Morgunblaðið er öfundsvert af því að hafa slíkan blaðamann,“ sagði verkalýðsforinginn Guðmundur J. Guðmundsson einhverju sinni á áttunda áratugnum, þegar fréttaskrif Magnúsar Finnssonar blaðamanns um kjarasamninga og verkfallsmál bárust í tal. Magnús annaðist þau mál fyrir Morgunblaðið um langt árabil og aflaði sér í þeim störfum trausts og trúnaðar meðal forystumanna í verkalýðshreyfingunni sem jafnvel blaðamenn verkalýðsblaðanna svokölluðu nutu ekki. Þó kom fyrir að verkalýðsforingjar voru ósáttir við skrif hans, en það var ekki vegna þess að þau væru röng eða ónákvæm heldur vegna þess að hann sagði fréttir sem ekki hentaði þeim alltaf að birtust.
„Framvegis talar enginn við Magnús Finnsson nema ég,“ var fyrirskipun sem Björn Jónsson, þá forseti Alþýðusambandsins, gaf eitt sinn á fundi samninganefndar verkalýðsfélaganna um kaup og kjör. Honum fannst óþolandi hve Morgunblaðið hafði alltaf nákvæmar fréttir af gangi viðræðnanna.. „En menn hlýddu þessu ekki, þeir treystu því að ég skrifaði af varfærni um málin og ég fékk áfram mínar upplýsingar,“ segir Magnús.
Stöðvaði Morgunblaðið
Magnús var formaður Blaðamannafélagsins í eitt ár, 1978. „Þú ert einn af okkur,“ sögðu verkalýðsforingjarnir þá við hann. Og einmitt þetta ár kom upp hörð kjaradeila við útgefendur. Magnús sýndi þá að hann hafði bein í nefinu og uppskar fyrir vikið aukna tiltrú ráðandi manna í verkalýðshreyfingunni. Þegar blaðaútgefendur með stjórnendur Árvakurs í broddi fylkingar gáfu sig ekki boðaði Blaðamannafélagið verkfall og það skall á og stóð í heila viku. „Ég er eini maðurinn á blaðinu sem stöðvað hef blaðið,“ segir Magnús glettnislega þegar hann rifjar upp þennan tíma. Uppskeran var 32% launahækkun blaðamanna. Þætti gott í dag!
Ráðinn af framkvæmdastjóra
Magnús var ráðinn með nokkuð óvenjulegum hætti til starfa á blaðinu í upphafi, af framkvæmdastjóra blaðsins en ekki ritstjóra. Meðfram menntaskólanámi hafði hann sinnt útkeyrslu fyrir blaðið og eftir stúdentspróf sumarið 1963 leitaði hann til fjölskylduvinar, Sigfúsar Jónssonar, framkvæmdastjóra útgáfufélagsins, Árvakurs, og spurðist fyrir um það hvort hann gæti fengið vinnu sem blaðamaður. Sigfús kannaði málið og sagði að ekkert starf væri laust, en Magnús mundi fá starf á ritstjórninni vorið eftir. Gekk það eftir. Var Magnús blaðamaður á Morgunblaðinu í meira en fjóra áratugi, frá 1964 og fram á sumar 2006, er hann fór á eftirlaun að eigin ósk. Hann er nú 73 ára gamall. Lengst af var Magnús fréttastjóri innlendra frétta, en síðustu árin var hann fulltrúi ritstjóra og hafði umsjón með aðsendum greinum til blaðsins.
Í landhelgisstríðunum
Á áttunda áratugnum eftir útfærslu fiskveiðilögsögunnar í 50 og 200 mílur var landhelgismálið eitt helsta fréttaefnið. Var umfjöllun um það á könnu Magnúsar og leiddi hann í mörg ævintýri. Hann var til dæmis ásamt breskum sjónvarpsmönnum um borð í varðskipinu Þór í ársbyrjun 1976 þegar freigátan Andromeda keyrði á skipið og laskaði það talsvert. Hlaust af því gífurlegt uppnám í samskiptum Breta og Íslendinga. Bretar neituðu sök en þeirra eigin sjónvarpsmenn gátu staðfest með myndum að þarna hafði viljandi verið lagt til atlögu við langtum minna skip og mannslífum stefnt í voða. Magnús var vitni að atvikinu og kveðst hafa verið agndofa af undrun yfir offorsi og magnaðri ófyrirleitni yfirmanns freigátunnar þegar hann gerði aftur og aftur tilraunir til að sigla á Þór.
Klippum beitt
Annað atvik um borð í Þór, að þessu sinni í landhelgisdeilunni vorið 1973, er Magnúsi ekki síður ofarlega í huga. Þá fékk hann að sjá í fyrsta sinn frægt leynivopn Landhelgisgæslunnar, togvíraklippurnar sem beitt var á botnvörpur bresku togaranna þegar þeir neituðu að hlýða fyrirmælum og fara út úr landhelginni. Magnús hafði farið á miðin ásamt fleiri blaðamönnum með varðskipinu Óðni, en þegar komið var á Reykjanesröstina þar sem fjöldi breskra togara var að ólöglegum veiðum, bauð góðkunningi Magnúsar, Helgi Hallvarðsson skipherra á Þór, sem einnig var á staðnum, að Magnús skyldi sóttur og fluttur á gúmmíbáti milli varðskipanna.„Þegar um borð í Þór var komið sagði Helgi formálalaust við mig að ekki langt fyrir austan okkur væri siglutrjáaskógur breskra togara og nú fengi ég að sjá hvernig klippt væri aftan úr togara,“ segir Magnús.
Klippt á togvíra
Helgi stóð við það. Fann breskan togara sem ekki hafði fylgt fyrirskipun um að hífa upp veiðarfæri sín og klippti þau miskunnarlaust af. Ætlast hafði verið til þess að farið væri varlega í slíkar aðgerðir því reynt var að semja um lausn landhelgisdeilunnar. Hraðskeyti barst nú til varðskipsins frá forstjóra Landhelgisgæslunnar í Reykjavík „Hvers vegna klipptirðu?“ Magnús varð vitni að umbúðalausu svari Helga skipherra: „Hann átti það skilið!“Bresku togaraskipstjórarnir sem hlýtt höfðu fyrirmælunum sáu hvað gerðist og tóku sig saman og streymdu að Þór, greinilega í þeim tilgangi að vinna skipinu tjón. „Við ofurefli var að etja en varðskipinu tókst hins vegar að forða sér á hraðri siglingu inn fyrir gömlu 12 mílna landhelgina og hættu þeir þá eftirförinni,“ segir Magnús.
Hleranir í Moskvu
Magnús er minnisstæð ferð á vegum Morgunblaðsins til Moskvu haustið 1977 þegar Geir Hallgrímsson forsætisráðherra var þar í opinberri heimsókn. Úr þeirri ferð komu margar fréttir sem athygli vöktu. Var meðal annars upplýst um hleranir sovésku leyniþjónustunnar í íslenska sendiráðinu í borginni.Magnús reyndi að ná viðtali við mannréttindafrömuðinn Andrei Sakharov, en tókst ekki að hafa uppi á honum. Sögðu Sovétmenn honum að slíkt viðtal yrði illa séð, gæti spillt árangri ferðar forsætisráðherra. „Þeir litu svo á að við blaðamennirnir værum á einhvern hátt hluti af hinni opinberri sendinefnd frá Íslandi og því væri hægt að tala svona við okkur. Það sýndu þeir líka með sérstöku örlæti við mig og Eið Guðnason, sem þarna var á vegum Sjónvarpsins, og leyfðu okkur aldrei að taka upp veskin, borguðu allar veitingar fyrir okkur og sögðu að ekki kæmi annað til greina.“