Símfréttir af landsbyggðinni voru meðal nýjunga í blaðamennsku sem stofnendur Morgunblaðsins innleiddu við útkomu blaðsins. Áttatíu árum seinna markaði símamynd af stóratburði þáttaskil í fréttaþjónustu blaðsins.
Fréttaritarar Morgunblaðsins á landsbyggðinni hafa fylgt Morgunblaðinu frá stofnun og eiga merkan sess í sögu þess. „Fréttir hvaðanæva af landinu mun og eigi skorta í blað vort. Símfréttir munu við og við birtast frá öllum stærri bæjum og kauptúnum landsins, og úr sveitum, þegar þess gefst kostur,“ skrifaði Vilhjálmur Finsen, stofnandi Morgunblaðsins, þegar hann fylgdi blaðinu úr hlaði fyrir hundrað árum. Símfréttirnar af landsbyggðinni og frá útlöndum voru meðal þeirra nýjunga sem hann boðaði. Á fyrstu forsíðunni var símfregn frá Seyðisfirði um ljósahátíð og í blaðinu voru einnig símfréttir frá Akureyri og Ísafirði. Fréttirnar frá Seyðisfirði og Akureyri voru ekki merktar fréttaritara en undir Ísafjarðarfréttina skrifaði „R.“ Væntanlega eru þetta skrif fyrstu fréttaritara blaðsins og hafa þeir verið með frá fyrsta degi. Finsen sagði í ævisögu sinni að þessar fréttir hefðu þótt nýnæmi.
Smám saman var fréttaöflunarkerfi byggt upp. Mikilvægur liður í því í upphafi var ferð Árna Óla blaðamanns með Sterling umhverfis landið. Tilgangurinn var að útvega Morgunblaðinu útsölumenn og fréttaritara sem víðast. Raunar notaði Árni frí sitt frá starfinu til að fara í þessa ferð, eins og hann getur um í bókinni Erill og ferill blaðamanns . Skipið kom við í hverri höfn, en ekki var ferðin jafn hentug og Árni hafði búist við. Á mörgum stöðum var ekki lagst að bryggju og viðstöðutími sums staðar svo stuttur, að ekki gafst ráðrúm til að fara í land. Á öðrum stöðum fékk skipið afgreiðslu um nætur og þar þýddi ekki að fara í land.
Árni segir að samt sem áður hafi sér tekist að útvega útsölumenn í öllum helstu höfnum og nær 20 fréttaritara. Þótti Finsen þetta góð erindislok, er Árni kom heim. Sjálfur var hann ánægður og fannst Morgunblaðið hafa þarna fetað í fótspor Ísafoldar Björns Jónssonar. Fram kemur það álit Árna að ferðin með Sterling hafi verið upphaf þess að Morgunblaðið ruddi sér til rúms í kauptúnum landsins.
Grunnur sem byggt var á
Óhætt er að segja að það fréttaritarakerfi sem Finsen og Árni Óla byggðu upp á fyrsta starfsári Morgunblaðsins hafi verið grunnurinn að farsælu fréttaritarakerfi sem gegndi gífurlega mikilvægu hlutverki við fréttaöflun blaðsins lengi vel.Breytingar á tækni og aðgengi að upplýsingum og umhverfið á fjölmiðlamarkaðnum hefur breytt hlutverki fréttaritaranna. Enn eru fréttaritararnir mikilvæg stoð í fréttaöflunarkerfi blaðsins, bæði til frásagnar af atburðum úr daglegu lífi fólksins í landinu og þegar stórviðburðir gerast.
Símamynd frá björgunarafreki
Í ljósi þess hvað símfréttirnar voru mikil nýjung á fyrstu dögum Morgunblaðsins er ekki úr vegi að rifja upp aðra nýjung sem varð fyrir tæpum tuttugu árum þegar í fyrsta skipti tókst að senda símamynd frá stórviðburði hér á landi og birta í dagblaði.Björgunarþyrlur varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli björguðu sex skipbrotsmönnum af Goðanum sem fórst í Vöðlavík 10. janúar 1994 en einn maður fórst. Mönnunum var bjargað af þaki brúar skipsins sem var að sökkva.
Ekki var auðvelt að fá fréttamyndir til birtingar í blaðinu. Ofsaveður var og því ekkert flug á Egilsstaði og Norðfjörð. Raunar var ófærð svo mikil að ekki náðist að koma filmu frá slysstað með bíl til Eskifjarðar nógu tímanlega fyrir prentun blaðsins um nóttina.
En oft finnast nýjar leiðir þegar aðrar lokast. Ágúst Blöndal, fréttaritari í Neskaupstað, hafði tekið myndir af bandarísku björgunarsveitinni og tveimur skipbrotsmönnum sem þyrlurnar komu með þangað. Filman var framkölluð og kópíur gerðar af tveimur myndum sem Ágúst fékk Huga Þórðarson til að skanna inn í tölvu og senda með mótaldi við síma til Morgunblaðsins. Myndirnar voru komnar til blaðsins klukkan hálftólf um kvöldið og birtust í blaðinu morguninn eftir.
Önnur myndin birtist um þvera forsíðuna sem í þá daga var aðeins tekin undir innlendar fréttir þegar leggja þurfti áherslu á stórfréttir. Þess má geta að það tók tölvurnar tólf mínútur að senda og taka við myndinni, að því er fram kemur í frásögn Magnúsar Finnssonar fréttastjóra frá þessum tíma, og öllu lengri tíma tók að senda hina myndina sem var í stærri upplausn. Þetta er gamalkunnug tækni og þykir forneskjuleg í dag vegna þess að aðrar og nútímalegri aðferðir komu með stafrænu ljósmyndatækninni og öflugri tölvum og netsambandi. Samt eru ekki tuttugu ár liðin síðan þetta var nýjung í sendingu fréttamynda á Íslandi og þótti saga til næsta bæjar að blaðinu skyldi hafa tekist að birta mynd að austan þegar allar samgönguleiðir voru lokaðar á milli Reykjavíkur og Austfjarða. Fjölda annarra viðburða, smárra jafnt sem stórra, var hægt að gera skil með þessari tækni á næstu árum, þangað til stafræna ljósmyndatæknin tók alveg við og fréttaritarar þurftu ekki lengur að leita fljótvirkustu flutningsleiða fyrir filmur sínar til Morgunblaðsins, með flugvélum, rútum, skipum eða einkabílum. Stundum þurfti raunar að nota marga mismunandi flutningsmáta og jafnvel senda bíl á móti.
Spáir í leiðir til að mynda Kötlugos
„Aðalatriðið er að kynna sér söguna, athuga hvernig Katla hefur hagað sér í gegnum aldirnar,“ segir Jónas Erlendsson í Fagradal sem er ávallt á Kötluvaktinni, bæði sem íbúi í Mýrdal og fréttaritari.Bær Jónasar stendur það hátt að hann þarf væntanlega ekki að yfirgefa heimili sitt vegna jökulhlaupsins. Í staðinn hefur hann velt því mikið fyrir sér hvert best væri að fara til að ná fréttamyndum af hamförunum. Hann hefur helst augastað á Háfelli sem stendur hátt með endurvarpsstöðvar fyrir sjónvarp og síma. Þar segist hann sjá til eldstöðvarinnar og einnig skriðjökulinn sem búast má við að hleypi jökulvatninu út. Þá gefur hann sér að hlaupið komi í farveg Múlakvíslar, eins og oftast hefur verið og gerðist í hlaupi fyrir tveimur árum þegar brúna tók af.
„Það verður mikið öskufall í upphafi og það ræðst af vindátt hvort hægt er að komast eitthvað. Ef hann verður norðanstæður sér maður ekki neitt og verður að halda sig heima,“ segir Jónas. Eins getur það ráðið miklu um svigrúm ljósmyndarans hvenær sólarhringsins Katla gýs og hvar hlaupið kemur niður.
„Hún kemur, það er bara spurning hvenær,“ segir Jónas um Kötlugos sem raunar hefur verið beðið eftir frá því fyrir 1960. „Nei, ég sef rólegur á nóttunni eins og flestir Mýrdælingar. Menn eru ekki að hugsa um þetta nema þegar hér verða skjálftar yfir þrjú stig og þegar hlaup verða í ánum,“ segir Jónas þegar hann er spurður hvort menn hugsi mikið um hugsanlegar náttúruhamfarir.
Jónas hefur nokkra reynslu af eldgosum og öskufalli eins og aðrir Mýrdælingar, eftir eldgosin í Eyjafjallajökli og Grímsvötnum. Hann fór til dæmis á Kirkjubæjarklaustur í upphafi gossins í Grímsvötnum til að mynda og lenti í myrkri um hábjartan dag.
Eftirminnilegir fréttaritarar
Margir eftirminnilegir einstaklingar hafa sett svip sinn á fréttaritarahópinn og Morgunblaðið. Ef aðeins er litið til síðustu áratuga dugir að nefna Sigurð Pétur Björnsson (Silla) á Húsavík, Árna Helgason í Stykkishólmi, Björn Jónsson í Bæ og Sverri Pálsson á Akureyri. Þessir menn voru allir stofnfélagar Okkar manna og raunar einnig heiðursfélagar og þjónuðu lesendum Morgunblaðsins í áratugi. Marga fleiri góða menn og konur mætti nefna sem lagst hafa á árarnar með Morgunblaðinu.Fréttaritarar Morgunblaðsins mynda félagsskapinn Okkar menn sem starfað hefur í 28 ár. Hugmynd stofnendanna kemur fram í tilgangi félagsins sem er að efla og treysta Morgunblaðið og vinna að sameiginlegum hagsmunamálum fréttaritara blaðsins. Þetta tvennt var talið fara mjög vel saman og það varð kjarninn í lögum félagsins.
Félagið var stofnað 12. apríl 1985 fyrir forgöngu Helga Kristjánssonar í Ólafsvík og Úlfars Ágústssonar á Ísafirði en sá síðarnefndi varð fyrsti formaður félagsins. Á þeim tíma voru um 100 fréttaritarar starfandi og margir mikilvirkir. Sóttu þeir aðalfundi annað hvert ár og félagið gaf út fréttabréf með margvíslegu fræðsluefni sem seinna var miðlað á sérstökum vef. Fræðslunámskeið hafa verið haldin í samvinnu við Morgunblaðið, ljósmyndasamkeppnir og ljósmyndasýningar sem víða hafa farið.
Sigurður Jónsson á Selfossi tók við formennsku af Úlfari og síðan Grímur Gíslason í Vestmannaeyjum og loks núverandi formaður, Gunnlaugur Árnason í Stykkishólmi. Jón Sigurðsson á Blönduósi hefur manna lengst setið í stjórn en hann hefur verið gjaldkeri Okkar manna í 26 ár.