Eftir Láru V. Júlíusdóttur og Þorstein Haraldsson: "Nú fer byggingunni senn að ljúka, en húsið sem við blasir er því miður ekki það hús sem sýnt var á samþykktum teikningum."

Góðan daginn. Við sendum þér kveðju frá Baldursgötureit. Á Baldursgötu 32 og 34 er verið að ljúka við húsbyggingu sem lengi var í undirbúningi. Hér stóðu áður tvö hús og var annað þeirra brunnið og ónýtt. Lóðareigandinn vildi byggja eitt hús á báðum lóðum og hafa það stórt og hátt. Deiliskipulagstillögur fyrir allt hverfið voru lagðar fram, en þær byggðu á hugmyndum þáverandi eiganda þessarar lóðar fremur en annarra sem hagsmuni eiga. Þetta var fyrir hrun.

Fjölmargir íbúar og húseigendur við þrjár eða fjórar götur mótmæltu fyrirhuguðu deiliskipulagi. Fundir voru haldnir og bréf skrifuð. Skipulagsyfirvöld fóru bil ólíkra sjónarmiða og úr varð deiliskipulag sem samþykkt var í desember 2008.

Fjármálakerfið var hrunið og tími leið þar til að því kom að lagðar voru fram teikningar að húsi á lóðunum. Sitt sýndist hverjum um teikningarnar, en hvað sem því líður voru þær í samræmi við deiliskipulagið frá 2008. Hæðir veggja voru innan marka og mænir nýja hússins kyssti mæni gamals húss á horni Baldursgötu og Freyjugötu.

Nú fer byggingunni senn að ljúka, en húsið sem við blasir er því miður ekki það hús sem sýnt var á samþykktum teikningum. Á húsinu er veggur heilum metra hærri en teikningin sýnir. Mænar kyssast ekki eins og lofað var því mænir nýja hússins er meira en hálfum metra hærri en hinn. Allt spillir þetta eignum og yndi nágranna. Nýja húsið er hærra en það sem teiknað var og rúmast ekki innan gildandi deiliskipulags.

Eins og lög gera ráð fyrir gefst tækifæri til að spyrja um fyrirhugaðar breytingar og skipulagsyfirvöldin voru spurð: Hvers vegna voru þær byggingar sem nú standa yfir ekki hannaðar og samþykktar í samræmi við gildandi deiliskipulag? Svar skipulagsyfirvaldanna er þetta: ... gaflinn á húsi nágrannans var ekki mældur upp áður en nýja húsið var teiknað.

Hver er svo ábyrgð húsbyggjandans, arkitektsins og byggingastjórans sem flaggar sérstöku starfsleyfi? Þessir aðilar virðast enga ábyrgð bera á skemmdarverkum sínum. Borgarstjórnin finnur þó ráð og tekur fúslega á sig alla ábyrgð þessa fólks á kostnað annarra.

Byggingafulltrúinn í Reykjavík hefur sem sé gefið húsbyggjandanum leyfi til þess að halda byggingaframkvæmdum áfram og leyfi til þess að láta vinna nýjar deiliskipulagstillögur til samræmis við húsið – eins og það stefnir í að verða.

Úrræði borgarstjórnarinnar felst í því að breyta deiliskipulaginu afturvirkt þannig að nýja húsið rúmist innan þess. Sjónarmið íbúanna eru að engu höfð. Hvaða ráð höfum við? Okkar eina úrræði er að kjósa ekki núverandi borgarstjóra í næstu kosningum.

Höfundar eru húseigendur Freyjugötu 17a.

Höf.: Láru V. Júlíusdóttur, Þorstein Haraldsson