
Skíði
Sindri Sverrisson
sindris@mbl.is
„Fjórða hvert tímabil er alltaf töluvert umfangsmeira en önnur. Ólympíuleikarnir eru auðvitað algjör hátindur,“ sagði Jón Viðar Þorvaldsson, framkvæmdastjóri Skíðasambands Íslands, á fréttamannafundi í Hlíðarfjalli í gær þar sem sambandið kynnti dagskrá vetrarins.
Skíðaveturinn virðist ætla að hefjast snemma hérlendis í ár, eftir snjókomu vikunnar eru Akureyringar vongóðir um að geta jafnvel opnað í fjallinu eftir tvær vikur, og í síðasta lagi um mánaðamót. Tímabilið er hins vegar löngu hafið hjá landsliðsfólkinu okkar. Landsliðið í alpagreinum er ýmist við æfingar með skólaliðum sínum erlendis, eða undir handleiðslu landsliðsþjálfarans Fjalars Úlfarssonar en sá hópur hefur þegar farið út í þrjár æfingaferðir og nánast verið erlendis síðan um miðjan ágúst. Ætla má að að lágmarki fjórir landsliðsmenn í alpagreinum fari á Ólympíuleikana í Sochi.
Landsliðsmennirnir tveir í skíðagöngu, þeir Brynjar Leó Kristinsson og Sævar Birgisson, hafa undanfarið æft í Hlíðarfjalli en eru á förum til Svíþjóðar þar sem þeir æfðu saman síðasta vetur. Sævar hefur náð ólympíulágmarki og Brynjar stefnir að því sama, sem gæti reyndar þýtt að velja þurfi á milli þeirra um hvor fer til Sochi. Skíðagöngu hefur vaxið fiskur um hrygg hérlendis síðustu ár og á leikunum í Sochi mun Ísland eiga fulltrúa í skíðagöngu í fyrsta sinn í 20 ár.
Brettakappinn Halldór Helgason gæti svo einnig bæst í hópinn sem heldur á Ólympíuleikana, sem eins og Jón Viðar benti á standa að sjálfsögðu upp úr í starfi vetrarins. Önnur dagskrá leggst þó ekki af.
Nýbreytni fyrir brettafólk
„Við erum áfram með bikarmótin okkar í alpagreinum og göngu, og sú nýbreytni er í ár að tvö bikarmót verða fyrir brettafólk. Svo eru Unglingameistaramót Íslands og Skíðamót Íslands stærstu mótin okkar hér heima,“ sagði Jón Viðar, en þau mót eru að vanda með vorinu, um mánaðamótin mars/apríl.Brettaíþróttin er tiltölulega ný innan skíðasambandsins en nú starfrækja þrjú félög á landinu sérstaka brettadeild. Þetta eru Skíðafélag Akureyrar og Breiðablik, og fyrir austan eru Austri og Þróttur með sameiginlega deild. „Við erum bjartsýn á að á þessum nýju bikarmótum fyrir brettafólk verði 30-40 keppendur, reynslan af Andrésar andar leikunum sýnir að það sé raunhæft,“ sagði Jón Viðar við Morgunblaðið.
Ræðst á næstu 80 dögum
Ólympíuhópurinn keppir á fjölda alþjóðlegra móta fram að leikunum í Sochi. Draumurinn er að þangað komist 5 skíðamenn í alpagreinum, 2 í skíðagöngu og 1 snjóbrettakappi, eða samtals 8 keppendur. Til þess þarf þó margt að ganga upp en allt ræðst þetta á næstu tæplega 80 dögum. Nítjándi janúar er síðasti keppnisdagur sem gildir fyrir Ólympíuleikana sem standa yfir 7.-23. febrúar.Auk leikanna í Sochi stendur heimsmeistaramót unglinga í Jasna í Slóvakíu einnig upp úr á keppnistímabilinu. Þar er vonast til að 8-9 Íslendingar taki þátt og öðlist dýrmæta reynslu.
„Við fórum á HM unglinga í Kanada í fyrra og vorum með sex iðkendur, og þar náði Einar Kristinn [Kristgeirsson] meðal annars 19. sæti í svigi sem er mjög góður árangur. Við erum með frekar ungt landslið í dag og þessi reynsla sem fæst af HM unglinga er gríðarlega mikilvæg fyrir þau fyrir komandi ár,“ sagði Jón Viðar.