Baldur Arnarson
baldura@mbl.is
Frosti Sigurjónsson, formaður efnahags- og viðskiptanefndar, furðar sig á því að raunstýrivextir séu mun hærri hér en í nágrannalöndum. Raunstýrivextir – stýrivextir umfram verðbólgu – séu nú um 2,4%, borið saman við neikvæða raunstýrivexti víða í nágrannalöndum. Stýrivextir verða ákveðnir 6. nóvember.
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, segir sambandið leggja til að tekin verði uppi fastgengisstefna. Um leið verði hægt að lækka stýrivexti til jafns við stýrivexti í nágrannalöndum. Lægri vextir myndu örva hagkerfið. „Það er mikill drungi yfir hagkerfinu. Það er ekki arðbært að fjárfesta hér á landi við þessar aðstæður. Með því að hætta að láta örþunnan markað um að stýra gengi og færa Seðlabankann yfir á fastgengismarkmið færist ábyrgðin á verðbólgu yfir til ríkisstjórnar og vinnumarkaðarins. Þannig gætum við betur komið á stöðugleika.“
Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, telur stýrivexti of háa. „Raunvextir hafa hækkað hratt á síðustu 12 mánuðum og eru nú liðlega 2%. Það er langt umfram það sem gengur og gerist í okkar nágrannalöndum. Auk þess er verðbólguhraði undanfarna 8 mánaði um 2%. Því erum við í 4% raunvaxtastigi. Það er alltof hátt að okkar mati, sér í lagi með heimili og atvinnulíf jafn skuldsett og raun ber vitni,“ segir Þorsteinn.
Ásgeir Jónsson, lektor í hagfræði, telur að Seðlabankinn hafi ofmetið efnahagsbatann og því hækkað vexti of hratt á síðasta ári. Raunvextir hafi verið of háir miðað við ganginn í hagkerfinu sl. 12 mánuði.