Haustið 2010 átti sér stað hávær umræða um tilvist háskólanna í Borgarbyggð, sér í lagi varðandi Háskólann á Bifröst. Sveitarstjórn Borgarbyggðar lýsti strax yfir miklum áhyggjum af framkomnum hugmyndum um innlimun Háskólans á Bifröst í Háskólann í Reykjavík. Tillögurnar fólu í sér að háskólanám á Bifröst myndi leggjast af og það nám sem eftir stæði myndi veikjast verulega. Fjöldi starfa myndi flytjast frá Borgarfirði til Reykjavíkur og héraðið myndi missa einn af sínum mikilvægustu vinnustöðum.
Að undangengum löngum og ströngum fundahöldum varð niðurstaðan þá að Bifröst héldi sjálfstæði sínu.
Menntastofnanir eru ein af grunnstoðum samfélagsins í Borgarbyggð og sveitarfélagið hefur til fjölda ára stutt við bakið á Háskólunum á Bifröst og Hvanneyri með mikilli uppbyggingu á aðstöðu til að þar sé hægt að bjóða upp á fjölskylduvænt umhverfi og góða þjónustu grunn- og leikskóla.
Nú er enn vegið að sjálfstæði háskólanna í Borgarbyggð og nú er jafnt rætt um Bifröst sem og Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri, rætt er um faglegan og fjárhagslegan ávinning en allt er þetta frekar loðið og þegar rætt er við fagaðila, utan samfélags Háskóla Íslands, eru svörin afdráttarlaus, faglegur ávinningur er ekki til staðar og ekki hefur verið sýnt fram á fjárhagslegan ávinning, frekar hið gagnstæða sbr. skýrslu sem unnin var árið 2009.
Áhrif á byggðarþróun og byggðamál yrðu hinsvegar strax veruleg og hægt er að sýna fram á áhrif þessa strax. Mikill fjöldi námsmanna hefur átt börn í leik- og grunnskólum Borgarbyggðar og ef háskólanám verður flutt úr sveitarfélaginu þá mun það setja starf þessara stofnana í uppnám. Þar fyrir utan hafa nemendur og kennarar við háskólana á Hvanneyri og Bifröst verið virkir þátttakendur í mannlífi og menningu héraðsins.
Undirritaður leggur áherslu á að skoðaðir verði vandlega allir möguleikar á að leita annarra leiða til að tryggja öflugt háskólasamfélag í Borgarfirði og bendir sérstaklega á þá möguleika sem felast í aukinni samvinnu háskólanna, á Bifröst og Hvanneyri og mögulega Hólum.
Ráðherra, þingmenn og aðrir sem um stjórnartauma halda, hugsið viðfangsefnið út frá víðara samhengi, fjölbreytni aðstæðna fyrir nemendur skiptir máli, mannlíf á landsbyggðinni er kröftugt og mikilvægt að það fái að blómstra, ekki viljum við einsleitt háskólaumhverfi fyrir okkar kröftugu þjóð, eða hvað?
Höfundur er formaður byggðaráðs í Borgarbyggð.