Ásgeiri Haraldssyni barnalækni var „hrint fram af brúninni“ þegar hann byrjaði á Morgunblaðinu og fékk mörg verkefni, stór og smá.
Ásgeiri Haraldssyni barnalækni var „hrint fram af brúninni“ þegar hann byrjaði á Morgunblaðinu og fékk mörg verkefni, stór og smá. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fundur! Einhver kallaði yfir salinn að tíminn væri kominn. Ritstjórnarfundur að hefjast. Minnti svolítið á sjómennsku: Ræs, klárir á dekk. Nema að nú var aflinn fréttir og frásagnir.

Fundur! Einhver kallaði yfir salinn að tíminn væri kominn. Ritstjórnarfundur að hefjast. Minnti svolítið á sjómennsku: Ræs, klárir á dekk. Nema að nú var aflinn fréttir og frásagnir.

Ritstjórnarfundirnir í stóra fundarherberginu í Aðalstræti voru að mínu mati mjög merkilegir. Við annan borðsendann sat Matthías. Hrifnæmur, jafnvel ákafur, stundum nokkuð orðmargur. Við hinn endann var Styrmir, íhugull, rólegur og greindi málin af skarpskyggni. Sannarlega áhugavert jafnvægi við borðið. Umhverfis borðið voru svo framúrskarandi blaðamenn: Sigtryggur, Björn Vignir, Árni Þórarins, Jóhanna Kristjónsdóttir, Guðmundur Halldórsson, o.fl o.fl. Að ógleymdum ljósmyndurunum. Mér fannst við finna æðaslátt samfélagsins.

Þetta var óvenju viðburðaríkur vetur á Íslandi. Guðmundar- og Geirfinnsmál voru til rannsóknar og menn voru dæmdir í gæsluvarðhald sem síðar kom í ljós að voru saklausir. Landhelgisstríð við Breta stóð yfir eftir að Íslendingar höfðu lýst yfir 200 mílna fiskveiðilögsögu. Deilan var afar hörð og fyrirferðarmikil í fréttum. Freigátan Andromeda sigldi á varðbátinn Þór. Síðar lék freigátan Leander sama leikinn, fleiri árásir annarra skipa fylgdu í kjölfarið. Átökin voru hörð og hættuleg. Morgunblaðið fjallaði ítarlega um málið og fylgdi því eftir með afar harðorðum leiðurum. Töluverðir jarðskjálftar voru við Kröflu og á Kópaskeri. Mikil ólga var einnig í stjórnmálum þennan vetur og miklar og þungar deilur á Alþingi. Í sveitarstjórnarmálum var deilt um Reykjavíkurflugvöll. Landhelgisdeilan var leidd til farsælla lykta en einhvern veginn tókst ekki að klára þetta flugvallarmál!

Ég var nítján ára og mitt í öllu þessu róti skrifaði ég glaður mína fyrstu frétt. Hún fjallaði um fallega gjöf sem kirkju í litlu bæjarfélagi var gefin. Og fullur eftirvæntingar las ég svo fréttina í Morgunblaðinu daginn eftir. Svart á hvítu. Stoltur. Ég velti aðeins fyrir mér hvers vegna Morgunblaðið hefði ekki nöfn blaðamanna undir svona fréttum! Þetta var svolítið til umræðu á þessum tíma þar sem önnur blöð voru oft með slíkar undirskriftir. En ég var alveg sáttur við niðurstöðuna: Morgunblaðið stendur sjálft við sínar fréttir!

Næst skrifaði ég um fyrsta barn ársins og tók viðtal við foreldrana. Afar skemmtilegt. Í framhaldinu var mér svo hrint fram af brúninni og fékk ég mörg verkefni, stór og smá. Ég fór með Matthíasi upp að Sigöldu að kynnast órtúlega miklum virkjunarframkvæmdum þar. Ég fór í flug með Ólafi K. Magnússyni til að greina frá hertöku varðskipsins á breskum togara sem varðskipið var með í togi á leið til hafnar. Og ég var sendur austur á firði til að skrifa nokkra pistla um loðnuvertíðina. Í framhaldinu fór ég með Eldborginni á loðnumiðin. Ógleymanleg ferð þar sem ég fékk að kynnast Gunnari Hermannssyni.

Mánuðirnir á Mogganum voru einstakur skóli og mikilvæg reynsla og skemmtilegur tími. Ég á margar góðar minningar frá starfinu og skemmtilegum og faglegum starfsfélögum.

Í kjölfarið á blaðamannsstarfinu réð ég mig svo á Eldborgina til loðnuveiða. Klárir á dekk. Og nótinni kastað með von um góðan afla.

Ágæta Morgunblað, til hamingju með afmælið. Takk fyrir mig.