Sigurður Ingólfsson fæddist á Landspítalanum í Reykjavík 31. október 1947. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi 25. október 2013.
Foreldrar hans voru Ingólfur E. Guðjónsson, f. 28.6. 1920, d. 22.10. 2012, og Ingibjörg Halldórsdóttir, f. 8.12. 1926, d. 30.10. 2011. Systkini Sigurðar eru Ólafur, f. 22.6. 1941, maki Svanhildur Guðmundsdóttir, Lára Valgerður, f. 13.6. 1946, maki Jón Leifur Óskarsson, stúlka, f. 17.4. 1953, d. 17.4. 1953, drengur, f. 17.4. 1953, d. 18.4. 1953, Halldór Kristján, f. 31.10. 1954, maki Hrönn Jónsdóttir, Guðjón, f. 24.2. 1956, maki Harpa Snorradóttir, Þórhildur Hrönn, f. 19.8. 1960, maki Guðmundur J. Jónsson.
Árið 1978 kynntist Sigurður eftirlifandi eiginkonu sinni, Ingunni Hinsriksdóttur, f. 12.9. 1944, og ári síðar hófu þau sambúð á Eyrarbakka. Ingunn fæddist á Eyrarbakka og er elst fimm barna hjónanna Halldórs Jónssonar, f. 30.9. 1927, d. 16.7. 2005, og Valgerðar Pálsdóttur, f. 5.5. 1926, d. 26.10. 2006. Systkini Ingunnar eru Jón, f. 14.6. 1950, Stefán Anton, f. 14.6. 1950, d. 27.5. 2011, Páll, f. 22.10. 1953, og Anna Oddný, f. 19.7. 1955. Börn Sigurðar og Ingunnar eru: 1) Sigríður Guðlaug Björnsdóttir, f. 25.7. 1966, maki Jón Birgir Kristjánsson. Börn þeirra eru a) Inga Berglind, maki Guðmundur G. Guðnason, dætur þeirra eru Íris Lilja og Eva Sóley, b) Andri Björn og c) Ása Kristín. 2) Halldór Björnsson, f. 21.4. 1972, maki Hafdís Edda Sigfúsdóttir. Dætur þeirra eru a) Ísabella Sara og b) Thelma Sif. 3) Sævar Sigurðsson, f. 5.2. 1982.
Sigurður ólst upp á Eyri við Ingólfsfjörð og gekk í Barnaskólann á Finnbogastöðum. Árið 1970 flutti fjölskyldan suður. Hann bar alltaf miklar tilfinningar til æskuslóðanna á Ströndunum og sveitunga sinna. Siggi hóf sjómennsku á unglingsárum og var það hans starf allt til ársins 1989 en þá hóf hann eigin atvinnurekstur með vinnuvélar, vörubifreið og sandsölu. Meðal áhugamála hans var að ferðast um landið og þá sérstaklega afskekkta staði og ekki skemmdi fyrir ef hægt var að koma við á bryggjunum. Segja má að hann hafi þekkt Ísland vel bæði frá sjó og landi.
Útför Sigurðar fer fram í Eyrarbakkakirkju í dag, 2. nóvember 2013, og hefst athöfnin kl. 14.
Kveðja frá eiginkonu.
Svo viðkvæmt er lífið sem vordagsins
blóm
er verður að hlíta þeim lögum
að beygja sig undir þann allsherjardóm
sem ævina telur í dögum.
Við áttum hér saman svo indæla stund
sem aldrei mér hverfur úr minni.
Og nú ertu genginn á guðanna fund,
það geislar af minningu þinni.
(Friðrik Steingrímsson.)
Hjartans þakkir fyrir allt og allt, elsku Siggi minn. Minning þín er ljós í lífi mínu – Guð geymi þig.
Þín
Ingunn.
Þín
Sigríður Guðlaug
Björnsdóttir (Sigga).
Það er nú orðið svolítið síðan ég fór að sakna þín, minn kæri, en veikindi þín gerðu það að verkum að þú komst alltaf sjaldnar og sjaldnar til okkar, en áður komst þú svo oft við – þú þurftir bara aðeins að sjá okkur, hvort það væri ekki allt í lagi hjá okkur. Stoppin voru mislöng og stundum vissi ég ekki fyrr en þú varst farinn. Stelpurnar áttu huga þinn allan og þú komst gjarnan færandi hendi. Ég á ljúfar minningar um það þegar þú sóttir stelpurnar í leikskólann á vörubílnum, og það mátti ekki milli sjá hvort var ánægðara. Þú varst yndislegur afi. Og núna ertu bara farinn, farinn fyrir fullt og allt. Sorgin hvolfist yfir okkur á þessum ótímabæru tímamótum og eftir sitja minningarnar.
Ég get ekki minnst þín hér án þess að tala um veikindi þín. Það snerti sannarlega streng í hjarta mínu að fylgjast með hetjulegri baráttu þinni við illvígan sjúkdóm. Æðruleysið, dugnaðurinn og einlægt baráttuþrek var aðdáunarvert.
Þú nenntir sko ekki að velta þér upp úr þessu helvíti eins og þú orðaðir það sjálfur, þegar maður spurði þig um líðan. Og það var alltaf stutt í húmorinn.
Þú fórst þína leið eins og alltaf. Hrjúfur á yfirborðinu, fastur á þínu en hið mesta ljúfmenni innst inni. Hugurinn var svo endalaust stór og þegar ég lít til baka skil ég ekki hvernig þú fórst að því að klára ýmis mál þegar líkaminn hlýddi þér ekki.
Þú varst umvafinn Ingu þinni og það snerti hjarta mitt að upplifa samband ykkar fara inn í nýjar víddir í veikindunum, samhugurinn, traustið, aðdáunin, vináttan, þakklætið og ástin, allt þetta skynjaði maður svo sterkt ykkar á milli.
Þú varst líka umvafinn fjölskyldunni og stórum hóp af góðum vinum.
Þú komst við hjartað í okkur öllum á einn eða annan hátt og þar geymum við minningarnar. Hafðu bestu þakkir fyrir samfylgdina, minn kæri.
Minningin lifir. Guð geymi þig.
Edda.
Í síðasta skiptið sem ég hitti þig á lífi söng ég Rósina fyrir þig og þá opnaðir þú fallegu augun þín fyrir mig. Því læt ég lagið fylgja með.
Undir háu hamrabelti
höfði drúpir lítil rós.
Þráir lífsins vængja víddir
vorsins yl og sólarljós.
Ég held ég skynji hug þinn allan
hjartasláttinn rósin mín.
Er kristallstærir daggardropar
drúpa milt á blöðin þín.
Æsku minnar leiðir lágu
lengi vel um þennan stað,
krjúpa niður kyssa blómið
hversu dýrðlegt fannst mér það.
Finna hjá þér ást og unað
yndislega rósin mín.
Eitt er það sem aldrei gleymist,
aldrei, það er minning þín.
(Guðmundur G. Halldórsson.),#
Kossar og knús.
Þín afastelpa
Inga Berglind.
Guð faðir, sálu mína,
því nú er komin nótt.
Um ljósið lát mig dreyma
og ljúfa engla geyma
öll börnin þín, svo blundi rótt.
(Matthías Jochumsson)
Þessi bæn Matthíasar Jochumssonar hljómaði í höfðinu á mér við banabeð Sigurðar Ingólfssonar mágs míns 25. október sl.
Siggi hafði barist við sjúkdóminn sem dró hann til dauða í þrjú ár, hann ætlaði ekki að gefast upp fyrr en í fulla hnefana. Studdur af konunni sinni elskulegri fór hann í mikla lyfjameðferð í von um betra og lengra líf, en því miður varð hann að lúta í lægra haldi og lést fyrir aldur fram.
Siggi ólst upp á Eyri við Ingólfsfjörð hjá foreldrum sínum og systkinum, hann var næst elstur barna þeirra Ingibjargar og Ingólfs á Eyri. Hann var alltaf með hugann við heimaslóðir sínar alveg fram á síðustu daga. Tveim dögum fyrir andlát sitt var hann að tala um Guðjón afa sinn, hann hafi alltaf verið að hugsa um kýrnar og kindurnar. „Aldrei hafði ég neinn áhuga fyrir búskap,“ sagði hann skýrum rómi.
Sjómannsblóð rann í æðum Sigga, hann hafði skip og báta að áhugamáli og vélar og tæki voru líka ofarlega á blaði hjá honum.
Sextán ára gamall fór Siggi á „vertíð“ í Hnífsdal hjá Jóakim Pálssyni, hann sagði að Jóakim og hans fólk hefðu tekið sér eins og þau ættu í honum hvert bein. Nanna dóttir Jóakims og Siggi urðu miklir vinir, aldrei bar skugga á þá vináttu.
Siggi lenti í miklu slysi um borð í togaranum Guðsteini árið 1975, togvír slóst í andlitið á honum og brotnuðu andlitsbein. Sigurður bar sig vel á spítalanum og bað hjúkkurnar um spegil svo hann gæti séð skemmdirnar, þær voru tregar til og héldu að hann yrði miður sín að sjá sig í speglinum, en hann geiflaði sig og gerði að gamni sínu yfir útlitinu á sjálfum sér.
Útgerðin sem Siggi var lengst hjá er útgerð Aðalbjargar RE-5 og vináttu þeirra Aðalbjargarmanna eignaðist hann til æviloka.
Mesta gæfa í lífi Sigurðar var þegar hann kynntist ástinni í lífi sínu henni Ingu, hún tók við honum og gaf honum ást og virðingu, stóð með honum í blíðu og stríðu, hjúkraði honum heima helsjúkum og vék ekki frá honum þessa 10 daga sem hann var á sjúkrahúsinu, nema rétt yfir blánóttina.
Mér er yfirleitt ekki grátgjarnt, en þegar ég hugsa um það að ég heyrði þau játa hvort öðru ást sína á síðustu stundum lífs hans, þá vilja tárin brjótast fram, það var svo fallegt og innilegt. Börnin þeirra þrjú; Sigga, Dóri og Sævar aðstoðuðu á allan hátt við umönnunina og mikil og einlæg umhyggja þeirra var og er yndisleg.
Elsku Inga mín, Sævar, Dóri, Sigga, tengdabörn og afabörn, þið voruð gæfan hans.
Ég kveð mág minn með söknuði og votta ástvinum hans innilega samúð mína.
Megi hann hvíla í friði.
Svanhildur Guðmundsdóttir.
Siggi var maður hreinskiptinn og lá ekkert á skoðunum sínum en alltaf var samt stutt í kímnina og hláturinn góða sem var svo smitandi. Það var alltaf gaman að heyra í Sigga og einhvern veginn vissum við hjónin alltaf að hann var okkar ævarandi góði vinur.
Við kynntumst Sigga fyrst þegar hann réð sig sem kokk hjá útgerð okkar á Aðalbjörgu RE-5, þeirri gömlu sem fór á Árbæjarsafnið. Mikið var nú oft fjörið í lúkarnum þegar Rúna kom niður á bryggju að taka á móti bátnum. Alltaf var til heitt á könnunni og boðið niður í lúkar í kaffi og spjall. Ingu sinni kynntist hann á meðan hann var hjá okkur á gömlu Aðalbjörginni. Okkur er svo minnisstætt þegar hann kynnti hana fyrir áhöfninni í lokahófi á Hótel Sögu, þarna birtist hann með þessa fallegu skvísu sér við hlið, sem eins og hann var ákaflega glaðleg og hláturmild.
Siggi var í mörg ár hjá útgerð Aðalbjargar RE-5 og þar var hann vinamargur og hélst sú vinátta alla tíð. Þegar Siggi hætti til sjós keypti hann sér vörubíl og síðar gröfu og var með sandnámuna á Eyrarbakkafjöru og var það hans kappsmál að þjóna því vel fram á síðasta dag. Ein er sú minning sem ekki gleymist og það er ferðalag sem við fórum austur á Kirkjubæjarklaustur ásamt fjölskyldu okkar og Sigga og Ingu. Við hjónin höfðum nýlega selt tjaldvagninn okkar og keypt í snatri appelsínugult Seglagerðartjald fyrir þessa ferð. Við tjölduðum öll á túninu við Jónshús á Klaustri en þar áttum við góða kunningja.
Á hverjum morgni þegar við vöknuðum þá var Siggi búinn að hita kaffi á prímus úti á túni og beið með það rjúkandi og gott, þegar við skriðum út og ekki nóg með það heldur hafði hann líka hugsað svo vel um vini sína, að hann var alltaf búinn að renna aðeins niður rennilásnum á tjaldinu, til að við myndum nú ekki vakna í hitasvækju. Þetta vinarbragð stendur einhvern veginn ljóslifandi fyrir hugskotssjónum núna þegar Siggi okkar er farinn.
Hann barðist hetjulega ásamt konu sinni við ömurlega sjúkdóminn sem svo margir hafa kynnst beint eða óbeint, glettnin var þar oft við völd svona eins og smyrsl sem er sett á sára kvöl og hún mildaði oft og alltaf fékk hann okkur til að hlæja að einhverju alveg fram á síðustu stundu.
Siggi er í okkar huga hinn sterki rammíslenski karlmaður sem ólst upp við mikla vinnu í fallegu náttúrunni á Ströndum þar sem hann átti sína trillu og naut þess vel. Hann lóðsaði okkur hjónin þegar við fórum fyrir mörgum árum í gönguferð frá Ófeigsfirði í Reykjafjörð nyrðri, fengum við þá miklar og góðar upplýsingar hjá honum.
Elsku Inga okkar og fjölskylda, okkar innilegustu samúðarkveðjur, við kveðjum góðan og hreinskiptinn dreng sem mun lifa áfram í hjörtum okkar.
Vinarkveðjur,
Kristrún Árný
Sigurðardóttir,
Stefán Ragnar Einarsson.
Sigga voru ofarlega í huga æskustöðvarnar sínar, Eyri við Ingólfsfjörð og frásagnir hans frá þeim stað bæði fræðandi og skemmtilegar, um lífið sem fjölskyldan hans lifði í baráttu við náttúruna. Sagði stundum að hann hefði verið alinn upp fyrir „norðan hníf og gaffal“. Að einhverju leyti bar hann þess merki. Krafturinn sem í honum var kom augljóslega fram í baráttu hans við veikindin. Harka hans við sjálfan sig alveg ótrúleg, svo við sem til sáum undruðumst hvílíkan vilja hann hafði. En nú er hann fallinn frá og þorpið sem hann eyddi stórum hluta ævi sinnar í hefur misst litríkan einstakling úr flóru sinni.
Páll Halldórsson og
Ingibjörg Eiríksdóttir.
Elsku Siggi afi minn, lífið verður tómlegt án þín, takk fyrir allt.
Vertu yfir og allt um kring
með eilífri blessun þinni,
sitji Guðs englar saman í hring
sænginni yfir minni.
(Sig. Jónsson frá Presthólum.)
Guð geymi þig, afi minn,
Þín
Ása Kristín Jónsdóttir.
Afi minn fór á honum Rauð
eitthvað suður á bæi
að sækja bæði sykur og brauð
sitt af hvoru tæi.
Afi minn og amma mín
úti á Bakka búa.
Þau eru bæði sæt og fín.
Þangað vil ég fljúga.
(Höf. ókunnur)
Þínar langafa stelpur,
Íris Lilja og Eva Sóley.
Elsku afi.
Takk fyrir allt.
Við skulum róa sjóinn á
og sækja okkur ýsu.
En ef hann krummi kemur þá
og kallar á hana Dísu?
(Þjóðvísa, höf. ók.)
Þínar
Ísabella Sara
og Thelma Sif.