Fjóla Steindóra Hildiþórsdóttir fæddist í Reykjavík 23. ágúst 1932. Hún lést á Sjúkrahúsi Suðurlands 27. október 2013.

Fjóla var dóttir hjónanna Aðalheiðar Guðrúnar Guðnadóttur Andreasen, f. 9.3. 1914, d. 22.8. 1997, og Hildiþórs Loftssonar kaupmanns, f. 17.8. 1905, d. 3.7. 1995. Alsystir Fjólu er Anna Guðný, f. 20.1. 1934. Systkini Fjólu sammæðra eru Guðni, f. 18.3. 1950, Selfossi, Steinunn Ásta, f. 10.9. 1953, Selfossi.

Fjóla giftist 14. apríl 1951 Sigurði Kristni Sighvatssyni, f. 13.7. 1926 frá Tóftum í Stokkseyrarhreppi. Börn þeirra: 1) Guðbjörg, f. 10.1. 1951, gift Kristni Ólafssyni, f. 11.3. 1945, börn þeirra Fjóla Steindóra, gift Snorra Sigurðarsyni og eiga þau þrjú börn, Sigurður Óli, sambýliskona hans Birna Káradóttir og eiga þau tvö börn, fyrir á Kristinn soninn Ingimund sem er kvæntur Ingibjörgu Jónsdóttur og eiga þau tvö börn. 2) Hilmar Þór, f. 8.7. 1955, sambýliskona hans er Hulda Guðmundsdóttir, f. 5.8. 1958. Dóttir Hilmars er Svava Hlín, dóttir Huldu er Heiða Dögg. 3) Hjalti, f. 3.10. 1957, giftur Ragnheiði Jónu Högnadóttur, f. 25.5. 1961. Dætur þeirra eru Þórhildur Guðbjörg, sambýlismaður Sigurður Ingi Sigurðsson og eiga þau tvö börn. Gunnhildur Katrín, gift Hlyni Geir Hjartarsyni og eiga þau tvö börn, fyrir á Hlynur eina dóttur. 4) Helgi Þröstur, f. 16.1. 1964, fyrrverandi kona hans er Emilía Fernandez. Börn þeirra eru Hlynur Snær og Sóley Edda.

Fjóla sleit barnsskónum á Akranesi og flutti með móður sinni og systur að Kotmúla í Fljótshlíð eftir að foreldrar hennar skildu. Á Selfoss flutti hún 1945, þar sem hún bjó til æviloka. Eftir að skólagöngu lauk vann Fjóla við ýmis verslunarstörf. Fjóla og Sigurður bjuggu lengst af á Engjavegi 7. Með heimili vann Fjóla við skúringar í Barnaskóla Selfoss og á haustin í Sláturhúsi Hafnar. Síðustu starfsár sín vann hún hjá Sláturfélagi Suðurlands. Þau eignuðust sumarbústað við Apavatn 1994. Þar fékk hennar helsta áhugamál að njóta sín við að gróðursetja tré og sjá þau vaxa og dafna.

Útför Fjólu fer fram frá Selfosskirkju í dag, 2. nóvember 2013, og hefst athöfnin kl. 15.

Látin er elskuleg tengdamóðir mín til 36 ára. Ég er lánsöm að hafa átt sem tengdamóður eins glæsilega og góða konu og hún var. Aldrei hefur nokkurn skugga borið á okkar samband. Það eru margar góðar minningar sem koma uppí hugann þegar ég minnist Fjólu. Fjóla var afskaplega létt og glaðsinna kona. Við Hjalti og okkar dætur fórum í margar skemmtilegar ferðir með þeim Sigga. Og eftir að þau keyptu sér sumarbústaðinn við Apavatn áttum við Hjalti margar góðar stundir þar með þeim í leik og starfi. Þar undi tengdamamma sér sérlega vel, hún með sínar grænu fingur og það má segja að hver einasta planta sem hún kom nálagt hafi lifað enda dekruðu þau bæði við hverja einustu plöntu sem þau settu niður og keyrðu þau oft eftir erfiðan vinnudag til að vökva enda er lóðin þakin fallegum trjám. Það var yndislegt að hún gat komist með aðstoð Guggu og Kidda um verslunarmannahelgina í bústaðinn og borðað með stórfjölskyldunni sinni læri sem hún var fyrir löngu búin að kaupa og gat hún horft á brennuna frá bústaðnum og var þetta hennar síðasta ferð í sælureitinn sinn með okkur. Tengdamóðir mín var afskaplega vel lesin kona og bráðvel gefin, það var synd að hún skyldi ekki fá tækifæri til að mennta sig, en á þeim tíma var það ekki í boði, það þurfti að hugsa um að koma þaki yfir höfuðið og hlúa að börnunum. Fjóla mín bar mikla umhyggju og væntumþykju í garð fjölskyldu sinnar og var alltaf boðin og búin til að hjálpa öðrum en gleymdi svolítið sjálfri sér. Er eitthvað sem ég á sem ég get lánað ykkur? Þetta var setning sem við í fjölskyldunni heyrðum gjarna frá Fjólu þegar við brugðum okkur frá bæ. Seinni árin sem Fjóla lifði voru þau Siggi hjá okkur Hjalta á aðfangadagskvöld, og lýsir það tengdamóður minni vel að hún gladdist mest yfir litlu pökkunum og sérstaklega ef þeir voru heimagerðir og eigum við eftir að sakna hennar við matarborðið þessi jólin. Fyrir rúmlega ári greindist Fjóla með sortuæxli og ætlaði hún að sigrast á þeim vágesti, en því miður sigraði krabbameinið hana að lokum. Ég er svo innilega þakklát fyrir að hafa verið hjá henni þegar hún skildi við þessa jarðvist. Með þessu ljóði vil ég þakka tengdamóður minni fyrir samfylgdina og bið algóðan Guð að geyma hana.

Ég sendi þér kæra kveðju,

nú komin er lífsins nótt,

þig umvefji blessun og bænir,

ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði sorg mitt hjarta,

þá sælt er að vita af því,

þú laus ert úr veikinda viðjum,

þín veröld er björt á ný.

(Þórunn Sigurðardóttir)

Ég bið algóðan Guð að styrkja elskulegan tengdaföður minn í hans miklu sorg.

Ragnheiður Jóna Högnadóttir.

„Ég skít í skóinn þinn,“ sagði amma oft við mig þegar ég gerði henni greiða og mér fannst ekkert athugavert við þessa setningu en vinkonu minni fannst þetta nú ekki fallegar þakkir fyrir góðan greiða og sagði „Af hverju í ósköpunum ætlar amma þín að skíta í skóna þína?“ Upphaflega vissi ég ekki sjálf hvað hún ætti við og spurði pabba og með tímanum lærði ég að skilja merkingu orðatiltækisins og ég get því ekki annað en brosað þegar ég sé svipinn á börnunum mínum tveggja og fimm ára þegar þau gera mömmu sinni góðan greiða.

Amma hafði gaman af lífinu og í minningunni var hún alltaf að skipuleggja fram í tímann og láta sig hlakka til. Amma lét sig hlakka til á hverjum degi, til dæmis sagði hún manni alltaf hvað þau ætluðu að hafa í matinn með tilhlökkunarglampa í augunum og ekki var það verra ef hún hefði keypt það á tilboði í Bónus. Best fannst mér þó þegar amma sagði við mig hvað hún hlakkaði til að lesa minningargreinina sem ég myndi skrifa um hana.

Ég fór margar ferðir með ömmu og afa upp í sumarbústað og þaðan á ég mínar bestu minningar. Þegar ég lét ömmu renna á snjóþotu lengst út á ísilagt Apavatnið, háværu hlátrasköllin, sönginn og raulið og þegar hún skammaði afa fyrir að prófa heftibyssuna á hendinni á sjálfum sér. Þessar minningar og miklu fleiri geymi ég á góðum stað í hjarta mínu.

Ég er svo þakklát fyrir allar þær stundir sem við áttum saman og að börnin mín, Guðbjörg og Hjalti, fengu líka að njóta návistar hennar.

Síðasta orðið sem hún sagði áður en hún kvaddi þennan heim var „takk“. Ég lofaði þér því að ég myndi passa og hugsa vel um afa. Ég bið góðan Guð að passa þig, elsku amma mín.

Þórhildur Guðbjörg Hjaltadóttir.

Elsku amma, það er erfitt að trúa því að þú sért farin. En eftir standa margar góðar minningar, minningar sem ylja mér og mínum á þessum tíma sorgar og saknaðar. Elsku amma, þú varst alltaf boðin og búin til að gera allt fyrir alla. Þú passaðir mig sem barn og á ég margar góðar minningar frá þeim tíma. „Eigum við að gera brall í staur?“ sagðir þú oft og þá var eitthvað svakalega skemmtilegt í vændum. Það var alltaf gott að koma á Engjaveginn, jólakakan beint úr frysti var engri lík, klattar, vöfflur og pönnsur, það var alltaf eitthvað gott í boði þegar maður kom til þín. Við Siggi bróðir fórum oftar en ekki í sumarbústað með ykkur og var þá mikið hlegið. Þegar ég fór að búa varstu alltaf boðin og búin að hjálpa mér, við tókum slátur saman og svo eldaðir þú það og sendir mér þegar ég var að vinna til sex. Þú varst alltaf tilbúin að passa krakkana mína og passaðir Maríu Ísabellu í þó nokkurn tíma, sagðir það gott að hafa tilgang aftur, þau elskuðu þig líka endalaust mikið. Þú varðst aldrei gömul, elsku amma, alltaf ung í anda og létt í lund með yndislegan húmor.

Það er svo margt sem ég á eftir að sakna, elsku amma, að renna í Austurmýrina til þín var alltaf yndislegt. Þú lést okkur þig varða, vildir alltaf fá að vita allt um alla og hafðir mikið gaman af barnabarnabörnunum. Það eru ekki allir svona heppnir eins og við að hafa ykkur afa svona mikið inni í okkar lífi en svona er okkar fjölskylda – alltaf saman – allir saman.

Elsku amma, síðasta ár var þér erfitt en við erum þó um leið þakklát fyrir að þú fékkst hvíldina eftir þessa baráttu við illvígan sjúkdóm sem nú hefur tekið þig frá okkur, ég trúi því að þú sért komin á betri stað og þér líði betur.

Guð geymi þig og varðveiti, elsku amma, minningin um þig mun lifa í hjörtum okkar.

Fjóla Steindóra, Snorri, Daníel Arnór, María Ísabella og Elín Aðalheiður.

Nú legg ég augun aftur,

ó, Guð, þinn náðarkraftur

mín veri vörn í nótt.

Æ, virst mig að þér taka,

mér yfir láttu vaka

þinn engil, svo ég sofi rótt.

(Sveinbjörn Egilsson)

Látin er góð vinkona mín, Fjóla Steindóra Hildiþórsdóttir eftir erfið veikindi. Hún bjó á Selfossi ásamt eiginmanni sínum Sigurði Sighvatssyni. Þegar ég kynntist þeim bjuggu þau á Engjaveginum, seinna fluttu þau í Austurmýri 13.

Fjóla var hálfsystir tengdadóttur minnar, þannig hófust okkar kynni. Mjög kært var með þeim systrum. Í seinni tíð nágrannar, hvort sem þær voru í sumarbústöðum sínum eða heima. Oft kom ég til Fjólu. Gott var að fá sér kaffi og jafnvel mat þegar útréttingum á Selfossi var lokið. Um verslunarmannahelgina fór ég í mörg ár í heimsókn í sumarbústaðinn til þeirra. Þar voru þá börn og þeirra afkomendur í heimsókn. Það voru góðar stundir og glatt á hjalla. Fjólu fannst gaman að vera veitandi og hafa fólk í kringum sig.

Ég vil þakka Fjólu allar góðar samverustundir og yndislegt viðmót. Fjölskyldunni sendi ég innilegar samúðarkveðjur. Guð blessi minningu góðrar konu.

Hvíl þú í friði.

Guðríður Bjarnadóttir.