Áróðursmenn Besta flokksins, sem eru margir og mikilvirkir, halda því fram að sá flokkur standi sig engu síður en aðrir flokkar við stjórn borgarinnar. Hann hafi þann kost að vera óhefðbundinn stjórnmálaflokkur, sem felur að vísu aðallega í sér að hann hefur verið algerlega ólýðræðislegur, og þeir sem fyrir hann starfi geri það á óhefðbundinn hátt. Leiðtoginn, Jón Gnarr Kristinsson borgarstjóri, er helst tekinn sem dæmi um slíkan óhefðbundinn stjórnmálamann. Hann er sagður sinna starfi sínu á óvenjulegan hátt, hann treysti öðrum, það er að segja embættismönnum borgarinnar, fyrir störfum sínum en sinni sjálfur því að skemmta borgarbúum og skapa stemningu í borginni.
Og því er haldið fram að þessi óvenjulegi stjórnmálaflokkur með þessa óvenjulegu stjórnmálamenn hafi ekkert staðið sig síður en hinir hefðbundnu flokkar. Hann hafi þvert á móti gert allt sem þurfti að gera og það jafnvel betur en hinir hefðu gert. Skemmtilegheitin séu þess vegna bara ánægjulegur bónus fyrir borgarbúa.
Þegar bent hefur verið á að ýmislegt hafi augljóslega verið að við stjórn borgarinnar, svo sem grassláttur á sumrin, snjómokstur á veturna, sorphirða árið um kring, misheppnuð endurhönnun á ýmsum götum borgarinnar, einstökum hverfum eða heildarskipulagi hennar, er því lítið eða ekkert svarað af hálfu kjörinna fulltrúa. Þeir fara í felur á meðan gagnrýnin gengur yfir og svo eru grímubúningarnir dregnir fram á nýjan leik ásamt áróðursmönnunum sem hjálpa við að dreifa athyglinni.
Á þennan undarlega og ólýðræðislega hátt hefur þetta gengið allt kjörtímabilið og sagan um að hinn óhefðbundni flokkur og hinir óhefðbundnu stjórnmálamenn hafi þrátt fyrir allt staðið sig býsna vel hefur náð að fljóta furðu vel ofan á í umræðunni.
Engin leið er að segja hvort grímubúningarnir munu duga áfram til að villa fólki sýn eða hvort fer fyrir þeim sem þá bera eins og konunginum góðkunna sem komst upp með að viðra sig klæðalaus þar til barnið benti á þá einföldu staðreynd að hann væri einmitt það, klæðalaus.
Í þessu efni er eitt sem gæti vafist fyrir þeim sem klæðast ýmiss konar grímubúningum og hafa hirð spunamanna til að villa fólki sýn. Beinharðar staðreyndir um fjárhagsstöðu og þar með um fjármálastjórn borgarinnar gæti orðið erfitt að fela á bak við grímu eða glys. Besti flokkurinn og þeir sem fyrir hann starfa munu til að mynda eiga erfitt með að víkja sér undan því að á valdatíma þeirra hefur Reykjavík hlaðið á sig skuldum á þeim ofsahraða að segja má að skuldastaðan hafi stökkbreyst. Þeir munu líka eiga erfitt með að spinna sig út úr þeirri staðreynd að þeir hyggjast hækka gjaldskrár borgarinnar langt umfram vísitöluhækkanir og stuðla með því sjálfir að hækkun vísitölunnar.
Staðreyndin er sú, hvað sem öllum spuna líður, að meirihlutanum í borginni hafa verið mjög mislagðar hendur á mörgum sviðum og í fjármálum er augljóst að lausatök hafa verið allsráðandi, ef svo má að orði komast. Það að stýra risavöxnu fyrirtæki eins og Reykjavíkurborg óneitanlega er, verður ekki gert með því að varpa frá sér allri ábyrgð og þiggja laun fyrir það eitt að bíða þess að ókjörnir embættismenn borgarinnar tryggi að flest gangi sinn vanagang.
Þegar Hofsvallagatan klúðraðist, svo lítið en sláandi dæmi sé tekið, voru ókjörnu embættismennirnir látnir taka skellinn en kjörnir borgarfulltrúar meirihlutans hlupu í felur. Það var ekki stórmannlegt en kann að hafa gagnast þessum stjórnmálamönnum í vinsældamælingum til skamms tíma litið.
Fjármál borgarinnar eru allt annað mál og erfiðara að sjá hvernig borgarfulltrúum meirihlutans á að takast að varpa ábyrgðinni á hina ókjörnu embættismenn. Og þeir virðast átta sig á þessu enda er gripið til þess bragðs að halda því fram að allt gangi að óskum í fjármálum borgarinnar í stað þess að viðurkenna klúðrið. Þegar almenningur sér skuldasöfnunina og fer að finna fyrir gjaldskrárhækkununum má þó gera ráð fyrir að ýmsir setji sig í spor drengsins í ævintýrinu og bendi á að borgarfulltrúar meirihlutans eru óþægilega klæðalitlir.