Kristinn Ingi Jónsson
kij@mbl.is
„Ég bara bíð rólegur,“ segir Guðmundur Felix Grétarsson í samtali við Morgunblaðið, en hann bíður í Frakklandi eftir handleggjaágræðslu. Guðmundur hefur búið í frönsku borginni Lyon frá því í byrjun sumars en hann missti, sem kunnugt er, báða handleggi sína í vinnuslysi fyrir um fimmtán árum.
Hann bíður nú eftir því að vera settur á biðlista eftir handleggjum og segist aðspurður ekki vita hvenær hann komist á listann. „Ég vona að ég komist inn fyrir áramót.“
Byrjaðir að leita út fyrir Lyon
Í fyrstu stóð til að Guðmundur færi í handleggjaágræðslu í Lyon en hann segir að þeir séu nú byrjaðir að leita út fyrir borgina til að flýta ferlinu. „Þá er komin heimild til að handleggirnir verði nýttir fyrstir af gjafanum, en ekki til dæmis hjarta eða lungu,“ segir Guðmundur.Á mánudaginn fer hann í sína seinni mátun á skurðarborðið og þann 12. nóvember næstkomandi mun hann hitta starfsfólkið á endurhæfingarstöðinni.
„Þetta er allt á ágætu skriði. Ég vildi nú samt óska þess að þetta gerðist allt hraðar. En ég er svo sem orðinn vanur að bíða.“