Það var fyrir orðastað Matthíasar skálds að ég tók að mér að rita tónlistargagnrýni í Morgunblaðið. Margt mætti til tína um sögu gagnrýninnar, því margvíslegir og merkilegir viðburðir áttu sér stað, þar sem heimsfrægir listamenn komu fram, er með listfengi sínu höfðu mikil áhrif á þróun tónlistar hér á landi.
Viðfangsefni dagblaðs er að fjalla um pólitík, birta aðsendar greinar um menn og málefni, auglýsingar, flytja fréttir, en ekki síst að fjalla um listir og menningu.
Það var mér töluverður lærdómsauki að starfa við Morgunblaðið og á ég þar þakkarskuld ógreidda starfsmönnum blaðsins. Afmælisósk mín til Morgunblaðsins er að í öngu verði til sparað að gera það sem best úr garði, þjóðinni til gagns og fróðleiks.