Veturinn Það er kuldalegt á Skaga þegar blæs að norðan. Framundan er rakin vetrartíð í kortunum.
Veturinn Það er kuldalegt á Skaga þegar blæs að norðan. Framundan er rakin vetrartíð í kortunum. — Morgunblaðið/ Björn Björnsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
ÚR BÆJARLÍFINU Björn Björnsson Sauðárkrókur Eftir ágætt veður í október virðist nú framundan rakin norðanátt með kaldari tíð og jafnvel snjókomu, en þó að auð jörð sé í útsveitum, hefur þurft að skafa snjó af leiðum víða inn til landsins.

ÚR BÆJARLÍFINU

Björn Björnsson

Sauðárkrókur

Eftir ágætt veður í október virðist nú framundan rakin norðanátt með kaldari tíð og jafnvel snjókomu, en þó að auð jörð sé í útsveitum, hefur þurft að skafa snjó af leiðum víða inn til landsins.

Um síðustu helgi voru haldnir Bændadagar í Skagfirðingabúð KS á Króknum, og er þetta í 13. sinn sem slík uppákoma er haldin. Að sögn Árna Kristinssonar verslunarstjóra var umfang mun meira en á undanförnum árum og voru á þessum tveim dögum seld rúml. 20 tonn af kjöti og 4 tn. af osti. Gestakokkur, sem nú var Árni Þór Arnórsson, kom með 10-15 uppskriftir með sér, sem miðuðust við hráefnið sem í boði var og eldaði eftir þeim, en bændurnir kynntu síðan framleiðsluna og fengu gestir að bragða á herlegheitunum.

Í haust var allur grunnskólinn loks kominn undir eitt þak í Árskóla við Skagfirðingabraut. Hefur sameining efra og neðra stigs, tekið mun lengri tíma en sveitarstjórn gerði ráð fyrir, en 15 ár eru frá því að stigin voru sameinuð undir eina stjórn. Nú stendur því hús gamla Barnaskólans ónotað og hafa verið uppi ýmsar hugmyndir um nýtingu þess. Einnig hafa nokkrir lýst áhuga á að komast þar undir þak, en ekkert virðist hafa verið ákveðið í þeim efnum.

Íslandsmót Íþróttasambands fatlaðra fór fram á Sauðárkróki 24.-26. þ.m. og tókst í alla staði mjög vel. Keppendur komu víðsvegar að, frá tæplega 15 félögum. Það var Íþróttafélagið Gróska í Skagafirði sem var umsjónaraðili.

„Jólastjörnur Geirmundar Valtýssonar“ er nýr geisladiskur sem nú er væntanlegur í verslanir. Útgáfutónleikar verða í Miðgarði 8. desember nk. og þar koma fram allar jólastjörnurnar: Helga Möller, Ari Jónsson, Hreindís Ylfa, Sigríður Beinteins, Páll Rósinkrans, Sigfús Pétursson og Karlakór Bólstaðarhlíðarhrepps. Auk þess á Geirmundur tvær afastelpur, Önnu Karenu og Valdísi sem eru væntanlega ekki minnstu jólastjörnurnar.

Stórsveit Vilhjálms Guðjónssonar leikur undir.

Skíðadeild Tindastóls hefur ráðið hinn landskunna skíðakappa Björgvin Björgvinsson til þess að þjálfa skíðafólk félagsins og eru æfingar um það bil að hefjast.

Nú styttist mjög í það að KS taki formlega í notkun nýbyggingu, ostageymslu og nýja framleiðslulínu fyrir osta. Á Bændadögunum var gestum boðið að skoða þessa nýju viðbót við mjólkursamlagið. Er ljóst að hér verður um mjög tæknivædda framleiðslu að ræða, en á undanförnum árum hefur samlagið lagt mikinn metnað í framleiðslu góðra osta.

Í Skagafirði er hefðbundnum hauststörfum lokið með sláturtíð, og er næst að huga að jólahangikjötinu.