Landakirkja og Eldfell Tímatal í Vestmannaeyjum miðast við eldgosið í Heimaey 1973, fyrir og eftir gos. Útlitið var svart þegar bærinn kaffærðist í hrauni og ösku en Eyjamenn misstu ekki vonina og Vestmannaeyjar risu á ný.
Landakirkja og Eldfell Tímatal í Vestmannaeyjum miðast við eldgosið í Heimaey 1973, fyrir og eftir gos. Útlitið var svart þegar bærinn kaffærðist í hrauni og ösku en Eyjamenn misstu ekki vonina og Vestmannaeyjar risu á ný.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ljósmyndir | Sigurgeir Jónasson Sigurgeir Jónasson ljósmyndari í Vestmannaeyjum og Morgunblaðið hafa lengi átt samleið. Hann hefur myndað eldgos og eyjalíf, sjómenn og fiskverkakonur og ótrúlega fjölbreytni náttúru Vestmannaeyja.

Sjósókn og fiskvinnsla, lundaveiðar og rollustúss í úteyjum. Eldgos, litfögur náttúrufyrirbæri og Eyjamenn í dagsins önn. Allt þetta hefur Sigurgeir Jónasson, ljósmyndari Morgunblaðsins í Vestmannaeyjum, skráð af kostgæfni á löngum ferli sínum sem ljósmyndari.

Sigurgeir fæddist í Vestmannaeyjum 19. september 1934 og hefur búið þar alla ævi. Hann byrjaði ungur að taka ljósmyndir og birtust fyrstu myndir Sigurgeirs á prenti þegar hann var 13 ára gamall.

Fyrstu fréttamyndir Sigurgeirs í Morgunblaðinu birtust í nóvember 1959. Þá var myndefnið síldveiðar í Vestmannaeyjahöfn og smölun í Álsey. Ferill hans sem fréttaljósmyndari hófst í ágúst 1958 þegar myndir hans af hvalskurði í Vestmannaeyjahöfn birtust í Tímanum. Fréttaljósmyndun Sigurgeirs til þessa dags spannar því meira en 55 ár. Auk þess að taka myndir var Sigurgeir fréttaritari Morgunblaðsins um tíma og hann og kona hans, Jakobína Guðlaugsdóttir, voru umboðsmenn Morgunblaðsins í um 30 ár.

Sigurgeir hefur verið iðinn við að skrá hinar ýmsu hliðar atvinnulífsins, náttúrunytja og mannlífsins. Myndasafnið geymir heimildir um vinnubrögð og lífsbaráttuna síðustu tæpa sex áratugina. Sigurgeir var í návígi við tvö stór eldgos, Surtseyjargosið 1963 - 1967 og Heimaeyjargosið 1973, og tók af þeim hundruð þúsunda ljósmynda. Margar þeirra birtust í víðlesnum dagblöðum og tímaritum um allan heim. Auk þess tók Sigurgeir myndir af þremur Heklugosum frá sjónarhóli Eyjamanna.

Fuglamyndir og aðrar náttúrulífsmyndir Sigurgeirs eru kafli út af fyrir sig. Myndasyrpur hans af fjölbreyttum litbrigðum og formum kletta, hella og fuglabjarga, litaveislum í þangpollum og öðrum mótívum í ótrúlega fjölbreyttri náttúru Vestmannaeyja glöddu oft augu lesenda Morgunblaðsins.

Áætlað er að mynda- og filmusafn Sigurgeirs geymi 3-5 milljónir ljósmynda. Lítið brot af þessu gríðarstóra safni hefur verið skannað og myndirnar skráðar með upplýsingum um myndefnið. Félagið Sigurgeir ljósmyndari ehf. var stofnað 2005 af Sigurgeir og fjölskyldu hans í þeim tilgangi að varðveita og skrá ljósmyndasafnið. Myndir úr ljósmyndasafninu eru aðgengilegar á vefnum sigurgeir.is .

Frægasta ljósmyndin

Þekktasta ljósmynd Sigurgeirs var tekin að kvöldi 1. desember 1963 þegar Surtseyjargosið hafði staðið í hálfan mánuð. Hún var valin fréttamynd desembermánaðar 1963 hjá Associated Press (AP) fréttastofunni og síðar var hún valin í hóp bestu fréttaljósmynda ársins 1963 hjá AP.

Sigurgeir kvaðst hafa farið með Yasicha Mat 6x6 myndavél og þrífót út á Breiðabakka þaðan sem vel sást til gossins. Jakobína, kona Sigurgeirs, og börnin þeirra voru með. Risastór gosmökkurinn stóð upp úr hafinu og í honum leiftruðu eldingar milli himins og jarðar.

„Ég hafði ekki tekið mynd á tíma fyrr en þarna,“ sagði Sigurgeir. Jakobína skráði ljósopið og tímasetninguna á hverri mynd og hvað hún var lýst lengi. „Það var frá einni mínútu og upp í fimmtán mínútur sem ég var með vélina opna. Ég reyndi að meta það hverju sinni eftir því hvað eldingarnar voru sterkar hvað lengi vélin þyrfti að vera opin svo eitthvað kæmi fram í myndinni.“ Verðlaunamyndin var tekin nákvæmlega klukkan 19.25.00 til klukkan 19.26.30. Sigurgeir sagði að enn þann dag í dag, tæpum 50 árum síðar, sé óskað eftir leyfi til að nota þessa víðfrægu mynd.

gudni@mbl.is