— Morgunblaðið/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðtal Agnes Bragadóttir | agnes@mbl.is Styrmir Gunnarsson, ritstjóri Morgunblaðsins í tæplega 36 ár, segir Morgunblaðið hafa haft algjöra forystu í kalda stríðs baráttunni, ásamt örfáum mönnum í forystu Sjálfstæðisflokksins. Telur netið skipta sköpum fyrir framtíð blaðsins.

Styrmir Gunnarsson, ritstjóri Morgunblaðsins í tæp 36 ár, 1972 til 2008 og starfsmaður ritstjórnar í 43 ár, var ritstjóri minn hér á blaðinu í tæpan aldarfjórðung. Hann, rétt eins og Matthías, ritstýrði okkur af festu, öryggi, víðsýni og því sem hann sjálfur lagði jafnan mikla áherslu á, sögulegri yfirsýn. Yfirsýn hans og þekking, varð iðulega til þess að bæta þær fréttir og fréttaskýringar, sem við létum frá okkur fara, þótt það bæri vissulega við, að átök væru um breytingar á milli ritstjóra og blaðamanns. Blaðamaður hyggur að hann hafi verið í hópi þeirra erfiðu, en er vissulega þakklátur fyrir þá góðu ritstjórn sem hann laut og þær umbætur, sem skrifin tóku, í meðförum Styrmis. Þrátt fyrir einstaka storm í vatnsglasi á milli mín og Styrmis, með tilheyrandi hurðarskellum, vorum við ávallt og erum vinir. Enginn hefur kennt mér meira í blaðamennsku en Styrmir.

– Styrmir, þegar þú lítur til baka, hvað ber hæst í þínum huga, þegar við tölum um málefnasigra Morgunblaðsins?

„Ég held að það hljóti að vera hálfrar aldar barátta blaðsins í sambandi við aðild okkar að Atlantshafsbandalaginu og vegna varnarsamningsins við Bandaríkin. Allt sem tengist kalda stríðinu. Ég held það sé ekkert mál, á þeim tíma sem ég þekki til, stærra en það. En fyrir þann tíma hafi baráttan fyrir stofnun lýðveldis á Íslandi verið stærsta málið og er það auðvitað í hundrað ára sögu blaðsins. Það gleymist stundum að það var ekki alger samstaða um stofnun lýðveldis 17. júní 1944.

Það verður ekki dregið í efa að Morgunblaðið hafði algjöra forystu í kalda stríðs baráttunni, ásamt örfáum mönnum í forystu Sjálfstæðisflokksins. Þá er ég fyrst og fremst að tala um Bjarna heitinn Benediktsson og Geir heitinn Hallgrímsson og nokkra menn sem tengdust þeim mjög náið. Ég held að þetta hafi verið sá hópur sem hafi haldið uppi baráttunni fyrir þátttöku okkar í samstarfi vestrænna þjóða eftir að seinni heimsstyrjöldinni lauk og kalda stríðið hófst.“

– Morgunblaðið og kalda stríðið – hvað var þungbærast, erfiðast, í sambandi við ritstjórnarskrif Morgunblaðsins, í baráttunni við heimskommúnismann og Sovétríkin?

„Ég kann svo sem ekki að meta það, en ég ímynda mér, miðað við það sem ég hef skoðað af blaðinu frá þessum tíma, áður en ég byrjaði að vinna hér, að það hafi verið mjög erfitt tímabil á árunum 1953 til 1956. Varnarliðið kom hingað eftir að Kóreustríðið skall á. Kóreustríðið var í raun meginástæðan fyrir því að varnarliðið kom. Kóreustríðinu lauk á árinu 1953 og Stalín dó á svipuðum tíma. Sennilega hefur þetta tvennt haft mest áhrif á það að nokkur stuðningur var við það meðal landsmanna og jafnvel innan Sjálfstæðisflokksins á tímabili að þar sem Kóreustríðinu væri lokið og minni hætta væri á átökum í Evrópu eftir lát Stalíns, þá væri kannski ekki ástæða til þess að varnarliðið væri hér áfram enda því lofað að svo yrði ekki á friðartímum.

Maður sér það á viðbrögðum þingmanna Sjálfstæðisflokksins við þingsályktunartillögu sem vinstriflokkarnir fluttu vorið 1956, um brottför varnarliðsins, að Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið í ákveðinni vörn í þinginu út af þessu máli þá. Ég ímynda mér að það hafi líka þýtt að Morgunblaðið hafi átt einhverja erfiða daga í sínum málflutningi á þessum árum.

En strax haustið 1956 var þetta ekki lengur álitamál. Uppreisnin í Ungverjalandi opnaði augu fólks fyrir því að það voru engir friðartímar í Evrópu.

Næsti stóri slagur var á árunum 1971 til 1974, þegar vinstristjórn Ólafs Jóhannessonar stefndi að því að vísa varnarliðinu úr landi. Og það reyndust verða úrslitaátök. Þau voru mjög hörð, en það var jafnframt mjög skemmtilegur tími.“

– Hvers vegna var það skemmtilegur tími?

„Það voru svo skýrar víglínur, mikil barátta og miklar hugsjónir á ferðinni, báðum megin frá og okkur gekk að mörgu leyti mjög vel á blaðinu, frá degi til dags, þótt staðreyndin væri sú að við náðum aldrei tökum á þessari baráttu fyrr en undir árslok 1973, þegar búið var að semja við Breta um 50 mílurnar. Átökin við Breta höfðu þvælst fyrir okkur allan tímann, en eftir að samið hafði verið, má segja að herstöðvarandstæðingar hafi verið á skipulagslausum flótta.

Fyrrverandi andstæðingar nú samherjar

– Harkan í ritstjórnarskrifum dagblaðanna á þessum árum var mjög mikil, ekki síst í Morgunblaðinu og Þjóðviljanum. Er gróið um heilt?

„Já. Ég held það. Það er ljóst að margir af þeim sem börðust mjög hart á árum kalda stríðsins, eru nú samherjar um grundvallarmál íslensku þjóðarinnar. Þar á ég auðvitað við andstöðuna við aðild Íslands að Evrópusambandinu. Lítið dæmi um það er að við Ragnar Arnalds, fyrrverandi formaður Alþýðubandalagsins, erum æskuvinir en höfum alltaf verið á öndverðum meiði í stjórnmálum. Nú erum við pólitískir samherjar í því máli og höfum starfað mikið saman síðustu árin. Ég leyni því að vísu ekki að stundum gjósa upp í mér gamlir fordómar gagnvart fólki sem tengdist þessari baráttu í kalda stríðinu en ég reyni þá að berja þá niður í sjálfum mér. Hins vegar má vel vera að listamenn, sem urðu fyrir því að verk þeirra voru dæmd á pólitískum forsendum eigi erfitt með að gleyma. Það á t.d. við um merkilegt leikverk eftir Matthías Johannessen, sem heitir Fjaðrafok og var sýnt í Þjóðleikhúsinu fyrir bráðum hálfri öld. Matthías var í því verki langt á undan sínum samtíma en umfjöllunarefni verksins svonefnt Bjargsmál snerist í raun um ofbeldi gagnvart börnum og unglingum, þar á meðal kynferðislegt ofbeldi, sem er nú eitt helsta mál á dagskrá þjóðfélagsumræðna ekki bara á Íslandi heldur um alla Evrópu a.m.k. og vafalaust víðar. Verkið var hins vegar dæmt á pólitískum forsendum vegna þess að höfundurinn var ritstjóri þessa blaðs.“

Gríðarlega hörð átök

– Eitt helsta baráttumál Morgunblaðsins í áratugi var baráttan fyrir því að Íslendingar nytu rentu af fiskimiðunum umhverfis Ísland. Hvernig varð sú barátta að slíkri sannfæringu ykkar Matthíasar og hvernig vilt þú lýsa þeim árangri sem baráttan skilaði?

„Þetta var fyrst og fremst mál Matthíasar og hans hugmyndafræði sem réð þessari baráttu. Ég hef sagt það áður, að ég skildi hann Matthías ekki fyrstu árin, þegar hann var að tala um að það væri komið á lénsskipulag á Íslandi. Ég held að hvorugur okkar Björns Bjarnasonar, sem þá var aðstoðarritstjóri blaðsins, hafi skilið almennilega hvað Matthías var að fara. Smátt og smátt fór ég að skilja hugsun Matthíasar, og svona fimm árum eftir að kvótalögin voru sett, fór ég að taka undir með Matthíasi og skrifa með honum um kvótann.

Þetta voru auðvitað gríðarlega hörð átök og erfið, ekki síst vegna þess, að pólitískir samherjar okkar að öðru leyti, innan Sjálfstæðisflokksins, voru mjög óánægðir með þessi skrif okkar. Og við vorum víða uppnefndir sósíalistar á þessum árum.

Niðurstaðan varð hins vegar sú, rúmum áratug eftir að Morgunblaðið hóf þessa baráttu, að gjaldtaka vegna nýtingar auðlindarinnar var samþykkt sem stefnumál Sjálfstæðisflokksins á landsfundi. Það tel ég að hafi verið mikill sigur fyrir okkar málstað, þótt því hafi að vísu ekki verið mikið hampað af Sjálfstæðisflokknum eða forystumönnum hans eftir það.

Núna er ekki lengur deilt um hvort eigi að taka gjald fyrir veiðarnar, það er bara deilt um hversu hátt eða lágt gjaldið eigi að vera. Mér fannst gjaldið vera sett of lágt í upphafi, en mér hefur fundist seinni árin, að það væri farið of hátt með það og ég hef sérstaklega haft áhyggjur af því að það væri verið að ganga of langt í gjaldtöku, gagnvart litlum og meðalstórum fyrirtækjum í sjávarútvegi, sem eru auðvitað ein af undirstöðunum í okkar atvinnulífi.“

– Hvað um framhaldið? Er baráttunni um rentuna lokið?

„Ég held að baráttunni um hvort eigi að taka gjald fyrir réttinn til þess að nýta auðlindina sé lokið. Það verður ekki aftur snúið með gjaldtökuna, en það er svo annað mál að átökin um það hversu hátt gjaldið eigi að vera og hvernig eigi að taka það, munu örugglega halda áfram lengi.“

Líkti fréttaflutningnum við Heklugos

– Undir þinni ritstjórn, frá því í nóvember 2005 og fram á árið 2008, var mikið fjallað í fréttum og ritstjórnargreinum um stöðu íslensku viðskiptabankanna, við afar lítinn fögnuð þeirra sem áttu og stjórnuðu bönkunum á þessum tíma. Hver var kveikjan að þessum skrifum okkar og viltu lýsa þessu tímabili og því viðmóti sem Morgunblaðið mætti í kjölfar skrifanna?

„Kveikjan var sú, að ungur blaðamaður á viðskiptaritstjórn Morgunblaðsins, Arnór Gísli Ólafsson, kom og sagði okkur á ritstjórnarfundi síðari hluta nóvember 2005 að hann hefði verið að tala við kunningja sinn, sem vann hjá fjármálafyrirtæki í London. Hann hefði rekist á mjög neikvæða umsögn frá greiningardeild bresks fjármálafyrirtækis um íslensku bankana og þá sérstaklega Kaupþing, ef ég man rétt. Arnór Gísli útvegaði þessa umsögn og við áttuðum okkur á því, að þetta var alvarlegt mál og slógum þessu því mikið upp á forsíðu blaðsins.

Uppslátturinn var slíkur að Hreiðar Már Sigurðsson, þá bankastjóri Kaupþings, líkti honum við Heklugos á síðum Morgunblaðsins.

Síðan héldu þessar fréttir áfram að streyma inn næstu fjóra til fimm mánuði.

Það sem gerði mér auðveldara að átta mig á að það var eitthvað að gerast, var það, að eftir að Davíð Oddsson fór í Seðlabankann, talaði ég töluvert mikið við hann. Þótt hann segði mér aldrei neitt sem hann ekki mátti segja, þá heyrði ég alveg á því hvernig hann talaði, að það gat verið mikið alvörumál, sem þessar erlendu greiningardeildir voru að fjalla um. Þessi samtöl við Davíð urðu til þess að ég lagði miklu meiri áherslu en ella á þessar fréttir og frásagnir.

Við fengum fagmann til þess að þýða sumt af þessum álitsgerðum, til þess að það færi ekkert á milli mála, að við værum að fara rétt með og þýða þetta rétt. Við birtum töluvert af þessu efni í heilum köflum, svo ekki væri hægt að segja að við værum að slíta úr samhengi. Viðbrögðin frá bönkunum voru mjög harkaleg. Annars vegar gagnrýndu þeir fréttaflutning Morgunblaðsins og töldu að við færum offari í honum og þegar spurt var á móti, hvort þeir teldu að Morgunblaðið ætti ekki að segja frá þessum fréttum, svöruðu þeir og sögðu: Nei, við erum ekki að segja það. Okkur finnst þið eigið að segja frá þessu á innsíðum blaðsins en ekki útsíðum.

Mér er það minnisstætt að hingað kom hópur starfsmanna úr einum bankanna í kynningarheimsókn. Fólk í þessum hópi sagði við okkur: Okkur finnst að þið eigið að standa með bönkunum, en ekki taka þátt í því að gagnrýna þá.

Mér er það líka minnisstætt að Björgólfur Guðmundsson hringdi í mig og sagði að hann vildi að ég vissi það að hann hefði ekkert við þennan fréttaflutning að athuga og honum fyndist þetta sjálfsagt. Björgólfur var, þegar þetta var, orðinn einn af eigendum Morgunblaðsins og mér fannst gott að vita að slík afstaða væri til í bankakerfinu hér.

Ég tel að þessi fréttaflutningur okkar þennan vetur og fram á vor 2006 hafi verið til marks um að ritstjórn Morgunblaðsins hafi skilið hvað var að gerast. Og aftur, eftir að fréttir bárust frá Bandaríkjunum um undirmálslánin svokölluðu sumarið 2007, kveiktum við mjög rækilega á því hvað um var að vera, eins og sjá má á skrifum blaðsins seinni hluta árs 2007. Það var m.a. vakin athygli á því í Reykjavíkurbréfi í júlílok 2007 að það sem væri að gerast í Bandaríkjunum gæti þýtt erfiðleika fyrir íslensku stórfyrirtækin, sem voru með mikil umsvif í öðrum löndum.

Vitanlega sáum við ekki hrun bankanna fyrir, ekki frekar en aðrir og höfðum engar forsendur til þess. En ég held að fréttaflutningur okkar á þessum árum hafi skorið sig úr, þegar við horfum á íslensku fjölmiðlana.

Reyndar er það svo, að Hulda Þórisdóttir, sem skrifaði eina af fylgiskýrslum Rannsóknarnefndar Alþingis, hafði sérstaklega orð á því í skýrslu sinni að fréttaflutningur Morgunblaðsins á þessum tíma hefði skorið sig úr. Hún sagði:

„Það sem einkennir einnig fréttaumfjöllun af skýrslunum (þ.e. þeim erlendu skýrslum greiningadeilda, sem hér er fjallað um, innskot Mbl.) í febrúar og mars árið 2006 er að lítið er um ítarlegar frásagnir af innihaldi þeirra. Þess í stað virðast fréttir oft byggjast á fréttatilkynningum og viðbrögðum hagsmunaaðila við þeim... Áberandi undantekning frá viðbragðafréttamennskunni er umfjöllun Morgunblaðsins sem var allítarleg og tekið í mörgu undir varnaðarorð skýrsluhöfunda. Raunar var Morgunblaðinu talsvert legið á hálsi fyrir þessa umfjöllun...“

Var hræddur við Bjarna Benediktsson!

– Þegar þú horfir inn á við, á ritstjórn Morgunblaðsins, þá áratugi sem þú varst hér, hverjar eru merkustu breytingarnar í þínum huga?

„Fyrst kom ég inn á ritstjórnarskrifstofur Morgunblaðsins í Aðalstræti haustið 1958 og var nú svo heppinn þá að ég sá Valtý Stefánsson á göngum blaðsins, en ég talaði aldrei við hann. En af því að ég sá Valtý í þessu umhverfi, finnst mér að ég hafi fengið einhverja tengingu við fortíðina.

Að vísu hafði ég líka aðra tengingu við fortíð Morgunblaðsins, sem var allt annars eðlis. Hún var sú að hér var ritstjóri í 24 ár með Valtý, sem hét Jón Kjartansson. Föðuramma mín, Vilborg Runólfsdóttir, sem var sveitastúlka úr Vestur-Skaftafellssýslu, hafði unnið hjá kaupmanninum í Vík í Mýrdal. Jón Kjartansson var skyldur því fólki og amma þekkti hann og hafði í meiri hávegum en aðra menn, það sem ég heyrði til. Mér fannst ég því alltaf hafa ákveðin tengsl við Jón Kjartansson og í mínum huga var það einn merkasti áfanginn á mínum starfsferli hér á Morgunblaðinu, þegar ég var búinn að vera lengur ritstjóri en hann.

Í þessari fyrstu heimsókn 1958 á ritstjórnina sá ég líka Bjarna heitinn Benediktsson í fyrsta sinn í eigin persónu og man hvað ég var hræddur við hann, þar sem hann gekk á milli herbergja, mjög þungbúinn á svip!

Þegar ég horfi til baka tel ég að í nóvember 1956 hafi orðið ákveðin breyting á blaðinu. Þá kemur Bjarni hingað inn sem ritstjóri og þeir Valtýr verða saman aðalritstjórar.

Ég hef verið að skoða skrif blaðsins frá þessum tíma og við það að Bjarni verður ritstjóri verður mjög skýr og athyglisverð breyting á stjórnmálaskrifum blaðsins. Stjórnmálaskrifin verða breiðari og það fer að skjóta upp kollinum jákvætt umtal um pólitíska andstæðinga með ýmsum hætti, ekki síst í Reykjavíkurbréfum. Eins og margoft hefur komið fram í þessu blaði, þegar fjallað er um liðna tíð varð breyting á þingfréttamennsku blaðsins á þessum árum. Matthías Johannessen var farinn að vinna á blaðinu á þessum árum og bryddaði upp á nýjungum, sem komu í opna skjöldu í andrúmi þeirra ára og hann var svo ráðinn ritstjóri, síðla sumars 1959, þegar Bjarni Benediktsson var að hætta til þess að taka sæti í ríkisstjórn, Viðreisnarstjórninni.“

Matthías átti mestan þátt í að gjörbreyta blaðinu

„Ég tel að Matthías hafi átt mestan þátt í því að gjörbreyta Morgunblaðinu. Hann er náttúrlega kornungur maður á þessum tíma, innan við þrítugt, þegar hann verður ritstjóri. Hann opnaði Morgunblaðið upp á gátt og loftaði út, ef svo má segja, þannig að Morgunblaðið varð alvörublað í nútímalegum skilningi. Þetta held ég að sé stærsta framlag Matthíasar til Morgunblaðsins.

Ég veit að þið Matthías töluðuð saman um þátt hans í sambandi við menningarskrif Morgunblaðsins og ég ætla ekki að gera lítið úr því. En ég held að þetta sé hans stærsta framlag og það sem meira er, ég held að sú breyting sem varð á Morgunblaðinu á þessum árum, hafi átt þátt í því að sambærileg breyting, eða a.m.k. breyting í sömu átt, hafi orðið á öðrum fjölmiðlum í landinu.

Ég held að Matthías hafi átt mikinn þátt í að breyta íslensku samfélagi að þessu leyti. Það er hans stærsta framlag til þessa blaðs að mínum dómi. Hann naut auðvitað trausts Valtýs, sem skipti máli og m.a. byggðist á því að faðir Valtýs og móðurafi Matthíasar voru einkavinir.

Auðvitað hefur þetta verið erfitt. Það var verk Matthíasar árið 1960 að fá hingað til liðs við sig Eyjólf Konráð Jónsson, sem tók svo þátt í þessari miklu breytingu með honum.

Ég var byrjaður að koma hingað í reglulegar heimsóknir á háskólaárum mínum og talaði mikið við þessa heiðursmenn, ekki síst Eykon og fylgdist því með þessari þróun. Mér fannst mjög gaman að kynnast þessum mönnum. Annars vegar þeim tveimur, sem voru fulltrúar yngri kynslóðarinnar á þessum árum og hins vegar Sigurði Bjarnasyni frá Vigur, sem var ritstjóri með þeim til ársins 1970. Þótt Matthías og Eykon þættust þekkja vel til stjórnmála fann ég fljótt að Sigurður vissi sínu viti og hafði kannski svolítið meira jarðsamband en þeir tveir, í sambandi við það hvað væri hægt í pólitík og hvað ekki. Hann kallaði sjálfan sig gamlan, vitran lappa. Það var mjög lærdómsríkt að kynnast þessum þremur mönnum í starfi.

Þessi breyting finnst mér vera eitt af stærstu málunum í hundrað ára sögu Morgunblaðsins, af því að ég tel að hún hafi verið algjör forsenda fyrir velgengni blaðsins næstu áratugina á eftir. Auk þeirra áhrifa sem hún hafði á samfélagið. Hvers vegna skyldi ekki vera sjálfsagt að pólitískir andstæðingar Morgunblaðsins lýstu skoðunum sínum á síðum blaðsins? Hvers vegna taldist það til stórtíðinda að viðtal birtist við Halldór Laxness í Morgunblaðinu?

Annað sem ég tók eftir, svona innanbúðar, eftir að ég hóf hér störf, var að blaðinu var stjórnað með geðþótta ritstjóranna. Þeir gáfu bara fyrirmæli og skipanir og menn hlýddu þeim, gerðu það sem þeim var sagt og spurðu einskis eða harla lítils. Þannig var þetta fyrstu árin sem ég starfaði hér og áfram þegar ég varð aðstoðarritstjóri og einnig fyrstu árin eftir að ég varð ritstjóri við hlið Matthíasar og Eykons árið 1972.

Á fyrstu árum mínum sem ritstjóri var stúdentspróf lágmarkskrafa um menntun í sambandi við ráðningu blaðamanna. En næstu árin fór að koma hingað betur menntað fólk, fólk með BA-gráðu og fólk með meistaragráðu. Vel menntað og upplýst fólk sem hafði verið í námi bæði hér heima og erlendis og hafði víðari sýn og aðrar skoðanir og önnur viðhorf en þau sem viðtekin voru. Ég fann það í mínu starfi, að það var ekki lengur hægt að stjórna blaðinu með sama hætti og áður.

Ritstjórarnir höfðu auðvitað síðasta orðið, en krafan um það að þeir gerðu grein fyrir því af hverju þeir vildu að hlutirnir væru gerðir svona en ekki hinsegin og að þeir hefðu rök fyrir máli sínu, var orðin svo sterk að það var ekki hægt annað en laga sig að því breytta andrúmslofti, sem þessi hópur ungs, vel menntaðs fólks kom með með sér inn á ritstjórn Morgunblaðsins. Auk þess kom að því að hætt var að hugsa um pólitík í sambandi við ráðningar og við fórum að ráða inn nýja blaðamenn samkvæmt inntökuprófum. Hér voru ráðnir blaðamenn sem höfðu aðrar skoðanir en blaðið sjálft hafði og með allt aðrar skoðanir en Sjálfstæðisflokkurinn hafði.

Ég held að á síðasta aldarfjórðungi eða svo, hafi orðið ákveðin lýðræðisbylting á ritstjórn Morgunblaðsins, svo að ég orði það á svolítið pópúlískan hátt. Það var ekki lengur hægt að stjórna blaðinu án þess að gera grein fyrir því með hvaða rökum maður vildi gera þetta en ekki hitt og það var ekki heldur hægt að stjórna blaðinu, nema með opnum samræðum við blaðamennina.

Síðustu árin sem ég var hérna, fann ég að það var nauðsynlegt að upplýsa allt starfsfólk Morgunblaðsins, ekki bara blaðamennina, um það sem var að gerast, a.m.k. í grófum dráttum.

Þetta fannst mér vera orðið algjört grundvallaratriði í starfsemi ritstjórnarinnar.

Ég kynnti mér þetta svolítið í öðrum löndum. Ég fór m.a. að heimsækja The Guardian , í Bretlandi og hitti þar merkan ritstjóra sem heitir Alan Rusbridger, sem enn er ritstjóri blaðsins. Ritstjórn Guardian er rekin með þessum hætti, sem ég var að lýsa, á opinn hátt, með opnum fundum, þar sem málin sem til umfjöllunar eru, eru rædd fram og til baka, áður en ákvarðanir eru teknar. Mér fannst þetta á margan hátt til eftirbreytni. Þótt ég sé ekki sammála stjórnmálastefnu The Guardian , þá er ég sammála þeirri hugmyndafræði sem svona vinnubrögð á ritstjórn byggjast á.

Þessi afstaða náði líka inn í leiðaraskrif blaðsins. Hér var hópur fólks, eins og þú þekkir, sem kom saman á hverjum morgni, og ræddi fram og til baka um helstu mál sem verið var að fjalla um og hvaða afstöðu blaðið ætti að taka. Auðvitað hafði ritstjóri blaðsins síðasta orðið um það, en það fór ekki á milli mála, að þeir sem voru í þessum leiðarahópi, höfðu áhrif á afstöðu blaðsins og stefnu á þeim sviðum sem þeir þekktu best til. Svo ég nefni sem dæmi, umfjöllun okkar um menningarmál, þá tel ég að bæði Fríða Björk Ingvarsdóttir, núverandi rektor Listaháskóla Íslands, og Þröstur Helgason, sem lengi var ritstjóri Lesbókarinnar, hafi á þeim tíma sem ég var hér einn ritstjóri, eftir að Matthías hætti, átt mestan þátt í að móta menningarumfjöllun Morgunblaðsins. Ég taldi að þau væru miklu betur til þess hæf, heldur en ég sjálfur, enda kunni ég ekkert til menningarmála, þótt ég hefði hins vegar áhuga á þeim málaflokki.“

Getur lifað með glæsibrag næstu 100 árin

– Hver heldur þú að verði sess Morgunblaðsins í íslensku samfélagi að öðrum hundrað árum liðnum?

„Hvorugt okkar getur sagt nokkuð um það, en þó vil ég segja að það er eitt sem ég hef áttað mig á, þegar ég horfi til baka. Ég kveikti ekki á mikilvægi netsins að nokkru ráði, á meðan ég var hér. Ég hef áttað mig miklu betur á því, eftir að ég hætti. Mér urðu á alvarleg mistök með því að kveikja ekki á mikilvægi netsins en við sem ólumst upp við blý og pappír, vorum kannski ekki besta fólkið til þess að átta okkur á því sem var að gerast.

Hins vegar voru tveir menn sem gerðu sér grein fyrir þessu. Það var Hallgrímur Geirsson, sem þá var framkvæmdastjóri blaðsins, sem tók ákvörðun um að setja mbl.is upp. Ég tel að það sé merkasta framlag Hallgríms Geirssonar til sögu Morgunblaðsins og að sú ákvörðun muni hafa mikil áhrif á framtíð þess. Þetta segi ég vegna þess að þú ert að spyrja um næstu hundrað ár. Netið og mbl.is munu leika mjög stórt hlutverk í næstu hundrað árum Morgunblaðsins.

Hinn maðurinn er Guðbrandur Magnússon, sem hafði með ýmis tæknimál að gera. Hann og Hallgrímur unnu mest í því að koma netútgáfunni upp. En hin ritstjórnarlega uppbygging mbl.is fyrstu árin er verk Guðmundar Sv. Hermannssonar og samstarfsmanna hans.

Það er lítil, forvitnileg saga á bak við nafnið á mbl.is, því við Hallgrímur vorum algjörlega á móti því að kalla netmiðilinn mbl.is og ákváðum að hann skyldi heita Morgunblaðið á netinu. Hvernig markaðsstjóri Morgunblaðsins á þessum tíma, Margrét K. Sigurðardóttir, fór að því að komast framhjá þessari ákvörðun okkar Hallgríms og koma þessu heiti á mbl.is veit ég ekki. En hún hafði rétt fyrir sér og við rangt!

Spurningin um pappírinn er stór spurning og við getum ekkert áttað okkur á því hvað pappírsútgáfan lifir lengi, en ég er þeirrar skoðunar að prentvélin hérna hinum megin í Hádegismóum, sé síðasta blaðapressan sem verði keypt til Íslands.

Möguleikarnir sem netið opnar fyrir svona ritstjórn eins og hér, eru gríðarlegir.

Áður fyrr var það mikið vandamál að koma blaðinu til kaupenda úti á landi, að ekki sé talað um til kaupenda úti í heimi. Núna er alveg sama hvar þú ert í heiminum, þú getur alltaf nálgast blaðið. Ég skrifaði grein í Morgunblaðið fyrir nokkrum vikum og fyrstu viðbrögðin sem ég fékk við þeirri grein, voru frá Dakar í Senegal og þau bárust klukkan átta um morguninn.

Raunverulega er kominn nýr markaður fyrir afurðir ritstjórnar eins og Morgunblaðsins. Sá markaður er íslenskumælandi fólk um allan heim. Ég held því að netvæðingin sér gríðarlega mikilvæg fyrir fyrirtæki eins og þetta. Ef rétt er á haldið held ég að Morgunblaðið geti lifað með glæsibrag næstu hundrað ár ef það kann að nýta sér þessa tækni. Þar koma náttúrlega spjaldtölvurnar mjög mikið við sögu.“

Vináttutengslin hafa ekki rofnað

– Sjálfstæðisflokkurinn og Morgunblaðið hafa átt samleið í mörgum málum í gegnum árin. Hver hefur þróunin verið í samskiptum flokks og blaðs, og hvaða breytingar hafa verið markverðastar?

„Þegar ég kom hér inn á Morgunblaðið voru þeir Matthías og Eykon búnir að marka nýja stefnu um samskipti Morgunblaðsins og Sjálfstæðisflokksins og draga úr tengslum flokks og blaðs. Sigurður Bjarnason hreyfði engum andmælum við þeirri stefnu, sem Matthías og Eyjólfur Konráð mörkuðu, þótt hann hefði kannski svolítið aðrar skoðanir á því hvernig samskiptunum ætti að vera háttað, enda voru tilfinningar Sigurðar til Morgunblaðsins rosalega sterkar.

Þessi nýja stefna var ekki bara verk þeirra Matthíasar og Eykons. Því má aldrei gleyma að eigendur blaðsins á þessum tíma kröfðust þess að tengsl Morgunblaðsins við Sjálfstæðisflokkinn yrðu rofin. Það var ekki bara að þeir færu kurteislega fram á það, þeir kröfðust þess. Þar voru fremstir í flokki Haraldur Sveinsson og Gunnar heitinn Hansson, eiginmaður Huldu Valtýsdóttur.

Skoðun eigendanna var sú að Morgunblaðið ætti að verða sjálfstætt dagblað, óháð Sjálfstæðisflokknum.

Partur af því að þetta gekk vel framan af var náin vinátta Matthíasar og Bjarna heitins Benediktssonar.

Þó að Morgunblaðið gerði eitthvað sem fór í taugarnar á Bjarna vissi Bjarni að hann gat treyst ritstjórunum.

Síðan kemur Geir Hallgrímsson við sögu, bæði sem stjórnarformaður útgáfufélagsins og sem formaður Sjálfstæðisflokksins. Þar af leiðandi var mjög mikið samband á milli okkar og Geirs sem formanns sem þýddi það að hann treysti okkur þó að við værum að gera hluti sem hann var skammaður fyrir innan Sjálfstæðisflokksins.

Tengsl Matthíasar og Bjarna heitins annars vegar og svo tengsl Eykons og Matthíasar við Geir hins vegar, (Eykon og Geir voru nánir samherjar og vinir) auðvelduðu okkur mjög að þróa blaðið áfram frá því að vera málgagn Sjálfstæðisflokksins eins og það var um skeið.

Þetta var gert smám saman, hægt og rólega, en eftir sem áður átti blaðið alltaf fulltrúa á þingflokksfundum Sjálfstæðisflokksins. Ég sat þar um tíma, áður en ég varð ritstjóri, bæði sem þingfréttaritari og líka sem leiðarahöfundur í nokkur ár. Bjarni ákvað að það skyldu ekki bara vera ritstjórar blaðsins sem hefðu seturétt á þingflokksfundum, heldur líka leiðarahöfundar.

Sumarið 1983 sátum við Matthías saman ásamt eigendum Morgunblaðsins í veiðihúsi við Þverá í Borgarfirði og skrifuðum þar undir bréf til þingflokks Sjálfstæðisflokksins, sem við höfðum fengið bréf frá og afþökkuðum formlega boð um að tilnefna fulltrúa á þingflokksfundi Sjálfstæðisflokksins. Við litum svo á að þar með væri formlega slitið þessum nánu tengslum við flokkinn, sem höfðu verið til staðar.

Síðan koma nýjar kynslóðir inn í formennsku Sjálfstæðisflokksins, sem höfðu haft mikil tengsl við Morgunblaðið og unnið á eða fyrir ritstjórn blaðsins, eins og Þorsteinn Pálsson, Davíð Oddsson og Geir H. Haarde. Það voru auðvitað mjög skiptar skoðanir og meiri sviptingar á milli okkar og flokksins en höfðu verið áður. En allt hefur það þó endað vel og vináttutengslin hafa ekki rofnað.