Styrkur Morgunblaðsins felst ekki síst í því að við getum boðið upp auglýsingar innan um vandað efni. Við erum að framleiða áhugavert efni sem fólk borgar fyrir að lesa og ver meiri tíma í en það lesefni sem það fær óbeðið inn um lúguna.“
Þetta segir Magnús E. Kristjánsson, framkvæmdastjóri markaðs- og sölumála, þegar hann er spurður um stöðu Morgunblaðsins á auglýsingamarkaði á 100 ára afmælinu. Hann kveðst vera bærilega sáttur við hlut blaðsins í veltunni á markaðnum miðað við þá stöðu sem nú er í fjölmiðlaheiminum, en segir stefnt að því að auka hann enn frekar.
Tveir ólíkir miðlar
„Við erum að gefa út dagblað með aldarsögu og ríkar hefðir,“ segir Magnús. „En svo höldum við líka úti öðruvísi miðli, mbl.is, sem er öflugasti og vinsælasti netmiðill landsins með fréttum, afþreyingu, margvíslegum upplýsingum og þjónustuauglýsingum. Fasteignavefurinn er til dæmis mikið skoðaður. Við erum með öflugasta fasteignavefinn.“Magnús rifjar upp að á netinu hér heima eru Morgunblaðsmenn frumkvöðlar að fréttaflutningi. Þetta var ekki auðvelt á sínum tíma. Var mikið brautryðjandastarf með ærnum tilkostnaði. Það tók langan tíma að byggja þennan vef upp og festa hann í sessi, en nú er hann mest sótti netmiðill landsins og besti vettvangur íslenskra auglýsenda á netinu. „Æ fleiri auglýsendur eru að sjá þá kosti sem auglýsingar á netinu bjóða upp,“ bætir hann við.
Tölur frá óháðum aðila um notkun mbl.is og annarra vefja staðfesta orð Magnúsar. Yfirburðirnir eru miklir og ekki furða að vefurinn sé eftirsóttur auglýsingavettvangur. Heimsækja um 190 þúsundir notendur á aldrinum 12 til 80 ára mbl.is í hverri viku. Allir Íslendingar á þessum aldri eru 239 þúsund.
Miklar breytingar
Gífurlegar breytingar hafa orðið í íslenskum fjölmiðlaheimi á örfáum árum. „Hvað auglýsingar varðar snúa þessar breytingar ekki bara að Morgunblaðinu, heldur öllum miðlum og alveg sérstaklega áskriftarmiðlum. Hjá Árvakri höfum við þurft að aðlaga okkur þessum nýja heimi sem er kröfuharður og sífellt að breytast. Auglýsendur standa hvergi í biðröðum hjá fjölmiðlum, við þurfum öll að hafa fyrir því að fá auglýsingar og rökstyðja hvernig og hvers vegna okkar miðill hentar. Við kvörtum ekki. Þetta er krefjandi starf, en mjög ánægjulegt,“ segir Magnús.
Kaupgetan ræður úrslitum
„Það hefur verið stöðug aukning í auglýsingaviðskiptum Morgunblaðsins og mbl.is undanfarin ár,“ segir Magnús. En framboð á auglýsingum er háð efnahagsástandi í landinu hverju sinni. „Kaupgeta fólks skiptir auðvitað öllu máli,“ segir Magnús. „Um leið og fólk getur keypt vörur eykst þörf verslana og framleiðenda til að auglýsa. Þetta hangir saman.“Magnús kveðst bærilega sáttur við stöðu Morgunblaðsins á auglýsingamarkaði eins og hún er núna. „En við viljum að sjálfsögðu stækka okkar hlutdeild enn frekar,“ segir hann. Hann segir menn vongóða um að senn fari að birta til í efnahagslífinu.
Öflugur hópur
Magnúsi er ofarlega í huga hve öflugur hópur vinnur á auglýsingadeild Morgunblaðsins og mbl.is. „Þetta er hæfileikaríkt fólk með mikla þekkingu og reynslu af markaðnum. Hvaða fyrirtæki sem er væri öfundsvert af þessum hópi,“ segir hann. „Okkar aðalmarkmið er að veita viðskiptavinunum framúrskarandi þjónustu.“
Gera kannanir
Á vegum Árvakurs eru reglulega gerðar kannanir um notkun Morgunblaðsins. „Niðurstaðan er alveg ótvíræð,“ segir Magnús. „Fólk les áskriftarblöð betur og lengur og það hefur áhrif á hvernig það upplifir auglýsingar og bregst við þeim. Kannanirnar sýna að lesendur verja að jafnaði 169 mínútum á viku í lestur Morgunblaðsins, en 112 mínútum í lestur Fréttablaðsins.