Baldur Arnarson
baldura@mbl.is
Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, segir að farið verði vandlega yfir sjónarmið hagsmunaaðila vegna þeirra áhrifa sem ný lög um endurnýjanlegt eldsneyti til samgangna kunni að hafa.
Eins og Morgunblaðið hefur sagt frá eiga lögin að taka gildi um áramót. Kveða þau á um að söluaðila eldsneytis beri að tryggja að 3,5% af sölu eldsneytis séu endurnýjanlegt eldsneyti á næsta ári. Markmið stjórnvalda er að hlutfall endurnýjanlegra orkugjafa í samgöngum verði 10% árið 2020, en markmiðinu á m.a. að ná með blöndun metanóls og lífdísils við eldsneyti.
„Þessi lög voru unnin á sínum tíma í víðtæku samráði við aðila á markaðnum. Það stóð aldrei annað til en að gefa fyrirtækjum góðan aðlögunartíma. Það var gert ráð fyrir tveggja ára aðlögunartíma í frumvarpi forvera míns en þingið stytti þann tíma í eitt ár, eftir að hafa farið yfir málið og rætt við hagsmuna- og fagaðila. Það var þverpólitísk sátt um það í atvinnuveganefnd,“ segir Ragnheiður Elín sem fundaði með fulltrúum eins olíufélaganna í gær.
Munu fara vel yfir málið
„Ég hef ekki heyrt fyrr en núna gagnrýni á borð við þá sem er að koma fram. Ég tók fulltrúum olíufélagsins vel. Við í ráðuneytinu ætlum að fara vel yfir hvort þarna sé verið að setja einhverjar þær kröfur sem fyrirtækin geta ekki uppfyllt. Ég hef engan áhuga á að gera hluti sem setja fyrirtæki á hausinn.Eftir minni bestu vitund er góð sátt um þessi lög. Þetta eru markmið sem okkur ber skylda til að uppfylla. Þetta er stefnumótun sem við höfum undirgengist. Við erum þar í hópi með ríkjum sem við berum okkur saman við. Að því leytinu til er þetta hið jákvæðasta mál.“
Spurð hvort til greina komi að fresta gildistökunni segist Ragnheiður Elín hafa sagt fulltrúum olíufélagsins að hún vildi hvorki lofa því né hafna. Málið yrði skoðað vel.
Hún kveðst bundin trúnaði um það hvaða olíufélag sé á ferð.
Varðandi hugsanlegt tekjutap ríkisins vegna laganna segir Ragnheiður Elín að það hafi alltaf legið fyrir, m.a. í kostnaðarmati fjármálaráðherra, að ríkið yrði af tekjum. Á móti hafi átt að koma gjaldeyrissparnaður vegna innlendra framleiðenda, þar á meðal Carbon Recycling International, sem framleiðir metanól, og framleiðslu á lífdísil og metan. Lögin hafi m.a. verið hugsuð sem lyftistöng fyrir innlenda framleiðslu.
Pétur Reimarsson, forstöðumaður hjá Samtökum atvinnulífsins, hvetur til þess að áhrif laganna verði metin vandlega og gildistöku þeirra jafnvel frestað ef nauðsyn þykir krefja.
Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags ísl. bifreiðaeigenda, segir óþarft að flýta innleiðingu sem markaðurinn sé ekki tilbúinn fyrir. Fara þurfi betur yfir áhrif laganna.
- „Það stóð aldrei annað til en að gefa fyrirtækjum góðan aðlögunartíma.“ Ragnheiður Elín