Víðir Sigurðsson gekk til liðs við blaðið árið 2000. Hann segir íþróttaumfjöllun hafa breyst mjög síðan þá, einna helst vegna internetsins.
Víðir Sigurðsson gekk til liðs við blaðið árið 2000. Hann segir íþróttaumfjöllun hafa breyst mjög síðan þá, einna helst vegna internetsins. — Morgunblaðið/Rósa Braga
Víðir Sigurðsson segir alla íþróttaumfjöllun Morgunblaðsins hafa tekið breytingum.

Það hafa orðið miklar breytingar á þessum tíma. Þegar ég kom í janúar 2000 var hérna sex manna deild sem hafði verið í nokkurn tíma, og sá hópur skrifaði bara í blaðið. Starfsumhverfið var því allt öðruvísi en í dag,“ segir Víðir Sigurðsson, umsjónarmaður íþróttadeildar Morgunblaðsins. Hann segir að þar muni mest um tilkomu internetsins. „Á þeim tíma var öll íþróttaumfjöllun á mbl.is mun minni og einfaldari, þeir sem voru á vakt þar skrifuðu tilfallandi íþróttafréttir, þetta var hliðarbúgrein þeirra,“ segir Víðir, „en eftir því sem leið á áratuginn tókum við íþróttaumfjöllun mbl.is smám saman yfir.“

Víðir segir erfitt að mæla nákvæmlega hversu mikill hluti starfs íþróttablaðamanna Morgunblaðsins sé tengdur mbl.is „Starfið er jöfnum höndum á hvorumtveggju vígstöðvum. Við erum á vakt frá sjö á morgnana til tólf á kvöldin, og á þeim tíma eru menn að dekka netið, auk þess að koma út blaðinu,“ segir Víðir. Það má því segja að 17 tíma sólarhringsins séu íþróttafréttamenn Morgunblaðsins á vaktinni. „Við erum í raun alltaf á netinu,“ segir Víðir kíminn og bætir við að það þýði ákveðið skipulag að koma hlutunum saman og við útdeilingu verkefna.

Sérblaðið með betri hugmyndum

Á níunda og tíunda áratugnum var íþróttaumfjöllun Morgunblaðsins ekki í sérstöku blaði nema á þriðjudögum. „Ég held að sérblað Morgunblaðsins hafi verið með því besta sem blaðið fann upp á. Það gefur íþróttunum mjög sterkt vægi,“ segir Víðir sem bætir við að það hafi einnig virkað sem ákveðinn friðarstillir. „Það hefur stundum komið upp í umræðunni að fella íþróttirnar aftur inn í blaðið, en menn hafa alltaf rekið sig strax á hávær mótmæli yfir því að þá yrði ófriður við morgunverðarborðið þegar menn gætu ekki tekið út sínar íþróttasíður og lesið þær án þess að hafa allt blaðið með. Þetta er sérstaða sem Morgunblaðið hefur haft og mun vonandi hafa lengi enn,“ segir Víðir.

Íþróttafréttamenn Morgunblaðsins hafa reynt að sinna sem flestum þeim íþróttum sem stundaðar eru hérlendis og eru innan lögsögu íþróttahreyfingarinnar. „Við höfum það að leiðarljósi að gera sem best við stærstu viðburðina í sem flestum greinum,“ segir Víðir. Boltaíþróttirnar eru þó alltaf fyrirferðarmestar, og segir Víðir að auk vinsældanna eigi mótafyrirkomulagið sinn þátt í því. Í mörgum íþróttagreinum sé kannski bara eitt stórt Íslandsmót á ári og viðkomandi grein því ekki mikið í sviðsljósinu utan þess tíma, en tímabilin í knattspyrnu, handbolta og körfubolta nái yfir stóran hluta ársins.

Leik ekki lokið fyrr en í blaðinu

Internetið hefur breytt íþróttaumfjöllun nokkuð. „Það var sagt í gamla daga ef leikurinn fór fram klukkan tvö á laugardegi að þá væri honum ekki lokið fyrr en umfjöllunin hafði birst í Mogganum á þriðjudegi. Þá var kannski skrifuð um hann lærð og löng ritgerð með ítarlegum lýsingum á því sem gerist í leiknum. Það er gaman að bera saman blöðin frá sérstaklega svona 1970-1980 við það sem gerist í dag,“ segir Víðir. Núna sé staðan hins vegar þannig að það sé hægt að gera ráð fyrir því að allir viti hvernig leikar fóru um leið og flautað er af, þökk sé netinu. „Þetta hefur kallað á allt aðra nálgun og allt önnur vinnubrögð. Það er ekki lengur sagt í umfjöllun í blaðinu að einhver hafi brunað upp hægri kantinn á 24. mínútu, gefið fyrir markið og skotið hafi verið rétt framhjá. Nú fer öll sú umfjöllun fram á netinu jafnóðum og hlutirnir gerast,“ segir Víðir.

Íþróttafréttamaðurinn þarf því að sinna ýmsum hlutverkum, vera með upphitun í aðdraganda leiksins, lýsa honum beint á netinu, taka viðtöl, oftast myndbandsviðtöl, sem flest birtast á mbl.is. „Svo þurfa menn að setjast niður og skrifa sína sýn á leikinn fyrir blaðið, hvað þeim fannst áhugaverðast og þar hafa menn nokkuð frjálsar hendur.“

Eðli íþróttafréttanna í dagblaði hefur því breyst frá því að vera staðreyndamiðlun yfir í meiri greiningu. „Þegar lesandinn veit hvernig leikurinn fór og hverjir skoruðu er áherslan lögð á að fá eitthvað frá eigin brjósti, eitthvað sem er spennandi að lesa daginn eftir, hvaða sýn hefur þessi íþróttafréttamaður á það sem gerðist?“

Víðir segir að íþróttafréttirnar séu ennþá í mikilli þróun. „Þetta mun allt þróast áfram, en meðan þörf er á dagblaði verður þörf fyrir íþróttafréttir í dagblaði. Það mun haldast í hendur.“ Víðir segir að þetta samspil nets og blaðs muni skipta þar meginmáli. „Í blaðinu þarftu að kasta meira ljósi á hlutina með umfjöllun, viðtölum og fréttaskýringum frekar en að miðla bara staðreyndum um úrslit leikja.“