Af airwaves
Hildur Hjörvar
hhjorvar@mbl.is
Annar í Airwaves hófst með örlítið minna roki og örlítið fleiri búningaklæddum hátíðargestum en kvöldið áður, enda hrekkjavaka. Leið blaðamanns lá fyrst í Iðnó, þar sem hljómsveitin Nóra hóf kvöldið fyrir hálffullum sal veðurhrakinna áhorfenda og skildi eftir sig umtalsvert hressari mannmergð. Hljómsveitin lék grípandi og melódískt indíkrúttrokk við sjarmerandi söng systkinanna Auðar og Egils.
Þá var haldið í Gamla bíó, sem er í fyrsta sinn notað sem tónleikastaður á Airwaves. Biggi Hilmars steig þar á svið með talsvert af nýju efni í takt við það sem hann hefur gert með Ampop og var vel fagnað af áhorfendum. Lokalagið stakk þó í stúf, sungið á íslensku og talsvert hressilegra en það sem hefur áður heyrst frá honum.
Næstir á svið Gamla bíós voru stimamjúku strákarnir í Árstíðum, sem slógu rækilega í gegn í netheimum á dögunum með upptöku af Heyr himna smiður, sungnu á lestarstöð í Þýskalandi. Eins og við mátti búast var salurinn troðfullur og hentaði sitjandi uppsetning Gamla bíós Árstíðum ólíkt betur en Bigga Hilmars. Harmónían, innlifunin, samspil strengjahljóðfæranna og samræmdur klæðnaðurinn sköpuðu heilt yfir svo fallega sýningu að blaðamaður varð óneitanlega dálítið skotinn í þessu öllu saman. Þegar drengirnir lögðu svo frá sér hljóðfærin og tóku sálminn góðkunna var ekki laust við að áhorfendur féllu í hálfgerðan trans, svo mjög að heilar tíu sekúndur liðu áður en salurinn áttaði sig á því að lagið væri búið og tímabært væri að klappa.
Við tók hljómsveitin Hjaltalín í Silfurbergi Hörpunnar og var seiðandi og kraftmikil að vanda og tók talsvert af sínu nýrra, rafmagnaðra efni. Hápunktur tónleikanna var flutningur Sigríðar Thorlacius á lagi Beyoncé, Halo, sem var sungið af svo mikilli innlifun að hjörtu áhorfenda slógu í takt.
Margir höfðu beðið komu bandarísku indírokkhljómsveitarinnar Yo La Tengo með óþreyju, en hljómsveitin hefur starfað í hartnær þrjá áratugi og hefur hróður hennar farið víða. Blaðamaður varð fyrir ákveðnum vonbrigðum framan af, þar sem flutningurinn fór hægt og hálfþreytulega af stað. Sveitin vann þó á og kláruðu hinir yndislega miðaldra og blátt áfram rokkarar kvöldið af krafti.
Í samræmi við akademískt viðurkennda uppbyggingu ritgerða lauk kvöldinu svo einnig í Iðnó og var stemningin síður en svo dauflegri en þegar blaðamaður skildi við staðinn fyrr um kvöldið. Þar lék fyrir dansi breska þríeykið Stealing Sheep, sem spilaði orkumikið og þétt rafpopp með miðaldaívafi. Stemningin var rífandi og varla sá bossi í salnum sem ekki dillaði undir lok kvölds. Að tónleikum loknum hélt blaðamaður heim á leið, glottandi í kampinn yfir hrifningu erlendra hátíðargesta á dansandi norðurljósunum.