Guðrún Jakobsdóttir fæddist á Akranesi 21. júlí 1961. Hún lést á gjörgæsludeild Landspítalans við Hringbraut 13. október 2013.
Útför Guðrúnar fór fram frá Fella- og Hólakirkju 24. október 2013.
Elsku systir. Þegar ég fékk fréttina um að þú hefðir verið flutt á spítala með hjartaáfall gerði ég ráð fyrir að þú fengir skjótan bata. Læknismeðferð myndi skila þér fljótt til baka. Því miður var það ekki raunin, fréttirnar sem bárust seinna um morguninn reyndust slæmar en vonin lifði. Síðan kom áfallið með fréttinni að ekki hefði tekist að bjarga þér. Þú varst alltaf samviskusöm og hugsaðir um aðra en gleymdir sjálfri þér. Fólkið sem þú annaðist hélt mikið upp á þig og dásamaði umhyggju þína og allt atlæti. Börnin þín nutu umhyggju sem og fjölskyldan öll. Í uppvexti fylgdum við foreldrum okkar í þeirra vinnu og hjálpuðum til eftir getu. Í minningunni varst þú alltaf sjálfri þér nóg. Á sumrin dundaðir þú við að tína blóm og skreyta dýrin með þeim. Frændur okkar á Bergi og frændsystkinin á Snældu voru félagar þínir í leikjum æskunnar. Ég var ekki tilbúin til að kveðja þig, elsku systir. Vera þín í þessum heimi var allt of stutt. Takk fyrir samveruna.
Elsku Óli, Sigga Þóra, Gunnar og Matthías Breki, innilegar samúðarkveðjur til ykkar og megið þið öðlast styrk til að halda áfram í lífsins ólgusjó.
Margrét (Magga).