Að sjálfsögðu ætlar Víkverji að óska Morgunblaðsfólki til hamingju með daginn. En ekki hvað?

Að sjálfsögðu ætlar Víkverji að óska Morgunblaðsfólki til hamingju með daginn. En ekki hvað? Hundrað ára afmæli er ekki lítill árangur í dagblaðaútgáfu, einkum ef litið er til þessara umbrotatíma sem nú eru; rafræni miðillinn sópar til sín áhangendum og útgáfa prentaðs efnis minnkar sífellt. Það ber að fagna öllum nýjungum, vega kosti þeirra og galla og tileinka sér þær. „Við lifum á tíma breytinga“ er oft sagt í umræðunni. Það er vissulega rétt en þó að nýtt komi inn þá þýðir það ekki endilega að það þurfi að ryðja því gamla úr vegi. Já, Víkverji er að tala um rafræna útgáfu efnis og prentaða miðilinn. Alltof oft hefur samt verið í umræðunni að þessum tveimur atriðum er stillt hvoru gegn öðru. Það er ekki rétt því þetta eru tvær hliðar á sama teningi. Eins og Gög og Gokke eða Don Kíkóti og Sansjó Pansa. Rafrænn miðill, rafbókaútgáfa og hvaða nöfnum sem þetta kann að kallast er enn ein viðbótin við upplýsingamiðlunina. Það að fletta blaði, hafa eitthvað á milli handanna og lesa hefur heilandi áhrif. Þessari tilfinningu verður seint skákað og því telur Víkverji að blaðið og bókin eigi eftir að halda velli. Þó lítillega eigi eftir að draga úr vinsældum þeirra. En til hamingju allir með daginn. Það ná ekki allir 100 ára aldri. Í starfi Víkverja hefur hann orðið þeirrar gæfu aðnjótandi að taka viðtal við nokkra einstaklinga sem hafa náð þessum merka aldri. Honum hefur alltaf þótt það jafn gefandi að tala við þá. Þó að margt hafi fengið að fara á prent þá sleppti hann því í nokkur skipti að geta þess að sá 100 ára keyrði enn eins og herforingi.

En þá að öðru. Búningapartí eru alltaf frekar skemmtileg fyrirbæri. Víkverji ætlar að skemmta sér í góðra vina hópi um helgina þar sem þemað er 1920. Gamli tíminn var nefnilega svo ansi hreint áhugaverður með sína einstöku tísku: hatta, hanska, stutt hár og hárbönd og annað í þeim dúr. Innblástur dagsins í dag er ávallt sóttur til þess sem til var og sett fram á nýjan hátt.