Viðtal Karl Blöndal | kbl@mbl.is Björn Bjarnason starfaði í tólf ár á Morgunblaðinu, fyrst sem blaðamaður og síðan aðstoðarritstjóri. Úr blaðamennsku lá leiðin í pólitík og hann gegndi bæði embætti menntmálaráðherra og dómsmálaráðherra. En blaðamennskan er ekki langt undan og nú skrifar hann meðal annars um málefni Evrópusambandsins á Evrópuvaktinni.
Ég hafði, má segja, verið meira eða minna á Morgunblaðinu frá því að faðir minn kom inn á blaðið 1956,“ segir Björn. „Þá kynntist ég blaðinu og daglegum rekstri þess. Ég varð sendill og vann á flestum deildum blaðsins, meira að segja í prentsmiðjunni þar sem ég tók á móti blöðum úr prentvélinni á laugardagskvöldum og seldi sunnudagsblaðið út um lúgu á Morgunblaðshúsinu í Aðalstræti. Þá var oft handagangur í öskjunni. Ég kynntist því öllum rekstri blaðsins þegar ég var á skólaaldri, aldrei sló ég þó á blývélarnar.“
Björn var ungur að árum þegar þetta var. Bjarni Benediktsson, faðir hans, var ritstjóri Morgunblaðsins á árunum 1956 til 1959. „Í kosningabaráttunni 1967 skrifaði ég Staksteina og þótti föður mínum ekki sérstaklega mikið til þess koma, taldi að ýmsir teldu hann hafa puttana í því sem ég væri að gera og færu kosningarnar illa lægi hann undir meira ámæli en ella vegna úrslitanna - viðreisnarstjórnin hélt sem betur fer velli.“
Eftir að Björn lauk prófi í lögfræði var hann útgáfustjóri hjá Almenna bókafélaginu í þrjú ár og fréttastjóri í erlendum fréttum á Vísi árið 1974. Leið Björns lá síðan aftur á Morgunblaðið árið 1979 eftir fimm ár í forsætisráðuneytinu þar sem hann var fyrst deildarstjóri og síðan skrifstofustjóri.
Leiðtogafundur og heimsókn páfa
„Ég réðst sem blaðamaður á Morgunblaðið 1979 og var þar til 1991 sem fastur starfsmaður,“ segir Björn. „Ég sinnti mest erlendum málum og stjórnmálum. Fyrsta stóra verkefnið, sem ég tók að mér, var vegna borgarstjórnarkosninganna árið 1982 þegar Davíð Oddsson var kosinn borgarstjóri. Síðan man ég sérstaklega eftir tveimur stórum verkefnum, sem voru á mínu borði. Það var fundur Reagans og Gorbatsjovs 1986 og koma Jóhannesar Páls II. páfa hingað 1989. Þetta voru sérverkefni, sem mér voru falin fyrir utan mín daglegu störf sem blaðamaður.“Björn rifjar upp að þegar hann var á Morgunblaðinu hafi skrifstofur þess verið í Aðalstræti, í „centrum“.
„Menn héldu að pólitíska fréttamennskan myndi hverfa þegar blaðið flutti í Kringluna,“ segir hann og hlær. „Úr Aðalstrætinu var stutt að fara út í þinghús, en ekki síður stutt fyrir þingmenn að koma til blaðsins og komu þeir oft. Á þessum árum frá því að ég kynntist blaðinu sem sendill þangað til ég hætti var stöðugur uppgangur og vöxtur. Spurningin var alltaf hvernig blaðið ætti að stækka og vaxa.“
Björn segir að í forsætisráðuneytinu hafi hann verið embættismaður, sem sá um að koma í framkvæmd ákvörðunum annarra, en blaðamennskan hafi meira snúist um að fylgjast með, en einnig að hafa áhrif.
„Við fjölluðum ítarlega um utanríkismálin og dvöl varnarliðsins var þar ofarlega á blaði, öryggis- og varnarmál voru mitt sérsvið,“ segir hann. „Morgunblaðið var mjög virkur þátttakandi í kalda stríðinu og skipti þar máli sem gerandi. Flest sem við skrifuðum olli deilum og var mikið til umræðu þannig að maður sat ekki endilega hjá sem áhorfandi. Menn lögðu sitt til málanna. Þetta voru spennandi örlagatímar. Ég skrifaði um öryggis- og varnarmál, hermál og kjarnorkumál, bæði tæknilega og pólitískt. Á þessu hafði ég mikinn áhuga og þurfti ekki að kvarta undan því að hafa ekki nóg af verðugum verkefnum. Síðan ákvað ég að fara beint í pólitíkina og það var nýr kapítuli.“
Björn segir að sér sé hin tæknilega þróun, sem varð á þessu tímabili, sérstaklega minnisstæð. „Níundi áratugurinn var mjög merkilegur þegar hugað er að blaðamennsku og blaðaútgáfu hér á landi,“ segir Björn. „Tölvubyltingin gekk í garð. Menn færðu sig úr blýinu í tölvurnar og það er eftirminnilegt að hafa tekið þátt í þeirri breytingu. Á þessum tíma fóru menn líka að nota tölvur til fjarskipta og maður gat setið heima hjá sér, lesið efni blaðsins í tölvu áður en það birtist og gert athugasemdir. Um leið fóru fréttir að berast að utan í gegnum tölvu. Við gerðum samning við Daily Telegraph og tókum efni úr blaðinu áður en það birtist þar og gátum birt það samtímis í Morgunblaðinu.“
Björn segir að þarna hafi orðið bylting á allri miðlun, hvort sem um var að ræða fréttir eða ljósmyndir.
„Þeir, sem starfa við erlend fréttaskrif núna, geta ekki ímyndað sér þá byltingu, sem varð á þessum árum. Ég man eftir því að þegar ég kom fyrst á Morgunblaðið lásu menn svokallaða strimla. Fréttir frá fréttastofunni NTB í Noregi komu á strimlum og menn þurftu að kunna hálfgert leyniletur til að geta lesið textann sér til skilnings. Svo komu skeytaprentararnir og svo koll af kolli til þess tíma í dag þegar hægt er að horfa á hundrað sjónvarpsstöðvar, fara inn á netið og hlusta á allar útvarpsstöðvar í heimi fyrir utan allt annað, sem hægt er að nálgast. Að hafa fylgst með þessu og verið að einhverju leyti þátttakandi í því er í raun ótrúlegt og með ólíkindum að hugsa til þess að sú var tíðin að menn sátu og reyndu að hlusta á BBC og vart mátti heyra orðaskil fyrir skruðningum. Nú er BBC í bílnum hjá öllum.“
Áhersla á erlendar fréttir
Björn hefur orð á því að þessar breytingar hafi orðið til þess að erlendum fréttum sé nú minni sómi sýndur í íslenskum fjölmiðlum en áður hafi verið, bæði í prentmiðlum og útvarpsfréttum.„Morgunblaðið var á þessum tíma með erlendar fréttir á forsíðu,“ segir Björn. „Það var undantekning að menn kæmu með innlendar fréttir á forsíðuna. Það kom í hlut þess, sem bar ábyrgð á erlendu fréttunum, að ákveða hvernig forsíða blaðsins liti út.“ Hann hugsar sig aðeins um og heldur svo áfram: „Ég sé eftir einu tilviki, sem ég mat ekki þannig þá, en hefði átt að sjá að ætti heima á forsíðu. Það var myndin fræga af manninum, sem gekk út á götuna í grennd við Torg hins himneska friðar í Peking 1989, og stöðvaði skriðdrekana. Sú mynd fór ekki inn á forsíðuna heldur aðrar myndir frá þessum atburðum. Fari menn hins vegar inn á vefsíður núna eru bæði til sjónvarpsupptökur og þessi fræga mynd ljósmyndara Associated Press áberandi og þær eru táknrænar fyrir þennan atburð. Þegar maður fer hins vegar yfir atburði í huganum, hvað hafi verið merkilegt og hvað ómerkilegt, má almennt séð segja að Morgunblaðið hafi verið með meginstraumana rétta. Moggalygin svonefnda reyndist sannleikur.“
Erfitt getur verið að leggja mat á atburði og vægi þeirra um leið og þeir gerast. Þegar leiðtogafundinum lauk 1986 ríkti mikil svartsýni og hún endurspeglaðist í fyrirsögnum dagblaða. „Leiðtogana greinir á um geimvarnir“ sagði í fimmdálka fyrirsögn Morgunblaðsins, en í undirfyrirsögn kvað við jákvæðari tón. Vitnað var í orð Reagans um að náðst hefði „meiri árangur en okkur óraði fyrir“ og ummæli Gorbachevs um að Sovétmenn hefðu „færst nær Washington“.
„Fundurinn misheppnaðist að því leyti að þeir tóku ekki af skarið, þeir komust ekki að samkomulagi,“ segir Björn. „Að lokum var það Ronald Reagan, sem sagði að það yrði enginn samningur ef Sovétmenn samþykktu ekki geimvarnaáætlunina. Hún hefur ekki verið samþykkt ennþá þannig að hún er enn deiluefni. En ég man þetta vel. Við gáfum blað út á mánudegi – þá kom blaðið ekki út á mánudögum. Við vorum jákvæðari en til dæmis Margaret Thatcher, forsætisráðherra Bretlands, sem var mjög reið út í leiðtogafundinn. Þetta var stór atburður og það er tilhneiging hjá blaðamönnum að draga úr stórum atburðum og finna á þeim neikvæðar hliðar. En fundurinn var haldinn hér á landi og við vildum ekki að litið yrði á hann sem algjör mistök í heimssögunni – sem hann var auðvitað ekki. Hann breytti andrúmsloftinu þótt hann skipti ekki sköpum. Ég held að Rússar hafi þar séð að Reagan yrði ekki haggað og áttað sig á að þeir gætu aldrei keppt hernaðarlega við Bandaríkjamenn. Þetta flýtti fyrir hruni Sovétríkjanna. Morgunblaðið var virkur þátttakandi í umræðunni um hvernig bæri að meta Gorbatsjov, þróun spennunnar á Norður-Atlantshafi, og um þetta voru miklar deilur hér á landi, en þær heyra sögunni til og nú vita menn varla um hvað menn deildu á þessum árum.“
Á fund Sakarovs
Árið eftir, 1987, fór Björn með Steingrími Hermannssyni, þáverandi forsætisráðherra, til Moskvu. Þriðjudaginn 3. mars skrifar Björn alla forsíðu Morgunblaðsins. Efst er frétt um viðræður Steingríms og Gorbatsjovs, en fréttin neðst á síðunni fær þó mun meira pláss. Þar segir frá heimsókn Björns til hjónanna Andreis Sakharovs og Jelenu Bonner.„Heimsóknin til Sakharovs og þetta viðtal var ævintýralegt,“ segir Björn. „Eina ástæðan fyrir því að mér tókst að heimsækja þau var að Morgunblaðið veitti erlendum blaðamönnum gífurlega mikla þjónustu þegar leiðtogafundurinn var haldinn. Meðal annars var ég í miklu sambandi við Reuters -fréttastofuna og blaðamenn, sem komu hingað. Þegar ég fór til Moskvu notaði ég þau sambönd til þess að fá fréttaritara Reuters þar til að hafa samband við Sakharov. Það hefði aldrei tekist ef Morgunblaðið hefði ekki opnað sérstaka skrifstofu fyrir erlenda blaðamenn vegna leiðtogafundarins. Við fórum til Sakharov-hjónanna í íbúð þeirra í Moskvu og sátum hjá þeim að kvöldlagi. Sömuleiðis var eftirminnilegt að koma í Kreml áður en Steingrímur kom til að hitta Gorbatsjov. Gorbatsjov var einn í skrifstofu sinni og við biðum með honum.“
Krefst mikils áhuga á samtímanum
Björn segir að það hafi ekki aðeins orðið þróun í tæknimálum þann tíma sem hann var á Morgunblaðinu, einnig hafi orðið breytingar í blaðamennsku.„Ég hafði tvískipt hlutverk á Morgunblaðinu, skrifaði um pólitík, leiðara, Staksteina og eitthvað af Reykjavíkurbréfum og var svo með daglega umsjón erlendu fréttanna,“ segir hann. „Þar komum við á reglulegum fundum til að fara yfir vinnulag og kölluðum gæðafundi. Blaðamennskan var alltaf að þróast. Menn komu betur menntaðir inn í starfið og viðhorfin breyttust. Ég held að gamlir blaðamenn hafi ekki talið að menn yrðu að mennta sig sem fjölmiðlafræðingar til að geta starfað sem blaðamenn. Blaðamennskan er líka þannig að hún er sumum í blóð borin eins og maður kynntist á Morgunblaðinu. Aðrir tileinkuðu sér hana í starfi. Allir sem starfa í blaðamennsku þurfa hins vegar að hafa mikinn áhuga á samtímanum, lifa og hrærast í honum, átta sig á aukaatriðum og aðalatriðum og hvernig eigi að miðla því til fólks. Almennt var samvinnan mjög góð og samhentur hópur sem vann þarna að erlendu fréttunum. Ég kynntist aldrei innlendri fréttamennsku, þótt skrítið sé að segja það. Ég tók einhver viðtöl, en var aldrei í innlendri fréttamennsku, þótt stjórnmálaskrifin séu stundum á gráu svæði milli þess að vera fréttaöflun eða annars konar blaðamennska.“
Björn rifjar upp að löng hefð sé fyrir því að leggja áherslu á erlendar fréttir í íslenskum fjölmiðlum.
„Þetta sést þegar gömul blöð, sem gefin voru út hér á landi, eru skoðuð,“ segir hann. „Skírnir byrjaði til dæmis alltaf á erlendum fréttum. Íslendingar hafa alla tíð lagt mjög mikla áherslu á erlendar fréttir. Blaðamenn og þeir sem hafa fjallað um málefni líðandi stundar á Íslandi hafa alltaf gert erlendum málefnum hátt undir höfði, hafa aldrei verið það heimóttarlegir að þeir hafi ekki áttað sig á mikilvægi erlendra strauma. Ég harma að erlent efni er á undanhaldi í íslenskum fjölmiðlum, það er mikilvægur liður í að skipa þjóðinni sess í samfélagi þjóðanna að flytja erlendar fréttir sem lúta að þessu verkefni.“
Björn hefur á undanförnum árum skrifað fréttir af erlendum vettvangi fyrir Evrópuvaktina ásamt Styrmi Gunnarssyni.
„Þar miðlum við fréttum og getum séð á yfirliti yfir lesturinn hvað vekur áhuga lesenda, nú er allt mælanlegt“ segir hann. „Það eru ekki endilega „stærstu“ fréttirnar á mælikvarða heimsblaðanna eða stóru fréttastofanna, heldur það sem tengir Ísland við umheiminn. Ég tel að þrengja beri fréttahringinn í pláss- eða tímaleysi, byrja á nágrenni Íslands og fikra sig út. Mér finnst til dæmis skrýtið að ekki hafi verið gert meira úr siglingu danska skipsins Nordic Orion norðvesturleiðina, milli Kyrrahafs og Atlantshafs fyrir norðan Kanada. Ég man að mikið var fjallað um það hér þegar bandaríska skipið Manhattan prófaði að sigla norðvesturleiðina 1969. Nú segir varla nokkur fréttir af ferð skips með kol á þessari leið, þótt staðan sé sú að opnist norðvesturleiðin og skip fari að sigla frá Kyrrahafi, fyrir Grænland og yfir til Evrópu komi til sögunnar ný siglingaleið í nágrenni Íslands. Landafræðin er hin sama, en heimurinn er að breytast og ný tækifæri að skapast. Á þetta að endurspeglast í fréttum íslenskra fjölmiðla, eða ber að beina athygli að upplausn í arabaheiminum? Þetta þurfa blaðamenn að gera upp við sig og valið er brýnna þegar plássið er lítið.“