Súsanna Svavarsdóttir segist þakklát fyrir áratug „í návígi við skapandi hluta þjóðarinnar, hjá góðu fólki og kynslóðinni sem skóp siðareglur fyrir blaðamenn og skildi manna best að öllu frelsi fylgir mikil ábyrgð“.
Súsanna Svavarsdóttir segist þakklát fyrir áratug „í návígi við skapandi hluta þjóðarinnar, hjá góðu fólki og kynslóðinni sem skóp siðareglur fyrir blaðamenn og skildi manna best að öllu frelsi fylgir mikil ábyrgð“. — Morgunblaðið/Ómar
Morgunblaðið árin 1986 til 1995 var besti vinnustaður sem hægt var að hugsa sér. Eigendur útgáfufélagsins Árvakurs voru af þeim gamla, góða skóla sem vissi að gæði fjölmiðils velta á fólkinu sem við hann vinnur, ekki síst blaðamönnunum.

Morgunblaðið árin 1986 til 1995 var besti vinnustaður sem hægt var að hugsa sér. Eigendur útgáfufélagsins Árvakurs voru af þeim gamla, góða skóla sem vissi að gæði fjölmiðils velta á fólkinu sem við hann vinnur, ekki síst blaðamönnunum. Þeir sýndu ótal sinnum í verki að þeim var annt um sitt fólk. Það var vel farið með okkur og við vissum það. Þess vegna var líka ánægjulegt að leggja mikið á sig til að ná að gera sitt besta.

Og Matthías var minn mentor. Sá stórbrotni maður tók á móti gemlingnum mér sem hélt að ég vissi allt og gæti allt. Hann var fljótur að láta mig skilja að ég vissi ekki neitt en myndi hugsanlega geta býsna mikið, ef ég væri til í að hlusta og læra, vera heiðarleg og gagnrýnin á verk mín og vinnubrögð. Ég blómstraði í Matthíasarskólanum og mér leið ákaflega vel.

Ég hlakkaði alltaf til að mæta í vinnuna. Samstarfsfólkið var upp til hópa skemmtilegt, miklir karakterar og húmoristar í hverju horni – en umfram allt góðar manneskjur. Verkefnin á menningarritstjórninni voru alltaf ögrandi; vinnudagurinn stundum ljónagryfja, stundum hús fullt af kólibrífuglum. Íslenska listamannaflóran litrík og skapmikil og alveg lygilega uppátækja- og framkvæmdasöm. Ég skal aldrei bakka með það að það eru listamennirnir með sinn skapandi hug og djarfa hjarta sem munu halda nafni þessarar litlu eyþjóðar á lofti um allan aldur. Það voru forréttindi að fá að kynnast þeirri staðreynd og sú þjóð sem heldur ekki utan um og styður sína listamenn er aum.

Svo kom sá dagur að heiðarleikinn og sjálfsgagnrýnin sagði mér að ég væri farin að endurtaka mig og hætt að gera góða hluti. Það væri kominn tími á nýja skóla, tími til að kveðja mitt kæra Morgunblað. Því fylgdi ekki söknuður, bara gleði og þakklæti yfir því að hafa átt um tíu ár í návígi við skapandi hluta þjóðarinnar, hjá góðu fólki og kynslóðinni sem skóp siðareglur fyrir blaðamenn og skildi manna best að öllu frelsi fylgir mikil ábyrgð.