Halla Gunnarsdóttir segir að skemmtilegasta hlutverkið, sem hún fékk á Morgunblaðinu, hafi verið starf þingfréttaritara þar sem hún mætti tortryggni úr ýmsum áttum.
Halla Gunnarsdóttir segir að skemmtilegasta hlutverkið, sem hún fékk á Morgunblaðinu, hafi verið starf þingfréttaritara þar sem hún mætti tortryggni úr ýmsum áttum. — Morgunblaðið/Kristinn Ingvarsson
Það var stundum gantast með það að skipurit ritstjórnar Morgunblaðsins væri ekki þríhyrningslaga, heldur eins og sveppur.

Það var stundum gantast með það að skipurit ritstjórnar Morgunblaðsins væri ekki þríhyrningslaga, heldur eins og sveppur. Við, skrifandi blaðamennirnir, værum stöngullinn, svo tækju við hinir mörgu millistjórnendur og loks aðstoðarritstjórarnir og ritstjórinn eins og kollhúfa á sveppnum.

Ég hafði ekki starfað lengi á Morgunblaðinu þegar ég áttaði mig á því að þetta gat verið kostur fyrir ákafan blaðamann. Tæki einn fréttastjóri dræmt í einhverja hugmyndina um úttekt eða frétt gat ég leitað til annars og smám saman lærði ég inn á ólík áhugasvið millistjórnendanna og gat þar af leiðandi komið flestu að sem mér datt í hug.

Starf blaðamannsins snýst þó aðeins að hluta til um hans eigin hugmyndir. Mér hefði til dæmis varla dottið í hug að reka nefið inn á alþjóðlega ráðstefnu tannlækna og fræðast um fyrstu viðbrögð við tannmissi. Og tæplega hefði ég fundið upp á því að leita systur Ruth uppi í Reykjavík, en hún ferðaðist um heiminn með líkneski af Maríu mey í fanginu til að boða fagnaðarerindið.

Inn á milli fékk frumkvæði mitt að njóta sín og þetta átti vel við mig – að tala við fólk eða grafast fyrir um upplýsingar og koma á framfæri með skiljanlegum hætti. Ég hafði (og hef) ástríðu fyrir einfaldleikanum og þannig þótti mér t.d. gefandi að halda utan um auðlesið efni Morgunblaðsins, sem voru vikulegar fréttir á einföldu máli og prentaðar stóru letri.

Skemmtilegasta hlutverkið sem ég fékk á Morgunblaðinu var starf þingfréttaritara, en því gegndi ég frá ársbyrjun 2007 og þar til staðan var lögð niður um það leyti sem búsáhaldabyltingunni lauk. Fyrstu vikuna mína á Alþingi var aðeins eitt mál á dagskrá: Heildarlög um Ríkisútvarpið, sem kváðu á um að það skyldi verða opinbert hlutafélag. Ég tók starf mitt alvarlega og sat löngum stundum yfir umræðunum sem tóku í það heila yfir 100 klukkustundir og voru þannig einar lengstu umræður þingsögunnar.

Árvekni mín var ekki tilkomin að ástæðulausu. Ég bæði vildi og þurfti að sanna mig. Skiptar skoðanir höfðu verið um það í millistjórnendalagi Morgunblaðsins að hleypa í þetta starf 26 ára gamalli konu sem opinberað hafði vinstriskoðanir sínar. Blessunarlega var ekki algild hugmyndafræði á Morgunblaðinu að hlutleysi væri æðsta takmark blaðamennsku og að því yrði aðeins náð að blaðamenn segðu aldrei skoðanir sínar. Sanngirni, sagði Karl Blöndal aðstoðarritstjóri og hana reyndi ég alltaf að hafa að leiðarsljósi í skrifum mínum.

Sjálfstæðismenn áttu hins vegar sumir erfitt með veru mína í þinghúsinu, þeim þótti þeir enn eiga tilkall til Moggans og þar af leiðandi kröfu á að hlutast til um hver gegndi stöðu þingfréttaritara. Þeir lásu fréttir mínar með því hugarfari að ég héldi aðeins á penna til að plotta yfirtöku villta vinstrisins. Á sama tíma grunuðu sumir vinstri menn mig um hægri græsku, enda var þetta á þeim tíma að margir töldu mig og alnöfnu mína, bróðurdóttur Styrmis Gunnarssonar, eina og sömu manneskjuna, sem hlyti ættartengsla sinna vegna að vera þingfréttari til þess eins að ganga erinda Sjálfstæðisflokksins.

Árin mín sex á Morgunblaðinu voru stuttur tími í 100 ára sögu blaðsins, en langur tími í mínu lífi og mikilvægur hluti af starfstengdu uppeldi mínu. Á þessum tímamótum hugsa ég hlýlega til alls þess góða fólks sem ég fékk að starfa með og læra af og óska afmælisbarninu góðs, að það megi lifa heilt og flytja landsmönnum fréttir sem skrifaðar eru af sanngirni og þekkingu.