[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sveinn fæddist á Barónsstíg 24 í Reykjavík 2.11. 1943 og ólst þar upp. Hann var auk þess í sveit á sumrin: „Ég og Ingimundur Sveinsson, síðar arkitekt, vorum kúasmalar á býli Thorsaranna á Lágafelli í Mosfellssveit. Ég var þar í tvö sumur.

Sveinn fæddist á Barónsstíg 24 í Reykjavík 2.11. 1943 og ólst þar upp. Hann var auk þess í sveit á sumrin: „Ég og Ingimundur Sveinsson, síðar arkitekt, vorum kúasmalar á býli Thorsaranna á Lágafelli í Mosfellssveit. Ég var þar í tvö sumur. Þarna voru 50 mjólkandi kýr og heyvinnslutækin voru dregin af hrossum. Síðar var ég í sveit á Kleifum í Gilsfirði hjá föðurbróður mínum.“

Sveinn lauk landsprófi frá Gagnfræðaskóla Austurbæjar, stundaði nám við ML skamma hríð, lauk stúdentsprófi frá MR 1964 og embættisprófi í lögfræði frá HÍ 1971.

Sveinn vann við vatnamælingar með Sigurjóni Rist á menntaskólaárunum, kenndi við Gagnfræðaskóla Austurbæjar 1965 og 1966 og var gæslumaður á Kleppi á háskólaárunum.

Sveinn var fulltrúi hjá sýslumanninum í Barðastrandarsýslu 1971, settur sýslumaður þar 1973, fulltrúi hjá sýslumanninum í Skaftafellssýslu í árslok 1971 og settur sýslumaður þar um skeið 1972 og 1973, fulltrúi hjá bæjarfógetanum í Keflavík, Grindavík og Njarðvík og sýslumanninum í Gullbringusýslu 1974, settur héraðsdómari við þau embætti 1982-83, og aftur 1986, skipaður héraðsdómari við sama embætti 1988 og síðan héraðsdómari við Héraðsdóm Reykjaness 1992 og gegndi því starfi þar til í fyrradag.

Sveinn lék með danshljómsveitum á sínum yngri árum, var einn af stofnendum Golfklúbbs Grindavíkur og fyrsti formaður hans 1981-84, sat í stjórn Knattspyrnufélagsins Víkings og í unglingaráði félagsins, og í stjórn körfuknattleiksdeildar ÍR.

Áhugamál Sveins snúast um skák, brids, golf, ljóð og lausavísur, djass og ýmsa aðra tónlist: „Ég tefldi mikið á æsku- og unglingsárunum og tefldi um árabil við vin minn sem nú er látinn, Stefán Reyni Kristinsson, forstjóra Spalar. Svo hef ég átt ýmsa góða spilafélaga sem of langt mál yrði að telja hér upp.

Ég byrjaði ungur að spila á píanó, lék með danshljómsveitum á menntaskólaárunum og spilaði m.a. í Breiðfirðingabúð, Ingólfskaffi og Vetrargarðinum með danshljómsveitinni Taboo.

Ég byrjaði að leika golf 1979 og var bara orðinn nokkuð góður en fékk þá í bakið, dró þá úr golfiðkun og hef nánast ekkert leikið sl. 15 ár. Nú er ég hins vegar búinn að draga golfsettið fram aftur og farinn að rifja upp gamla takta.

Loks hef ég haft áhuga á lausavísum eins og faðir minn sem gaf út Vísnagátur og Gátu vísur. Ég hef líka alltaf verið veikur fyrir góðum ljóðum og hef mikið dálæti á t.d. Stephani G. Stephanssyni, Steini Steinarr, Jóni Helgasyni og Hannesi Péturssyni.“

Fjölskylda

Sveinn kvæntist 30.12. 1972 Ragnhildi Jóhannesdóttur, f. 15.11. 1945, kennara og viðskiptafræðingi. Hún er dóttir Jóhannesar Ragnars Bergsteinssonar, f. 3.1. 1912, d. 10.12. 2010, múrarameistara í Reykjavík, og k.h., Dýrleifar Hermannsdóttur, f. 2.2. 1918, d. 7.11. 1989, húsfreyju.

Börn Sveins og Ragnhildar eru Jóhannes Karl, f. 4.12. 1967, hrl. í Reykjavík en kona hans er Kristjana Þórdís Jónsdóttir þýskukennari og eru börn þeirra Hrefna, Sigurkarl, Hafliði og Þórdís; Gunnhildur, f. 23.12. 1971, hjúkrunarfræðingur hjá Rauða krossi Íslands, búsett í Reykjavík en maður hennar er Guðni Magnús Eiríksson líffræðingur og eru dætur þeirra Auður Lóa og Ásdís Hanna; Þorbjörn Atli, f. 30.8. 1977, hagfræðingur hjá Straumi og fyrrv. knattspyrnukappi, búsettur í Reykjavík en kona hans er Ragnheiður Arnardóttir hjúkrunarfræðingur og eru börn þeirra Þorri Stefán, Sveinn Ingi og Guðlaug Ranka; Anna Þóra, f. 22.5. 1983, nemi við Akademie der Bildenden Künste í Nürnberg.

Systkini Sveins: Anna, f. 14.7. 1927, d. 26.4. 2010, kennari; Stefán, f. 12.7. 1930, lyfsali búsettur í Reykjavík; Guðjón, f. 17.10. 1931, d. 19.5. 2012, lengst af læknir á Selfossi; Sigurður Karl, f. 30.9. 1939, fyrrv. fjármálastjóri, búsettur í Hafnarfirði; Gísli Kristinn, f. 24.1. 1942, d. 2.4. 2013, lögfræðingur.

Foreldrar Sveins voru Sigurkarl Stefánsson, f. 2.4. 1902, d. 29.9. 1995, stærðfræðikennari við MR og dósent við HÍ, og Sigríður Guðjónsdóttir, f. 25.11. 1903, d. 20.10. 1984, húsfreyja.