Leikskóli Samdráttur í skólastarfi myndi hafa áhrif á allt mannlíf.
Leikskóli Samdráttur í skólastarfi myndi hafa áhrif á allt mannlíf. — Morgunblaðið/Davíð Pétursson
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Formaður Bændasamtaka Íslands og byggðarráð Borgarbyggðar berjast gegn lækkun fjárveitinga til háskólanna á Hvanneyri, Hólum og Bifröst og fyrir sjálfstæðum rekstri skólanna.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Formaður Bændasamtaka Íslands og byggðarráð Borgarbyggðar berjast gegn lækkun fjárveitinga til háskólanna á Hvanneyri, Hólum og Bifröst og fyrir sjálfstæðum rekstri skólanna. Formaður BÍ varar sérstaklega við hugmynd menntamálaráðherra um sameiningu Landbúnaðarháskólans við Háskóla Íslands.

Hugmyndir menntamálaráðherra um sameiningu háskólanna hafa ekki verið útfærðar, samkvæmt upplýsingum blaðsins, en reiknað er með að háskólastarfið á Hvanneyri muni falla undir verkfræði- og náttúruvísindasvið Háskóla Íslands. Hugmyndin mun ganga út á að styrkja vísindalegt samstarf þeirra en ekki draga úr starfseminni á Hvanneyri.

Hjáleigurnar skornar frá

„Þetta hugnast mér ekki,“ segir Sindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands. Hann bendir á að könnun sem gerð var fyrir fjórum árum leiddi í ljós að ekki fylgdi fjárhagslegur ávinningur sameiningu háskólanna, heldur fremur kostnaðarauki. „Við óttumst að þegar þetta verður komið saman verði ekki skilningur á áframhaldandi rekstri á Hvanneyri, þegar frá líður. Venjulega eru hjáleigurnar fyrst skornar frá, þegar að kreppir,“ segir Sindri og bendir jafnframt á að búfræðinámið yrði hálf-munaðarlaust. Hann leggur áherslu á að landbúnaðartengt nám verði áfram í nánum tengslum við atvinnugreinina.

Boðað til íbúafundar

Fjárveitingar til Landbúnaðarháskóla Íslands og þó sérstaklega Háskólans á Bifröst eru skornar niður samkvæmt fjárlagafrumvarpi. Byggðaráð Borgarbyggðar bendir á að háskólarnir séu í lykilhlutverki í atvinnulífinu og hvetur ríkisvaldið til að endurmeta afstöðu sína til þeirra. Byggðaráð hefur óskað eftir fundi með þingmönnum kjördæmisins og ákveðið að boða til íbúafundar um málefni háskólanna.