Upplifun Lúxushótel og veitingastaður verða í byggingum sem reistar verða í hrauninu, í framhaldi af veitingastaðnum Lava. Nýju byggingarnar eru sýndar til vinstri á myndinni, umluktar nýju lóni.
Upplifun Lúxushótel og veitingastaður verða í byggingum sem reistar verða í hrauninu, í framhaldi af veitingastaðnum Lava. Nýju byggingarnar eru sýndar til vinstri á myndinni, umluktar nýju lóni. — Tölvuteikning/Bláa lónið
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Bláa lónið undirbýr byggingu 5 stjörnu hótels við lónið og stækkun upplifunarsvæðis þess. Framkvæmdir hefjast næsta haust, ef áætlanir ganga eftir, og stefnt er að opnun hótelsins vorið 2017.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Bláa lónið undirbýr byggingu 5 stjörnu hótels við lónið og stækkun upplifunarsvæðis þess. Framkvæmdir hefjast næsta haust, ef áætlanir ganga eftir, og stefnt er að opnun hótelsins vorið 2017. Heildarkostnaður við verkefnið er áætlaður 4 milljarðar króna.

„Þarna er vandað til allra verka og fimm stjörnu hótel í samræmi við þróun á vörumerkinu Blue Lagoon Iceland. Upplifunarhönnun er mikilkvægur þáttur hönnunarferlisins en hún felur í sér að skapa stemmningu og andrúmsloft til að hámarka upplifun gesta,“ segir Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa lónsins.

Upplifunarsvæði lónsins verður stækkað með vík út frá núverandi lóni inn í hraunbreiðuna á milli núverandi baðlóns og nýja hótelsins. Lúxushótel með 74 herbergjum og nýjum veitingastað verður byggt í framhaldi af núverandi byggingum, raunar út frá veitingastaðnum Lava, og verður í sama stíl. Áhersla er lögð á samspil hins náttúrulega umhverfis og þess manngerða.

Stækkun lónsins á að verða segull fyrir hótelið og gesti þess og frá hótelinu verður útsýni yfir Bláa lónið og Illahraun og sérstakt aðgengi að Bláa lóninu innifalið.

Eftirspurn eftir upplifun

Bláa lónið mun í auknu mæli sækjast eftir betur borgandi ferðamönnum sem leita eftir einstakri upplifun. „Félagið hefur fundið fyrir mikilli eftirspurn eftir aukinni upplifun og gistingu og telur Bláa lónið að nú sé rétti tíminn til að hefja undirbúning að verkefninu,“ segir Grímur.

Undanfarna mánuði hafa þrjú hönnunarteymi verið að störfum, arkitektar, verkfræðingar og upplifunarhönnuðir. Sérfræðingarnir eru langt komnir við vinnu sína og lýkur hönnun mannvirkjanna næsta vor. Nú þegar hafa verið lagðar 160 milljónir í verkefnið.

Hótel og stækkun á upplifunarsvæði Bláa lónsins mun skapa um 100 ný störf, samkvæmt upplýsingum fyrirtækisins. Mörg starfanna krefjast sérfræðimenntunar á sviði hótel- og veitingareksturs, snyrti- og nuddmeðferða, leiklistar og leiðsagnar. „Markhópur Bláa lónsins vegna þessa verkefnis mun verða vel borgandi gestir sem gera kröfur um vel þjálfað og vel launað starfsfólk,“ segir Grímur.

Uppbyggingin mun einnig skapa fjölda afleiddra starfa í nærumhverfi Bláa lónsins, til dæmis í ferðaþjónustu á Reykjanesi meðal annars í samstarfi um hráefni fyrir veitingarekstur og afþreyingu gesta.