Breytt mynd Svona sér Pálmi Bakka fyrir sér í framtíðinni. Engin verksmiðja heldur gróðurhús.
Breytt mynd Svona sér Pálmi Bakka fyrir sér í framtíðinni. Engin verksmiðja heldur gróðurhús.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ýmsar hugmyndir hafa komið upp um hvernig skapa megi fleiri störf og auka tekjur hér á landi. Einn þeirra sem hafa kortlagt hugmyndir sínar og komið með tillögur til úrbóta er iðnhönnuðurinn Pálmi Einarsson iðnhönnuður.

Ýmsar hugmyndir hafa komið upp um hvernig skapa megi fleiri störf og auka tekjur hér á landi. Einn þeirra sem hafa kortlagt hugmyndir sínar og komið með tillögur til úrbóta er iðnhönnuðurinn Pálmi Einarsson iðnhönnuður. Hann er sannfærður um gildi þess að búa til eins konar Edengarða á Íslandi þar sem til dæmis mætti rækta lífrænt grænmeti og ávexti, bæði til neyslu og útflutnings.

Malín Brand

malin@mbl.is

Einfölduð mynd af hugmynd Pálma er að reisa hér á landi fjölda kúlulaga gróðurhúsa í þyrpingum sem hægt væri að bæta við eftir því sem efni leyfðu. Hægt væri að stýra hita- og rakastigi húsanna og rækta nánast hvað sem er inni í þeim. Pálmi segist ekki vera að finna upp hjólið því búið sé að smíða frumgerð slíkra gróðurhúsa í Cornwall á Englandi vegna verkefnis sem nefnist The Eden Project. Þar eru ræktaðar ýmsar tegundir ávaxta og grænmetis og hitabeltisplöntur eru á meðal þess sem þar dafnar og dýralífið í samræmi við það. Gróðurhúsaþorpið í Cornwall er sjálfbært og hefur laðað að ferðamenn sem vilja sjá með eigin augum hvernig þetta er hægt.

Gætum flutt út fullunna vöru

Pálmi er sannfærður um að með íslenskum auðlindum megi hæglega gera slíkt hið sama á Íslandi og jafnvel á enn stærri skala en gert hefur verið í Cornwall. „Hér mætti hæglega skapa fjölmörg skapandi störf við frábærar aðstæður. Við getum verið með lífræna ræktun á ávöxtum og grænmeti, bæði til eigin nota og til útflutnings. Í stað þess að flytja hingað til lands um 1.700 tonn af tómatvörum árlega gætum við snúið þessu við og flutt fullunna vöru út,“ segir Pálmi.

Af hverju?

Pálmi hefur víðtæka reynslu í starfi sínu sem iðnhönnuður. Hann var um árabil hönnuður, rekstrarstjóri þróunarsviðs Össurar og síðar framkvæmdastjóri þróunarsviðs Össurar í Bandaríkjunum. Í dag er hann eigandi og hönnuður Geisla, hönnunarhúss.

Það sem knýr Pálma í hugmyndafræðinni um gróðurhúsin er hrein og klár ást á jörðinni sjálfri og því umhverfi sem við búum í. „Á seinustu þrjátíu árum höfum við notað þriðjunginn af óendurnýjanlegum auðlindum jarðarinnar. Það er ógnvekjandi að hugsa til þess að ef við höldum þessu áfram og gerum ekkert til að snúa þróuninni við verða þessar auðlindir uppurnar í kringum árið 2040,“ segir Pálmi.

Þegar Pálmi hugleiddi hvernig jörðin yrði sem börnin hans þrjú myndu ganga um árið 2040 gat hann ekki setið auðum höndum. Þess vegna fór hann að velta því fyrir sér hvað hann gæti gert til að sporna við þessari þróun og þar komu gróðurhúsin til sögunnar.

Skattpeningarnir og auðlindirnar

„Sú meðferð sem skattpeningar okkar Íslendinga fá er ekki bara slæm heldur líka einkennileg. Það sama má segja um notkun auðlindanna. Hún er bæði slæm og stórfurðuleg,“ segir Pálmi. Hann vísar þar meðal annars til kostnaðar ríkisins vegna uppbyggingar kísilvers á Bakka. „Ef kostnaður ríkissjóðs verður 3,4 milljarðar eins og fleygt hefur verið fram þá dettur mér í hug eitt og annað skynsamlegt og atvinnuskapandi sem verja mætti þeim peningum í. Til dæmis mætti byggja þar sjálfbært risagróðurhús sem yrði sjálfseignarstofnun. Slík sjálfseignarstofnun notar arð sinn til að sjárfesta í sjálfri sér þegar fram líða stundir, skapar fjölbreytt, skapandi störf og tekjur auk þess sem hún væri sjálfbær og framleiðslan í fullkomnu jafnvægi við náttúruna,“ segir Pálmi.

Iðnaðarhampur

Auk þess sem Pálmi segir að framleiða megi ávexti, grænmeti og fullunna vöru, nefnir hann gildi iðnaðarhamps í stærra samhengi.

Um árabil hefur iðnaðarhampur bannaður hér á landi og svo hefur verið víða um heim. Nokkur leyfi hafa hinsvegar verið veitt til tilraunaræktunar á síðustu árum. Hann er þó hvorki ávanabindandi né vímuvaldur þrátt fyrir að vera afurð kannabisplöntunnar.

Á síðasta ári leyfði Lyfjastofnun innflutning á hamppróteindufti og hampfræjum því vörurnar eru framleiddar úr iðnaðarhampi.

Pálmi er sannfærður um gildi iðnaðarhamps enda iðnhönnuður að mennt og þekkir til þess í hvað hægt er að nota hampinn. „Úr iðnaðarhampi má framleiða föt, kaðla, skófatnað, bakpoka, diska, etanól og fjölmargt fleira. Hann er níðsterkur og möguleikarnir eru óþrjótandi. Þannig mætti með ræktun iðnaðarhamps framleiða hér fullunna vöru.“

Það sem þarf til

Til að hugmyndirnar um sjálfbær risagróðurhús verði að veruleika þarf eitt og annað eins og hefur sannað sig þar sem gróðurhúsin voru reist í Cornwall á Englandi. „Það þarf vissulega eitt og annað til þess að hugmyndirnar gangi eftir og verði að veruleika. Það þarf í fyrsta lagi mannauð. Því næst má nefna þekkingu, orku, vatn og landsvæði. Eigum við þetta til? Ég held að svarið við því hljóti að vera já,“ segir Pálmi.

Aðspurður hvernig Edengarðar á Íslandi gætu skapað auð fyrir þjóðina svarar Pálmi því til að kostirnir séu býsna margir.

„Við myndum skapa atvinnu, til dæmis fyrir hönnuði, iðnaðarmenn, verkafólk, verkfræðinga og fjöldi þjónustustarfa myndi skapast í leiðinni. Ef til útflutnings kæmi myndu verða til gjaldeyristekjur. Endurgreiðsla stofnfjármagns myndi skapa tekjur fyrir ríkið. Íslendingar myndu fá ódýran og hollan mat. Það yrði til nýr iðnaður því iðnaðarhampur er hráefni til iðnaðar og síðast en ekki síst myndi þetta auka sjálfbærni þjóðarinnar.“

Fyrir land sem er eyland hlýtur sjálfbærni að teljast kostur. Næstu skref hjá Pálma eru að kynna hugmynd sína betur og það hvernig hann hefur útfært hana. Hver veit nema Edengarðar Íslands muni rísa vítt og breitt um landið í framtíðinni.

Hið fullkomna form

Við hönnun Edengarðanna í Cornwall hefur verið notast við ævafornt form hönnunar sem kallast Blóm lífsins eða Flower of Life. Að sögn Pálma er það að finna víða í ýmsum menningarkimum. Mynstrið er einfalt og samsett úr sjö hringjum. Endalaust er hægt að bæta við þá og hefur verið talað um að mynstrið sé fullkomið, eins og gullinsnið.

Við mynstrið má sífellt bæta og í drögum Pálma að Edengörðum Íslands er gengið út frá því að í upphafi sé hvert gróðurhús eitt en þegar það fer að skapa tekjur má byggja næsta gróðurhús við hliðina og mynda Blóm lífsins.