Þorbjörg Jörgens Hansdóttir, yfirleitt kölluð Obba, fæddist á Selfossi 8. febrúar 1939. Hún varð bráðkvödd í Bandaríkjunum 15. október 2013.
Foreldrar hennar voru Ólöf Guðmundsdóttir, f. 26. október 1901, d. 12. júní 1985, og Hans Jörgen Ólafsson, f. 17. febrúar 1900, d. 16.11. 1983. Systkini hennar eru Einar, f. 23.4. 1936, Guðrún og Ólafía, f. 7.6. 1948.
Þorbjörg giftist árið 1967 eftirlifandi eiginmanni sínum, Þórhalli Ægi Þorgilssyni, f. 13. september 1939, á Ægissíðu. Foreldar hans voru Kristín Filippusdóttir og Þorgils Jónsson. Börn þeirra eru 1) Baldur, f. 25.1. 1968, kvæntur Felix Bergssyni, f. 1.1. 1967. Börn þeirra eru Álfrún Perla, f. 30.1. 1992, móðir Árelía Eydís Guðmundsdóttir, og Guðmundur, f. 6.4. 1990, móðir Ásdís Ingþórsdóttir. 2) Ólafur Hans, f. 12.1. 1971, d. 8.5. 1971. 3) Ólöf, f. 23.5. 1975, sambýlismaður Guðmundur Óskar Hjaltalín, f. 11.1. 1973. Börn þeirra eru Ægir, f. 12.11. 2005, Freyja, f. 15.6. 2009, og Kristín Ósk, f. 27.10. 1993, móðir Sjöfn Elísa Albertsdóttir. 4) Bjarki, f. 3.2. 1977.
Þorbjörg ólst upp á Garði við Austurveg á Selfossi, stundaði nám við Gagnfræðiskóla Selfoss og Húsmæðraskólann í Reykjavík til að læra hannyrðir. Þorbjörg var talsímakona hjá Landssíma Íslands á Selfossi frá 16 ára aldri eða allt frá árinu 1955, þar til hún fluttist að Ægissíðu í Rangárþingi árið 1968. Hún hafði unun af listsköpun og vann ýmsar hannyrðir sem hún bæði gaf og seldi, m.a. á ferðamannastöðum á Suðurlandi á 7. og 8. áratugnum. Hún vann við ýmis störf á Hellu, lengst af sem saumakona hjá Tjaldborg, ásamt því að sinna heimilisstörfum. Árið 1984 stofnuðu Þorbjörg og Ægir verslunina Hellinn á Ægissíðu við þjóðveginn þaðan sem þau ráku greiðasölu allt til ársins 2002. Þar seldu þau m.a. veiðleyfi í Ytri- og Eystri-Rangá um árabil. Árið 1992 hófu þau hjónin rekstur gistihúsa á Ægissíðu sem Þorbjörg vann við allt til dauðadags. Þorbjörg var lengi virkur félagi í Kvenfélagi Oddakirkju og í skátafélaginu Fossbúum á Selfossi á sínum yngri árum.
Útför Þorbjargar fer fram frá Oddakirkju í Rangárþingi í dag, 2. nóvember 2013, kl. 14.
Það er erfitt að kveðja góða móður og vin. Börn, barnabörn og aðrir sem næst mömmu stóðu voru ætíð í forgrunni. Hún leiddi okkur út í lífið og tók virkan þátt í ævintýrum okkar eftir að heimdraganum sleppti. Henni var ekkert hugljúfara en að gleðja aðra. Mamma var einnig einstaklega ráðagóð, sama hvar borið var niður. Mikið sakna ég okkar daglegu samtala. Að leiðarlokum langar mig að draga fram nokkar hugmyndir og verk sem mamma stóð fyrir en fóru ekki hátt á meðan hún lifði.
Móðir mín þreyttist ekki á því að segja sögur frá æskuslóðunum á Selfossi. Henni leið vel á gestrisnu heimili í þjóðbraut. Kátust var mamma er hún sagði frá árunum á Símanum. Talsímastöðvar þess tíma voru miðstöðvar samskipta í héraði. Þar var mamma í essinu sínu. En hún sagði líka frá stéttaskiptingunni þar sem fáir stórkaupmenn og embættismenn réðu ríkjum og höfðu allt til alls meðan alþýða fólks átti erfitt með að nálgast brýnustu nauðsynjar. Þá kom sér vel að vera með lítið bú á Garði, taka að sér þvotta og kostgangara og leigja út herbergi. Þar lærðist ústjónarsemi sem hún nýtti við allan rekstur. Sögur mömmu gáfu góða innsýn í uppbyggingu þorpsins sem miðpunkts mannlífs en jafnframt í órættlætið sem þar gat ríkt.
Vinnusemi var móður minni í blóð borin. Við hefðum gjarnan viljað að hún tæki sér oftar hvíld frá amstri dagsins en það kom henni aldrei til hugar. Það var sama hvort hún stóð bak við búðarborðið, saumaði tjöld, vann við bakstur, þrif eða stýrði fyrirtækjum, öll verkin voru henni jafnhugleikin. Henni féll aldrei verk úr hendi og var mikið í mun að við temdum okkur sömu vinnusemi.
Mamma var einstaklega löghlýðin en þoldi ekki yfirgang valdhafa. Í fjölda ára átti hún í stríði við sýslumann Rangæinga sem heimilaði ekki sölu varnings annars en bensíns um páska þrátt fyrir að verslanir væru opnar í Árnessýslu. Þetta óréttlæti þoldi móðir mín ekki og barðist ötullega fyrir verslunarfrelsi. Hún hélt búðinni, Hellinum, opinni um páska, skrifaði hjá viðskiptavinum og þegar myrkva tók laumuðumst við mamma til skiptis bakdyramegin út úr búðinni, þar sem lögreglan vaktaði framdyrnar, og keyrðum varninginn á heimili fólks og sumarbústaði í nágrenninu. Mamma sá ekkert ókristilegt við kaup fólks á brýnustu nauðsynjum um páska.
Mamma var samt trúuð. Hún fjarlægðist hins vegar þjóðkirkjuna eftir ítrekaðar árásir biskups á samkynhneigða. Þegar biskupinn vísiteraði í sókninni og kvenfélagið átti að sjá um veglegar veitingar honum til heiðurs neitaði mamma að baka og bera nokkuð á borð fyrir hann. Hún átti erfitt með að neita nokkurri bón en nú skyldi heima setið í hljóði.
Þetta var pólitíkin hennar mömmu. Hún barði sér ekki á brjóst né hrópaði á torgum úti heldur vann í hljóði að réttlátara og betra samfélagi. Hún brýndi fyrir okkur mikilvægi menntunar, sjálfstæðis og heiðarleika. Fátt er mikilvægara í lífinu en ást, umhyggja og vegvísir góðrar móður. Hugmyndir og verk hennar lifa.
Baldur.
Hugurinn leitar 17 ár aftur í tímann þegar við feðgar komum í fyrsta sinn til Obbu og Ægis austur á Ægissíðu í fylgd nýju fjölskyldunnar okkar, Baldurs og Álfrúnar Perlu. Obba og Ægir tóku okkur vel þá strax eins og þau gerðu svo ætíð síðan. Þá ráku þau enn söluturn við Rangárbrúna, voru farin að selja gistingu í sumarhúsin og Obba mín vann myrkranna á milli. Samt fann hún alltaf tíma til að sinna okkur vel og bera í okkur kræsingarnar. Það var gott að koma í hornið í eldhúsinu hennar Obbu minnar, það var jarðtenging, hlý og góð tilfinning. Obba var ákveðin, sterk og sjálfstæð, skarpgreind, stöðugt á fartinni, alltaf boðin og búin að hjálpa og vann mikið til að enginn þyrfti að líða skort. Hún elskaði fjölskyldu sína skilyrðislaust og hún var elskuð á móti. Hún var stolt af börnunum sínum sem hún hafði lagt mikla áherslu á að sæktu sér menntun. Hún vildi að þau væru sjálfstæð og sterk og að heimurinn stæði þeim opinn. Sjálf hefði hún örugglega viljað læra meira, ferðast meira og upplifa meira en amstur hversdagsins hindraði að þeir draumar rættust að fullu. Við náðum þó að fara víða saman síðustu árin, sérstaklega eftir að hún lokaði söluturninum í byrjun nýrrar aldar.
Fátt var skemmtilegra en að ferðast með Obbu minni, upplifa hlutina með henni. Henni fannst allt svo athyglisvert og spennandi. Við áttum dásamlega tíma í stórborgum erlendis, London, París, Sevilla, hjá Ólöfu og Gumma í Stokkhólmi og nú síðast með Ægi og foreldrum mínum í Boston. Við fórum saman í leikhús og á tónleika, sóttum myndlistarsýningar, ræddum um pólitík og þjóðmálin og leyfðum okkur að vera ósammála um margt. Við spiluðum vist í eldhúskróknum á Ægissíðu og hlógum mikið þegar Obba mín tók sénsana sína og sagði „hálfa“ á glötuð spil. Hún var snjall spilamaður og hafði oftar en ekki sigur. Hún sagði mér sögur frá árunum í símstöðinni á Selfossi, skátaferðinni til Englands þegar hún var unglingur, talaði um foreldra sína af mikilli hlýju. Hún var strangheiðarleg og þoldi ekki forræðishyggju yfirvalda. Hún var alltaf boðin og búin að hjálpa og ég veit eiginlega ekki hvernig við fjölskyldan eigum eftir að fara að þegar Obbu nýtur ekki lengur við. Það verða að minnsta kosti mikil viðbrigði. Við Obba mín treystum hvort öðru og það varð grunnur að vináttu og kærleika sem ég mun alltaf eiga í hjarta mér.
Já það er sárt að kveðja en ég finn líka fyrir miklu þakklæti fyrir að hafa fengið að kynnast svo góðri manneskju. Missir elsku Ægis, Baldurs, Ólafar, Bjarka og fjölskyldunnar allrar er mikill en saman getum við huggað okkur við fallegu minningarnar.
Stundum kom ég heim á Túnsberg og þá sat Obba mín þar óvænt í stólnum við suðurgluggann og prjónaði eða las. Þá fór hlýja um mig. Mikið á ég eftir að sakna hennar.
Felix Bergsson.
Við eldhúsborðið á Ægissíðu hafa margar pólitískar baráttur verið háðar. Hávaðinn gat orðið ansi mikill, Obba hafði ekki hæst en stóð fast á sínu. Ekki var hávaðinn minni þegar tekið var í spil. Keppnisskapið í fjölskyldumeðlimum kom mér í opna skjöldu. Það er ekkert grín að spila, það var tekist á. Obba gaf ekkert eftir í spilunum en það var hún sem stóð upp í miðjum klíðum, „viljið þið heitt súkkulaði með kökunum?“ Þannig var Obba, alltaf að gefa okkur að borða og alltaf að gefa af sér. Hún hafði verið símamær á Selfossi þegar hún kynntist Ægi en vann síðar við sauma með heimilinu. Saumakunnáttunnar hef ég fengið að njóta. „Obba amma saumar það,“ hefur verið viðkvæðið á mínu heimili. Nú síðast í haust voru settir upp nýir gardínukappar sem hún saumaði. Obba stofnaði Hellinn, bensínsjoppuna sem var eins konar félagsheimili. Þar stóð hún vaktina, glettin við búðarkassann, fylgdist með veiðinni á sumrin og sveitungum allan ársins hring. Obba var fædd verslunarkona. Hafði gaman af því að prútta á erlendum mörkuðum. Nýtnin var henni í blóð borin, þegar Álfrún Perla fæddist var dregið fram barnadótið og nú nýtur yngsta barnabarnið sömu hlutanna. Obba safnaði öllu og átti allt. Hún naut þess að ferðast og vildi stöðugt halda áfram að læra. Eftir að leiðir okkar Baldurs skildu hélt Obba sömu tryggð við mig og áður. Hún bætti bara við fjölskylduna, Felix og Guðmundi og seinna Sigga og börnum okkar. Hún kom til okkar, í um tvær vikur, eftir að við Siggi eignuðumst Kristínu Sigrúnu. Tók á móti gestum og gangandi svo við gætum hvílst betur. Þannig var Obba. Við eigum ennþá kartöflur í ísskápnum frá henni og hún kom með fyrstu vorblómin í vor. Sendingar með flatkökum og hangikjöti hafa glatt okkur um jól, börnin hafa fengið vettlinga, sokka, leikföng og bækur. Hún spilaði við þau og spjallaði. Þau voru aldrei óþekk, bara dugleg. Þau áttu allt það besta skilið og hún gaf þeim það besta: ástríki og athygli.
Það er ósköp erfitt að kveðja Obbu, hún létti okkur öllum lífsins byrðar. Á sinn hægláta máta var hún alltaf til staðar og maður vissi að ef á þyrfti að halda gæti maður alltaf komið á Ægissíðu og snúið aftur endurnærður á sál og líkama. Hún kunni svo vel að annast um og sýna umhyggju sína. Þannig var Obba. Það dimmir þegar sumir kveðja. Það ljós sem lýsir í myrkrinu er ljós minninganna. Þakklætið yfir því sem við fengum að njóta. Að lokum munu stundirnar sem nú eru horfnar lýsa okkur veginn áfram.
Blessuð sé minning gæðakonunnar Obbu.
Árelía Eydís
Guðmundsdóttir.
Þú hefur kennt mér hvað það er mikilvægt að elska og þykja vænt um aðra. Þú komst alltaf fram við alla af alúð og væntumþykju. Allir voru velkomnir í heimsókn og allir máttu hafa þig fyrir ömmu. Ég verð að segja að mér finnst ekkert skrýtið að hjartað þitt hafi verið aðeins of stórt. Hjartað var alla tíð svona stórt. Amma, þú varst bara með stærra hjarta en aðrir. Þú elskaðir stærra.
Þú kenndir mér hvað það getur verið gaman og mikilvægt að læra. Þú ýttir undir sköpunargáfu mína og hjálpaðir mér með öll verkefni, stór og smá. Ég sagði þér að mig langaði að læra að sauma og þú gafst mér saumavél í útskriftargjöf. Ó, hvað ég vildi að ég hefði tíma til að læra að sauma af þér. Ég veit ekki hversu oft ég kom í sumar og alltaf ætluðum við að fara að sauma en þú varst alltaf jafnsannfærð um að ég þyfti nú að hvíla mig og borða meira svo tíminn fór í kökur, spil og hlátur. Ég er svo þakklát fyrir allar þær stundir sem við áttum saman. Ég mun aldeilis sakna þess að fá símhringingu frá þér tvisvar til þrisvar í viku bara til að spjalla.
Það er svo ómetanlegt að hafa átt þig fyrir ömmu að ég get ekki sagt það nógu oft. Það var sko enginn efi í þínum huga að ég var best, frábærust, sniðugust og klárust. Allt sem ég gerði var flottast og fínast, fötin sem ég keypti, listaverkin sem ég gerði og söngurinn minn. Nefndu það, ég var best. Ef einhver svo dirfðist að bera mig saman við einhvern annan þá fussaðir þú og sveiaðir. Ég var sko fallegust og klárust. Punktur. En amma mín, þú gleymdir stundum að þú varst líka fallegust, best, frábærust og klárust.
Þegar ég kom í heimsókn var hent í flatkökur og allan uppáhaldsmatinn minn og ég mátti bara – átti bara – að liggja uppi í sófa og horfa á fréttirnar með afa. „Hvíldu þig nú lambið mitt, þú ert búin að vera svo dugleg.“ En ef mér datt í hug að stinga upp á því að þú hvíldir þig, þá sagðir þú: „Hvíla mig, ég þarf ekkert að hvíla mig!“ Þér féll ekki verk úr hendi. En núna færðu að hvíla þig, amma mín.
Þó að ég vildi óska að ég gæti haft þig miklu, miklu lengur þá kenndir þú mér að líta alltaf á björtu hliðarnar. Þú sagðir að það ætti að hugsa um þá sem eftir lifðu. Þú varst höfuð litlu fjölskyldunnar. Það verður erfitt að halda áfram án þín. En ég lofa þér, amma mín, að við munum halda áfram að hugsa hvert um annað og ég lofa að fara reglulega á Ægissíðu að hvíla mig. Ég elska þig og mun alltaf elska þig.
Þó að kali heitur hver,
hylji dali jökull ber,
steinar tali og allt hvað er,
aldrei skal ég gleyma þér.
(Vatnsenda-Rósa)
Þín
Álfrún Perla.
Með Þorbjörgu er gengin heilsteypt mannkosta kona sem ég þakka fyrir að hafa kynnst og samhryggist Ægi og börnum þeirra, tengdabörnum og barnabörnum með fráfall hennar.
Páll Björnsson.
Það er svo tæpt að trúa heimsins glaumi
því táradaggir falla stundum skjótt
og vinir berast burt á tímans straumi
og blómin fölna' á einni hélunótt
(Jónas Hallgrímsson)
Það var á haustdaginn 15. okt. sl. að mér barst frá Bandaríkjunum sú harmafregn að Obba, Þorbjörg Hansdóttir, mágkona mín hefði látist þá um nóttina. Hún var þar ásamt manni sínum í heimsókn hjá syni þeirra hjóna og hans fjölskyldu. Þetta kom svo óvænt og minnir okkur á að stutt er á milli lífs og dauða. Stuttu áður en þau hjónin fóru þessa ferð komu þau í heimsókn til okkar á Hvolsvöll og áttum við góðar stundir saman. Ekki óraði mig fyrir að þetta væru síðustu samverustundirnar með Obbu en fyrir þær verð ég ævinlega þakklát.
Lífið hennar Obbu dó á einni haustnóttu. Obba var atorkukona og rak verslunina Hellinn um nokkurra ára skeið en hin síðari ár ráku þau hjón gistiþjónustu fyrir ferðafólk. Við hjónin ásamt þriðja aðila höfðum það fyrir sið að fara eitt kvöld í viku yfir veturinn út að Ægisíðu og spila brids með Ægi. Þetta voru eins konar æfingabúðir fyrir okkur þrjú. Obba spilaði ekki en hún fylgdist með og fannst sinn maður stundum fullharður í aðfinnslum við systur sína en ekki veitti víst af. Hún hvatti okkur til að koma þrátt fyrir að spilamennskan stæði stundum langt fram á nótt. Alltaf var kaffi á könnunni og veislukostur á borðum.
Síðastliðið haust og vetur átti ég í veikindum og var Obbu umhugað að reyna allt hvað hún gat til að lina þjáningar mínar og fylgdist vel með mér. Fyrir það er ég henni ákaflega þakklát. Dóttir okkar sótti í að fá að fara út að Ægisíðu þegar hún var barn en þar átti hún aðeins eldri frænku sem hún leit upp til og þeim kom alltaf vel saman. Hún minnist þessa tíma með þakklæti hve allir voru góðir og skemmtilegir við hana.
Við söknum Obbu en mestur er missir Ægis, barna þeirra hjóna og fjölskyldna. Við hjónin vottum þeim og öðrum ástvinum okkar innilegustu samúð. Megi Guð vera með ykkur á þessum erfiðu tímum.
Ingibjörg Þorgilsdóttir.
Minningarnar eru ólíkar eftir aldri okkar og þeim tímabilum sem við vorum hvað mest á Ægissíðu. Tvær elstu systurnar dvöldu heilmikið á Ægissíðu sem börn og unglinar. Þar var hjálpað til við heimilisverkin, unnið í risastóra garðinum, passað og unnið í sjoppunni og að sjálfsögðu leikið í garðinum, hellunum, spilað og fleira skemmtilegt gert. Bræðurnir kynntust Obbu og Ægi á annan hátt þar sem þeir m.a. tóku að sér á fullorðinsárum að breyta sjoppunni í sumarhús ásamt fleiri smíðaverkum. Sú yngsta man fyrst eftir Obbu í sjoppunni þar sem að henni var gaukað sælgæti eins og hún gat í sig látið.
Á jólunum hittumst við yfirleitt og þá var spilað langt fram á kvöld og borðað yfir sig af smákökum. Frá því að við munum eftir okkur hefur Obba sent okkur krökkunum, hverju fyrir sig, jólakort og náði hún með því að láta manni líða eins og maður væri sérstakur. Já, sælla er að gefa en þiggja, það átti svo sannarlega við um Obbu.
Á þessum ólíka aldri okkar systkina og ólíku tímabilum skinu alltaf í gegn eiginleikar Obbu; gestrisni, hjartahlýja, dugnaður, iðni og stríðni. Hún hafði alltaf trú á okkur krökkunum, hvatti mann áfram í verk sem við vorum ekki alltaf jafn viss um að geta unnið. Aldrei kom maður öðruvísi á Ægissíðu en að lagt væri á borð og veitingar töfraðar fram, einn af mörgum eiginleikum sem minntu okkur á ömmu Lóu. Það er ótrúlegt til þess að hugsa að eiga ekki eftir að hitta Obbu aftur, heyra ekki stríðnishláturinn hennar og boðið um að fá sér nú endilega meira að borða.
Ægir, Baldur, Ólöf, Bjarki og fjölskyldur, missir ykkar er mikill. Megi Guð gefa ykkur styrk.
Kær kveðja frá systkinunum frá Þrándarholti,
Ólöf, Hrund, Arnór Hans, Ingvar og Dóra Björk Þrándarbörn.
Obbu mun ég alltaf minnast fyrir sanngirni, passasemi, dugnað, varkárni, jákvæðni, mikla hjartahlýju og hreint út sagt frábæra nærveru. Þessi flotta frænka vildi mér alltaf allt það besta. Illa heyrði ég hana aldrei tala um neinn. Góðmennskan var yfirgnæfandi svo að á stundum held ég að hún hafi verið meira til trafala heldur en hitt, alla vega var góðvildin til trafala þegar kom að því að afskrifa viðskiptakröfurnar á suma sjoppukúnana, þá var mikið gefið eftir til þeirra sem voru auralausir. Obba var eins og öll þau systkini dugnaðarforkur og heimili fjölskyldunnar á Ægissíðu með frábæru útsýni yfir Rangá stórglæsilegt á alla kanta.
Í barnæsku minni á Selfossi var samgangurinn milli frændfólksins á Suðurlandi mikill og ég, þá 3-8 ára, dvaldi sitt á hvað hjá þeim systkinum og oft yfir margra daga tímabil í einu. Aldrei bar þar nokkurn skugga á og alltaf var þá gott að koma á Ægissíðu, það var frekar verra að fara en koma. Og ekki skemmdi fyrir þegar sjoppan var opin og að hafa aðgang að sælgæti í ótakmörkuðu upplagi, horfa á teiknimyndir á VHS eða bara lesa Andrésblöðin hennar Ólafar.
Eftir að við fluttum austur og ég seinna í bæinn kom ég miklu sjaldnar á Ægissíðu. Þegar ég fór keyrandi austur reyndi ég að detta í kaffi á Ægissíðu. Alltaf mætti manni sama gestrisnin og alltaf var greinilegt að þeim Obbu og Ægi fannst gaman að hlusta á frændann segja frá sínum högum. Í einu þannig dæmigerðu stoppi vorum við Björn bróðir á seinasta nýársdag. Það var kvöldmatur og ég vildi stoppa, en Björn ekki, því það var stórhátíð, matmálstími og ekki búist við okkur. Úr varð að við stoppuðum, löbbuðum beint inn í nýárshumarinn og fengum auðvitað sömu frábæru móttökurnar og vanalega. Þetta reyndist næstseinasta skiptið sem ég hitti Obbu frænku mína í þessu lífi, og seinasta skiptið sem ég hitti hana á Ægissíðu.
Obba frænka mín verður lögð til hinstu hvílu í Odda á Rangárvöllum. Ég verð þess heiðurs aðnjótandi að fá að fylgja henni seinasta fetið í jarðlífinu. Hitt er alveg öruggt að hinum megin, í heimi án tíma og rúms, verður tekið vel á móti henni Obbu frænku minni.
Blessuð sé minning þín, Obba, og megi hún aldrei gleymast.
Ólafur Pálsson.
Á ferðalögum okkar fjölskyldunnar til Reykjavíkur, á mínum yngri árum, var alltaf stoppað hjá Obbu og Ægi á Ægisíðu. Áður en rennt var í hlað var fyrst stoppað í sjoppunni sem þau áttu, það var nú ekki leiðinlegt fyrir sælgætisgrísi eins og mig. En Obba sá ávallt til þess að ég færi hamingjusamlega smjattandi út úr sjoppunni áður en við myndum setjast við kaffihlaðborðið sem hún töfraði fram heima í bæ.
Það sem helst einkenndi Obbu var að hún tók öllum opnum örmum og sá ætíð hið góða í fari hvers og eins. Ég var svo heppin að vinna eitt sumar hjá þeim og átti þá að hjálpa henni í sjoppunni og passa barnabarnið þeirra, hana Álfrúnu Perlu. Margt var brallað þetta sumar og gaman var að hafa dvalið hjá þeim og kynnast lífinu hjá þeim. Obba hafði alltaf skoðanir á hlutunum og var aldrei leiðinlegt að ræða málin við hana. Hún talaði við mig sem jafningja og setti sig inn í aðstæður áður en hún tók til orða með miklu jafnaðargeði og rökfestu án þess að dæma nokkuð. Þetta sumar sannfærðist ég um að þarna ætti ég einstaka frænku með sérstaklega gott hjarta.
Obba var afskaplega stolt af börnunum sínum, tengdabörnum og barnabörnum og fylgdist vel með því sem þau tóku sér fyrir hendur. Það var aðdáunarvert hversu lunkin hún var að tala vel um þau og hægt að sjá langar leiðir hversu ánægð hún var með þau öll.
„Nú þarf að gróðursetja Obbu svo hún geti verið engill hjá Guði,“ sagði Ásgeir Hans litli þegar hann frétti að ömmusystir hans væri farin. Burt séð frá orðalagi drengsins og trúarsannfæringu minni þá trúi ég þó því að ef einhver verður engill þá ert það þú, elsku Obba. Hvíl þú í friði, um aldur og eilífð.
Elsku Ægir, Baldur, Felix, Ólöf, Gummi og Bjarki, ég votta ykkur mína dýpstu samúð og bið Guð að styrkja ykkur í þessari miklu sorg.
Sérhver draumur lifir aðeins eina nótt.
Sérhver alda rís en hnígur jafnan
skjótt.
Hverju orði fylgir þögn
og þögnin hverfur allt of fljótt.
En þó að augnablikið aldrei fylli stund,
skaltu eiga við það mikilvægan fund.
Því að tár sem þerrað er burt,
aldrei nær að græða grund.
Líttu sérhvert sólarlag,
sem þitt hinsta væri það.
Því morgni eftir orðinn dag,
enginn gengur vísum að.
(Bragi Valdimar Skúlason)
Ásdís Hanna Pálsdóttir.
Fyrsta minning mín um Obbu er þegar þau Ægir voru að byggja húsið sitt á Ægissíðu IV. Við krakkarnir sóttum mikið upp á Ægissíðu og ekki síst þegar eitthvað var um að vera. Þá þótti okkur spennandi að fá að fylgjast með. Obba leyfði okkur alltaf að vera með sér og fannst gaman að fá okkur i heimsókn.
Það var alltaf mjög mikill samgangur á milli æskuheimilis míns og Ægissíðu IV og mér er eftirminnilegt þegar við systkinin komum til þeirra með pabba og mömmu að Obba lagði alltaf á borð fyrir okkur krakkana eins og fullorðna fólkið.
Þegar ég var 12 ára passaði ég Baldur fyrir þau um sumarið og þá naut ég góðs af því hversu klár Obba var í eldhúsinu. Hún kenndi mér þá að matbúa hina ýmsu rétti og bý ég enn að því í dag. Það var upplifun fyrir mig að vera hjá þeim, stelpuskott úr stórum systkinahóp, og fá alla þessa athygli.
Ég hef alltaf haft ánægju af því að heimsækja Obbu og Ægi og hafa þær heimsóknir verið reglubundnar núna síðustu árin og eins voru þau dugleg að kíkja í heimsókn til okkar. Þær samverustundir voru alltaf notalegar og tilhlökkun bæði að fara til þeirra og eins að fá þau í heimsókn.
Ég er Obbu afar þakklát allri hjálpinni sem hún veitti mömmu og okkur systkinunum eftir að pabbi dó 1982. Sú hjálp var ómetanleg fyrir okkur öll á erfiðum stundum. Obba kom alltaf fram við okkur systkinin af svo mikilli virðingu.
Obba lést á dánardegi Kristínar ömmu en ég minnist þess hversu vel þær tengdamæðgurnar náðu alltaf saman og voru miklar vinkonur. Þegar ég sjálf fór að búa 18 ára gömul kom Obba oft í heimsókn og þó það var í reynd 21 ár á milli okkar í aldri fann ég aldrei fyrir miklum aldursmun.
Það var gaman að heyra Obbu tala um börnin sín og barnabörnin sem hún gat sannarlega verið stolt af. Þá var Obba afskaplega góð amma og gaman að fylgjast með henni í því hlutverki.
Þau Ægir nutu þess mjög að ferðast í gegnum árin, oftast á suðlægar slóðir í afslöppun, en Obba fór einnig oft að heimsækja börnin þegar þau dvöldu um lengri eða skemmri tíma erlendis við störf – meðal annars til Parísar, Lundúna, Stokkhólms og svo nú síðast til Boston þar sem kallið kom. Það var alltaf gaman að heyra Obbu tala um upplifun sína af ferðalögum hvert sem farið var þó ekki verði af því í þetta skiptið.
Mér finnst ljóðið Hlýjar kveðjur eftir Huldu Ólafsdóttur eiga vel við í lokin á þessum kveðjuorðum um leið og ég þakka Obbu fyrir samfylgdina í gegnum árin.
Til þín ég hugsa, staldra við,
sendi ljós og kveðju hlýja.
Bjartar minningar lifa,
ævina á enda.
Ég sendi Ægi, Baldri, Ólöfu, Bjarka, tengdabörnum og barnabörnum innilegar samúðarkveðjur frá okkur Bubba á þessum erfiðu tímamótum.
Íris Björk Sigurðardóttir.
Ég man fyrst eftir Obbu fyrir tæpum 30 árum í skírn í húsinu sem síðar átti eftir að verða mitt uppvaxtarheimili. Þá var ég fjögurra ára gamall. Síðan taka við áralangar minningar úr sjoppunni á Ægissíðu þar sem Obba stóð vaktina árum saman, minningar úr veislum og viðburðum innan stórfjölskyldunnar sem og minningar heima á Ægissíðu í eldhúskróknum þar sem Obba var ávallt höfðingi heim að sækja. Þar bakaði hún ófáar vöfflurnar ofan í mann á meðan setið var að kaffidrykkju og kleinurnar hennar voru með þeim betri. Obba var af þeirri kynslóð sem kunni að taka á móti gestum enda mjög gestkvæmt hjá þeim hjónum.
Obba hafði sterkar skoðanir á samfélagsmálum og ófáar voru þær umræðurnar um þjóðmálin sem við áttum í eldhúskróknum með Ægi og fleirum. Í grundvallaratriðum deildum við pólitískri sýn en einstaka sinnum voru meiningar mismunandi og þá var oft rætt af alvöru um málin. Sjaldan bakkaði nokkur með sína meiningu en alltaf var endað á friðsamlegum nótum. Svo spratt umræðan kannski upp aftur næst þegar sest var niður yfir kaffibolla og af sama ákafa og fyrr.
Við leiðarlok er margs að minnast og margs að þakka. Fyrir nokkrum árum naut ég þess að Obba hljóp undir bagga með mér í sauðburði og leit til með fénu þegar ég þurfti að vera í vinnu eða á fundum. Sú hjálp kom sér ákaflega vel og Obba leysti sauðburðarstörfin af hendi með stakri prýði eins og annað sem hún gerði.
Eitt skiptið þegar ég var í mat hjá þeim vorum við að borða slátur sem Obba hafði nýlokið við að gera. Ég talaði um hversu gott mér þætti slátrið og að mig hefði oft langað til að gera mitt eigið slátur. Obba bauðst þá strax til að aðstoða mig við sláturgerðina sem varð svo úr nokkrum dögum síðar og árlega hvert haust í nokkur ár. Dugnaður og trúmennska við sitt og sína einkenndi Obbu.
Obba ræddi gjarnan um æskuárin á Selfossi og var stolt af þeim uppruna sínum. Hún ræddi einnig oft um barnabörnin sín og þar leyndi stoltið sér ekki því hún ljómaði alla jafnan þegar þau bar á góma.
Lífsganga Obbu var ekki alltaf létt og gatan stundum grýtt en Obba tókst á við áföll af æðruleysi og með reisn. Hún bar sinn harm jafnan í hljóði eins og svo margt fólk af hennar kynslóð. Þegar Siggi afi lést langt um aldur fram reyndist Obba ömmu og fjölskyldunni afar vel í þeirri miklu sorg og fyrir það er þakkað nú.
Við Charles nutum þess að hafa Obbu og Ægi í giftingunni okkar í sumar og þegar kallið kemur með jafn skjótum hætti og raun ber þakkar maður fyrir hverja samverustund sem liðin er. Áfallið fyrir Ægi og fjölskylduna er mikið. Stórt skarð hefur verið höggið sem ekki verður aftur fyllt – en minningin lifir.
Um leið og Obbu er þökkuð samfylgdin með þessum fátæklegu orðum sendum við hjónin Ægi og fjölskyldunni allri okkar innilegustu samúðarkveðjur. Blessuð sé minning hennar.
Ingvar Pétur Guðbjörnsson.
Ég fékk simhringingu, það var sorgarfrétt, að þú, besta vinkona mín, hefðir látist á ferðalagi í Bandaríkjunum, þegar þú fórst að heimsækja son þinn. Fjölskyldan skrapp í heimsókn yfir hafið til að gleðjast saman en aðeins fimm dögum seinna sofnar þú svefni hinna réttlátu.
Elsku Obba mín, þú varst alltaf einstök og yndisleg, áttir fallegt heimili og hugsaðir vel um börn og bú. Kynni okkar hófust á fæðingardeild Landspítalans 1977 þegar við fæddum drengina okkar á sama sólarhring. Okkar kynni slitnuðu aldrei. Allt sem þú þurftir að ganga í gegnum gerðir þú með æðruleysi. Þú varst ávallt hreinskilin og gott var að vinna með þér. Efst í huga mínum nú er þakklæti fyrir sanna vináttu og umhyggju sem þú sýndir mér og mínum börnum. Drengirnir mínir dvöldu á heimili þínu sumarlangt aftur og aftur, þeir elskuðu að vera hjá svona hjartahlýrri og góðri konu og yndislegri fjöldskyldu.
Af verkum þínum tengdum heimilishaldinu sást að þú varst smekkmanneskja, ekki síst þegar kom að matargerð, þar varstu einnig einstök. Þú bakaðir og matreiddir af einlægni og allt var borið fram með gæsibrag. Allir velkomnir hvenær sem var.
Það var dugnaður og kraftur í hverju sem þú tókst þér fyrir hendur. Þú annaðist vel fyrirtækin þín af hjartahlýju og yfirvegun. Þú varst alla tíð til fyrirmyndar.
Elsku Obba mín, ég er þér ævinlega þakklát fyrir 36 árin sem við áttum saman. Alla tíð varstu einlæg og góð vinkona. Það er alltaf erfitt að kveðja sína nánustu, hvort sem það eru ættingjar eða góðir vinir. Hver minning er dýrmæt perla.
Mér finnst ég varla heill né hálfur
maður
og heldur ósjálfbjarga, því er ver.
Ef værir þú hjá mér vildi ég glaður
verða betri en ég er.
Eitt sinn verða allir menn að deyja.
Eftir bjartan daginn kemur nótt.
Ég harma það en samt ég verð að
segja,
að sumarið líður allt of fljótt.
Ég gái út um gluggann minn
hvort gangir þú um hliðið inn.
Mér alltaf sýnist ég sjái þig.
Ég rýni út um rifurnar.
Ég reyndar sé þig alls staðar.
Þá napurt er, það næðir hér
og nístir mig.
(Vilhjálmur Vilhjálmsson)
Mínar innilegustu samúðarkveðjur til eftirlifandi ástkærrar fjölskyldu þinnar og vina.
Þín er sárt saknað. Elsku vinkona mín, hvíldu í Guðs friði.
Kristín Símonía Ottósdóttir og börn.
Anda þinn lát æ mér stjórna,
auðsveipan gjör huga minn,
og á þinnar elsku vegum
inn mig leið í himin þinn.
(Steingrímur Thorsteinsson)
Vinkona mín Þorbjörg Hansdóttir lést 15. okt. sl. Hún ólst upp á Selfossi hjá góðum foreldrum og systkinum. Ung að árum flutti hún að Ægisíðu 4 og hefur búið þar ásamt eiginmanni sínum Þórhalli Ægi Þorgilssyni. Þau hjón ráku bensínstöð og sölubúðina Hellinn í mörg ár. Sumarbústaði reistu þau og leigðu út. Þorbjörg eða Obba eins og hún var kölluð var dugleg og vinnusöm. Gaman var að koma og tylla sér við eldhúsborðið og ræða málin við hana.
Obba var félagi okkar í Kvenfélagi Oddakirkju í yfir 30 ár. Hún var gjaldkeri í nokkur ár og síðar endurskoðandi. Vil ég þakka henni vel unnin störf í þágu kvenfélagsins og gott samstarf.
Við sendum eiginmanni, börnum og barnabörnum hugheilar samúðarkveðjur.
Hvíl þú í friði.
Guðríður Bjarnadóttir.
Obba var vel gerð og skemmtileg vinkona. Ég vil þakka Obbu vinkonu minni fyrir allar þær gleðistundir er við áttum saman á langri leið. Það var gæfa að eiga hana að vini og minningarnar mætar.
Ég bið Guð að styrkja Ægi eiginmann hennar, börn þeirra og barnabörn. Systkini hennar og fjölskyldur þeirra.
Ég vil gjarnan lítið ljóð
láta af hendi rakna.
Eftir kynni afargóð
ég alltaf mun þín sakna.
(Guðrún V. Gísladóttir)
Far þú í friði, elsku vinkona. Takk fyrir allt.
Þín vinkona
Sigrún.
Það var erfitt að taka á móti símtali frá Boston um að Þorbjörg hefði kvatt þennan heim eftir að hún hafði verið þar í nokkra daga.
Við hjónin vorum svo lánsöm að kynnast hjónunum Þorbjörgu og Ægi á Ægissíðu, þegar við byggðum okkar sumarhús við Ytri-Rangá. Þarna fundum við strax hvað er að eiga góða vini, sem vildu hjálpa okkur að kynnast staðnum, sem var okkur ókunnugur. Greiðviknin og fyrirgreiðslan í svo mörgu voru einstök.
Að taka hestinn minn í umsjá yfir veturinn var ekkert mál og líta eftir sumarhúsinu okkar var sjálfsagt. Þetta og meira til verður aldrei fullþakkað.
Margar góðar minningar koma upp í hugann, matarboðin og kaffiboðin, einnig allar góðu samverustundirnar, því ekki var farið suður nema kveðja vinina á Ægissíðu. Þorbjörg hugsaði vel um fjölskyldu sína, börn og barnabörn, fallega heimilið á Ægissíðu stóð opið bæði ættingjum og vinum.
Þorbjörg hafði þörf fyrir að gleðja aðra. Þrátt fyrir mikla vinnu heima fyrir hafði hún alltaf tíma fyrir fólkið sitt og gesti, það má segja að lífshlaup hennar hafi endurspeglast í orðunum „sælla er að gefa en þiggja“.
Ég er þakklát fyrir að hafa fengið tækifæri til að kynnast Þorbjörgu og eiga hana að.
Kallið kom með sviplegum hætti.
Kallið er komið,
komin er nú stundin,
vinaskilnaðar viðkvæm stund.
Vinirnir kveðja
vininn sinn látna,
er sefur hér hinn síðsta blund.
Margs er að minnast,
margt er hér að þakka.
Guði sé lof fyrir liðna tíð.
Margs er að minnast,
margs er að sakna.
Guð þerri tregatárin stríð.
(Vald. Briem)
Ægir Þorgilsson, Baldur, Ólöf og Bjarki. Mínar innilegustu samúðarkveðjur.
Ríkey Ríkarðsdóttir.
Minnugur þess hve góðar viðtökur frændur mínir fengu hjá þeim hjónum tók ég að venja komur mínar í Hellinn þegar ég bjó um tíma í Fljótshlíð og sem fyrr voru umræðurnar líflegar í horninu góða.
Hornið hvarf þó ekki úr lífi mínu þótt ég flytti úr Hlíðinni fögru því að skömmu eftir að ég fluttist til Reykjavíkur kynntist ég Baldri Þórhallssyni, syni þeirra hjóna. Í fjölskylduboðum á Túnsbergi hjá þeim Baldri og Felix tókust kynni á ný. Þorbjörg var vel fróð um ættir og mannlíf á Suðurlandi að fornu og nýju. Upp frá því lét ég aldrei hjá líða að koma við á heimili þeirra hjóna þegar ég átti leið um Rangárþing þó að enginn væri nú lengur Hellirinn og hornið góða orðið að hlýlegum eldhúskrók á Ægissíðu.
Fyrir um sex árum fór ég ásamt Þorbjörgu og fleira fólki til Parísar í fertugsafmæli Baldurs. Ferðin var ánægjuleg, ekki síst samvistirnar við Þorbjörgu þó svo að áratugir skildu að í aldri. Það var gaman að sjá hve vel hún kunni við sig í heimsborginni því að hún fótaði sig ekki síður vel á bökkum Signu en við Ytri-Rangá þar sem hún bjó sér og fjölskyldu sinni fallegt og gott heimili.
Ég kom síðast að Ægissíðu um verslunarmannahelgina í sumar ásamt Baldri því að móðir hans hafði falið honum að sjá um gistireksturinn á meðan þau hjónin brugðu sér á Þjóðhátíð í Eyjum. Ég vissi að líkamlegt þrek Þorbjargar færi þverrandi en ekki óraði mig fyrir því að svo skammt væri til hausts. Hún var hress allt fram á síðasta dag og mér þótti vænt um hversu vel hún fylgdist með ritstörfum mínum. Þar var hvatning hennar mér mikils virði.
Að leiðarlokum þakka ég Þorbjörgu samfylgdina og votta fjölskyldu hennar og ástvinum öllum mína dýpstu samúð.
Guðjón Ragnar Jónasson.
Elsku Obba amma, við söknum þín. Kristín, Álfrún, Guðmundur, Baldur, Óskar, Felix, Ægir afi, Árelía, Siggi, Eygló amma og afi Gummi. Við munum alltaf elska þig, þú hjálpaðir okkur alltaf. Þú gafst mér alltaf gjafir þegar litli bróðir minn átti afmæli en enginn annar gerði það. Þú verður alltaf í hjörtum okkar. Allir fóru að gráta. Takk fyrir að vera amma mín, við elskum þig.
Kristín Sigrún Áss (9 ára).