Töfraheimur Hljóðfærin segja börnunum sögur af ótrúlegum hlutum.
Töfraheimur Hljóðfærin segja börnunum sögur af ótrúlegum hlutum. — Morgunblaðið/Sverrir
Töfrahurð er tónleikadagskrá fyrir yngstu kynslóðina. Fjölbreytt verk hafa glatt margan ungan áheyrandann og nú er svo komið að fimm ár eru frá fyrstu tónleikunum. Af því tilefni verða útgáfutónleikar í Salnum í Kópavogi á morgun, sunnudaginn 3.

Töfrahurð er tónleikadagskrá fyrir yngstu kynslóðina. Fjölbreytt verk hafa glatt margan ungan áheyrandann og nú er svo komið að fimm ár eru frá fyrstu tónleikunum. Af því tilefni verða útgáfutónleikar í Salnum í Kópavogi á morgun, sunnudaginn 3. nóvember.

Tónverkið er við ævintýri eftir flautuleikarann Pamelu De Sensi sem jafnframt er listrænn stjórnandi Töfrahurðar.

Tónlistin við ævintýrið er eftir Steingrím Þórhallsson og dansinn eftir Helenu M. Jónsdóttur. Verkið fjallar um fjórar kóngulær í strengjakvartett sem fara á tímaflakk. Þannig kynnast þær meisturum klassískrar tónlistar og læra kóngulóardansinn Tarantella, sem áheyrendur læra líka. Á vegferð sinni lenda þær í ýmsum ævintýrum og í lokin taka þær þátt í tónlistarkeppni þar sem þær spinna sinn besta tónlistarvef.

Strengjakvartett Shéhérazade sér um tónlistarflutning og dansarar úr Listdansskóla Íslands dansa af lífi og sál. Tónleikarnir hefjast stundvíslega klukkan 12:30 og hefst ævintýrið sjálft um leið og komið er í Salinn. Boðið verður upp á andlitsmálun fyrir áhugasama auk þess sem ýmislegt óvænt og kóngulóatengt mun gleðja gesti.