét skotið ríða af er bara á færi þeirra allra bestu.

Það heyrir nánast til undantekninga ef Alfreð Finnbogason skorar ekki fyrir Heerenveen. Þessi magnaði markaskorari hefur ekki náð að skora í síðustu tveimur leikjum liðsins en sjálfur kippir hann sér ekkert upp við það. „Cristiano Ronaldo og Lionel Messi skora ekki einu sinni í hverjum leik,“ sagði Alfreð á vef hollenska liðsins í vikunni. Alfreð er markahæstur í hollensku úrvalsdeildinni með ellefu mörk í níu leikjum.

Talandi um markaskorara. Margrét Lára Viðarsdóttir er sannkölluð markavél. Hún skoraði í vikunni sitt 71. mark fyrir íslenska landsliðið í 94. leiknum. Þetta er ótrúleg tölfræði og gerist vart betri í fótboltaheiminum. Ég sé alveg fyrir mér að Margrét brjóti 100 marka múrinn.

Litlu „ólympíuleikarnir“ fara fram í líkamsræktarstöðinni minni, Hress, í dag. Hressleikarnir svokölluðu hafa verið árlegur viðburður síðustu árin. Það verður svitnað og púlað fyrir frábært málefni í tvo klukkutíma og að þessu sinni verður fjölskylda á Völlunum í Hafnarfirði styrkt, hjónin Hanna Rósa Sæmundsdóttir og Jóhann Kristján Konráðsson og barn þeirra, Tanya Elísabeth. Hún er tíu ára en fimm ára greindist hún með Pseudoachondroplasia, sem lýsir sér m.a. í dvergvexti, gigt og veikum fótum. Þá greindist Hanna Rósa með krabbamein fyrir stuttu og þurfti að gangast undir lyfjameðferð og aðgerð í framhaldinu.