Viggó Einar Maack skipaverkfræðingur fæddist í Reykjavík 4. apríl 1922. Hann lést í Reykjavík 20. október 2013.

Útför Viggós fór fram frá Dómkirkjunni 1. nóvember 2013.

Það var um vor í byrjun sjöunda áratugarins að bíll renndi í hlaðið í Skálakoti, þar var komin Maack-fjölskyldan að færa okkur snúningsstrákinn, til dvalar yfir sumarið.

Hann dvaldi í nokkur sumur í Skálakoti en síðan áfram hjá okkur Jónu á Ásólfsskála. Seinna kom svo María Hildur og prýddi Skálakrókinn æði lengi. Þetta var Einar Viggó sem lést fyrir aldur fram, blessuð sé minning hans. Það má geta þess að við skírðum son okkar Einar eftir draumvitjun hjá Jónu.

Þarna hitti ég í fyrsta sinn öðlinginn Viggó Maack, kynni okkar áttu eftir að vara í marga áratugi enda maðurinn vinfastur og tryggur með afbrigðum.

Á áttunda áratugnum keyptu Viggó og Ásta land undir sumarhús hjá föður mínum, þar byggðu þau lítið hús í fyrstu en byggðu svo við í áföngum. Húsið skýrði Viggó Titt og aðspurður hvernig á nafninu stæði svaraði hann með vísu eftir Gest á Hæli:

Forsjónin gaf mér fjóra sonu,

Forsjónin gaf mér vakran hest,

Forsjónin gaf mér feita konu,

Forsjónin lét mig heita Gest,

Forsjónin gaf mér þett' og hitt,

Forsjónin lét mig búa á Titt.

Hann leit stundum kankvís til Ástu eftir að hafa haft vísuna yfir, þótt vísan ætti alls ekki við hennar holdafar. Hann naut þess sérstaklega að byggja og bæta við Titt og þegar hann var kominn í röndóttu smekkbuxurnar, ekki nýþvegnar, með pensil eða hamar í hönd var tilveran dásamleg, enda maðurinn einstaklega vinnusamur.

Viggó bar sérstakar taugar til Fjallanna enda lengi snúningsstrákur í Eystri-Skógum hjá Guðmundi Vigfússyni sem hafði verið háseti hjá föður hans. Hann minntist oft á Eystri-Skóga og sumarstörfin þar enda hefur samviskusemi og vinnugleði hans nýst þar fullkomlega.

Það eru forréttindi að fá að kynnast og hafa í nágrenni mann eins og Viggó og hans fjölskyldu.

Við og mín fjölskylda höfum notið hjálpsemi og tryggðar gegnum árin, sem seint verður þakkað. Hann fylgdist grannt með okkur Skálakotssystkinum og fjölskyldum okkar fram undir það síðasta og fékk reglulega fréttir að austan frá Maríu dóttur sinni sem ræður nú ríkjum í Titt.

Við Jóna og okkar fjölskyldur sendum kveðju að austan til Ástu og hennar afkomenda með þökk fyrir hjálpsemi og hlýhug gegnum árin.

Viðar og Jóna, Ásólfsskála.

Foringi er fallinn. „Vaskir öldungar“ úr Íþróttahúsi Háskóla Íslands kveðja nú foringja sinn til margra ára. Frískir menn undir handleiðslu Benedikts Jakobssonar stunduðu líkamsrækt í nýbyggðu íþróttahúsi skólans, sem reist var laust eftir seinni heimsstyrjöld. Viggó var einn af þeim stúdentum, sem unnu við byggingu hússins. Eftir lát Benedikts 1967 tók Valdimar Örnólfsson við íþróttastjórn háskólans og fékk þessa karla í arf frá Benedikt, en tók með sér nokkra yngri menn, m.a. undirritaðan, sem í dag eru orðnir elstir í hópnum. Þá var foringi Pétur Ólafsson kenndur við Ísafold. Eftir lát Péturs tók Viggó við foringjastarfinu og gegndi því til dauðadags. Undanfarin ár var Viggó orðinn veikur og gat ekki mætt á „völlinn“, en þrátt fyrir það var hann áfram foringi okkar. Í þessum félagsskap skiptum við ekki um foringja bara sí sona, enda voru öll mikilvæg mál afgreidd með hans samþykki. Viggó var sérstakur maður, ótrúlega frískur, velviljaður húmoristi, uppátækjasamur og oft sannkallaður grallari. Margar skemmtiferðir fórum við félagar á vorin eða haustin milli anna. Minnisstæðar eru reisur okkar í Titt, sem var sumarhús þeirra hjóna, Ástu og Viggós, undir Eyjafjöllum. Þar var ýmislegt brallað og mallað, farið í gönguferðir og fótbolta, sungið dátt og spilað. Þar var grillað og stjörnuhiminninn skoðaður fyrir háttinn. Í anda skipaverkfræðingsins var húsið reist í fyrstu úr gamalli skipskáetu og síðan var haldið áfram í áföngum á ýmsa vegu, svona og hinsegin eftir þörfum, en samt af smekkvísi þannig að manni fannst Tittur vera hluti af náttúrunni, enda erfitt að sjá „slotið“ fyrr en að var komið. Við kveðjum nú foringjann Viggó með söknuði og sendum Ástu og fjölskyldu innilegar samúðarkveðjur.

Fyrir hönd Vaskra,

Guðmundur Kr.

Guðmundsson.