Í Njarðvík
Skúli B. Sigurðsson
sport@mbl.is
Njarðvíkingar og KR mættust í 32ja liða úrslitum bikarkeppni karla í körfuknattleik í gærkvöld í Ljónagryfjunni suður með sjó. Eftir mikinn dans á lokamínútum leiksins voru það Njarðvíkingar sem fögnuðu sigri, 91:87, eftir að gestirnir úr Vesturbænum höfðu verið 13 stigum yfir í hálfleik. Njarðvíkingar fögnuðu ákaft eftir leik og ekki nema von því á síðastliðnum árum hafa þeir nánast undantekningarlaust þurft að lúta í gras í spennuleikjum á lokasekúndunum.
Um miðbik fjórða leikhluta var leikurinn í járnum og liðin skiptust á að hafa eins til tveggja stiga forystu. Vendipunktur leiksins má segja að hafi verið þegar rúm mínúta var til loka leiks og KR var þremur stigum yfir. Þá setti Elvar Már Friðriksson Njarðvíkingur niður þrist og á honum var brotið í leiðinni. Elvar setti niður vítið og allt í einu voru það heimamenn sem voru stigi yfir. Ef undirritaður á að vera hreinskilinn þá var brotið afar lítið, ef þá nokkuð, en dómari leiksins var harður á sínu.
Hinsvegar fékk KR fín tækifæri eftir þetta að komast aftur yfir en Pavel Ermolinskij fór illa að ráði sínu á vítalínunni og eftirleikur Njarðvíkinga þar eftir var nokkuð öruggur.
KR liðið er feiknasterkt og ekki má gleyma að þeir eiga inni erlent vinnuafl þar sem þeir spiluðu Kanalausir þetta kvöldið.
„Við gáfum þennan leik bara frá okkur. Þeir keyrðu upp hraðann í seinni hálfleik og Logi fór að setja niður erfið skot.“ sagði Brynjar Þór Björnsson, leikmaður KR, við Morgunblaðið.
Njarðvíkingar virðast oft á tíðum frekar ráðlausir í sóknaraðgerðum sínum og á tímum hugmyndasnauðir líkt og í fyrri hálfleik. En gríðarlegur karakter er í liðinu og hann sýndi sig í því að því tókst loksins að vinna spennuleik.
Það er alltaf hálfgrátlegt þegar svo stór lið mætast snemma í bikarnum en það er nú einu sinni þannig að ef þú ætlar þér bikarinn þá þarftu að fara í gegnum í það minnsta einn stóran leik. „Við vorum slakir í fyrri hálfleik en gerðum vel í þeim seinni og uppskárum eftir því.“ sagði Elvar Már Friðriksson, leikmaður Njarðvíkinga.
Njarðvík – KR 91:87
Njarðvík, bikarkeppni karla, 32ja liða úrslit, föstudag 1. nóvember 2013.Gangur leiksins : 7:12, 14:15, 20:20, 23:28, 25:32, 29:36, 33:46, 39:52, 51:57, 61:60, 66:67, 70:71 , 78:78, 82:81, 82:85, 91:87.
Njarðvík : Nigel Moore 26/14 fráköst, Logi Gunnarsson 26/3 varin skot, Elvar Már Friðriksson 22/4 fráköst/10 stoðsendingar, Halldór Örn Halldórsson 6/5 fráköst, Ágúst Orrason 5/7 fráköst, Friðrik E. Stefánsson 4, Óli Ragnar Alexandersson 2.
Fráköst : 27 í vörn, 10 í sókn.
KR : Darri Hilmarsson 24/5 fráköst, Helgi Már Magnússon 21, Martin Hermannsson 15, Pavel Ermolinskij 9/11 fráköst/13 stoðsendingar, Jón Orri Kristjánsson 7/4 fráköst, Ingvaldur Magni Hafsteinsson 6/6 fráköst, Brynjar Þór Björnsson 5.
Fráköst : 21 í vörn, 11 í sókn.
Dómarar : Björgvin Rúnarsson, Davíð Kristján Hreiðarsson.