Gunnar H. Gunnarsson
Gunnar H. Gunnarsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Gunnar H. Gunnarsson og Örn Sigurðsson: "Samkomulagið varpar skugga á sjálft lýðræðið í landinu og vekur upp áleitnar spurningar um sjálfsákvörðunarrétt íslenskra sveitarfélaga."

Í Morgunblaðsgrein 29. október sl. lofsyngur Hanna Birna Kristjánsdóttir (HBK) innanríkisráðherra og fyrrverandi borgarstjóri í Reykjavík nýgert samkomulag ríkis og borgar um sex ára frestun á brotthvarfi NS-brautar á flugvelli í Vatnsmýri

Með undirritun samkomulagsins 25. október sl. sameinast forsætisráðherra, innanríkisráðherra og tveir aðrir borgarstjórar Reykvíkinga í því að ganga gegn víðtækum almannahag borgarbúa, niðurlægja þá og gera að engu niðurstöðu úr almennri kosningu í Reykjavík 2001 um að flugvöllur hverfi úr Vatnsmýri fyrir árslok 2016. Niðurlæging borgarbúa er svo fullkomnuð með aðild einkarekins hlutafélags (Icelandair Group) að samkomulaginu.

Ekkert fordæmi er þekkt fyrir því á Íslandi eða í nágrannalöndunum að lýðræðisleg ákvörðun kjósenda í sérstakri kosningu um eitt afmarkað mál sé virt að vettugi (og það með tilstyrk einkafyrirtækis), hvorki í sveitarfélögum né á landsvísu. Samkomulagið markar því dapurleg tímamót í síðari tíma stjórnmálasögu Íslendinga. Það varpar skugga á sjálft lýðræðið í landinu og vekur m.a. upp áleitnar spurningar um sjálfsákvörðunarrétt íslenskra sveitarfélaga.

HBK segir að með samkomulaginu náist skýrt markmið ríkisins um öryggi í samgöngum. Hvers konar öryggi? Öryggi hverra? E.t.v. rekstraröryggi Icelandair Group? Öryggisfórnir borgarbúa vegna 67 ára flugreksturs í Vatnsmýri stafa m.a. af því að byggðin er a.m.k. tvöfalt víðáttumeiri en hún hefði ella orðið án flugvallar enda er bílaeign u.þ.b. helmingi meiri (745 bílar/1000 íbúa) en að meðaltali í evrópskum borgum. Árlega aka íbúar höfuðborgarsvæðisins 155.000 bílum um 2,5 milljarða km með þeim afleiðingum að 80 slasast alvarlega og 2,8 látast að meðaltali. Árlegur kostnaður er a.m.k. 200 milljarðar kr. HBK er með samkomulaginu að fresta því að borgarbúar geti farið að minnka akstur og fækka stórslösuðum og látnum í umferðinni.

Aðrar fórnir borgarbúa vegna flugvallarins eru ólýsanlegar, t.d. varðandi efnahag, heilbrigði, menntun, fjölskyldumál, félagsauð, almannavarnir o.s.frv. og uppsafnað tjón frá stríðslokum nemur þúsundum milljarða króna.

HBK segir að ef ekki hefði komið til sex ára frestun nú hefði strax þurft að hefja undirbúning að flutningi miðstöðvar innanlandsflugsins (MI), tímasetning 2016 hefði þýtt endalok innanlandsflugsins í núverandi mynd! Þá er spurt: Hvað hefur ríkið eiginlega verið að gera sl. 12 ár? Frestur ríkisins til að rýma Vatnsmýrina fyrir árslok 2016 byrjaði að tifa árið 2001.

HBK segir að samkomulag ríkis og borgar sé árangur af samræðum ólíkra aðila, að ríki og borg hafi rætt sig að sátt þegar borgin auglýsti Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030 (AR 2030) og ljóst hafi orðið að flugvöllurinn yrði óstarfhæfur 2016. Þetta er ekki nákvæm lýsing á gangi mála. AR 2030 er í meginatriðum byggt á Samgönguáætlun ríkisins 2011-2022.

HBK segir að nú eigi að fullkanna ólíka kosti fyrir MI. Þarf BB virkilega að benda ráðherranum á að á árunum 2005-2007 unnu starfshópar á vegum Sturlu Böðvarssonar þáverandi samgönguráðherra að því að fullkanna ólíka kosti fyrir MI (sbr. td. skýrslu ParXSamg.rn. – útgefið efni, mars 2007) og að aðstæður á Hólmsheiði hafa verið kannaðar mjög ítarlaga frá 2007?

HBK segir að nú geti rekstraraðilar hugað að endurbótum og byggingum og að gera megi nauðsynlegar lagfæringar á og við flugvöllinn. Því er spurt: Nægja 7-9 ár til að afskrifa nýjar fjárfestingar á flugvelli, sem á að hverfa fyrir árslok 2022?

HBK segir að frestunin skipti miklu fyrir alla landsmenn. Þetta er mjög ónákvæm fullyrðing ráðherrans. Ótvírætt er að frestunin veldur áframhaldandi lífskjaraskerðingu allra íbúa höfuðborgarsvæðisins og er verulega íþyngjandi fyrir þjóðarhag. Vera má að hópur stórnotenda, sem fæstir greiða flugfargjöldin sjálfir, finni e.t.v. eitthvað fyrir flutningi MI og væntanlega gætu einhverjir aðrir kvartað eins og td. Icelandair Group og Háskólinn á Akureyri, sem reiðir sig á flugsamgöngur vegna kennaraliðs af höfuðborgarsvæðinu. En ljóst er að innanlandsflugið er ekki almannasamgöngur og jafnljóst er að það legðist af samdægurs væri niðurgreiðslum ríkis og Reykjavíkurborgar deilt á flugmiðana.

HBK segir að samkomulagið sé „skref í rétta átt“ og að það sé „áfangasigur“. Hvað á ráðherrann við? Að flugvallarmálinu sé þá alls ekki lokið með samkomulaginu 25. október? Að málið haldi e.t.v. áfram óbreytt árið 2022? Er HBK að vitna beint í orð hollvina flugvallarins og gera að sínum? HBK er jú 1. þingmaður í RS, borgarfulltrúi 2002-2013 og borgarstjóri 2008-2010.

HBK telur að til langrar framtíðar sé endanleg ákvörðun um MI í Reykjavík þó í höndum borgarstjórnar. Hvað er ráðherrann að segja? Hafa Reykvíkingar þá ekki alltaf haft skipulagsvaldið innan borgarmarka sinna?

Gunnar er verkfræðingur, Örn er arkitekt. Báðir sitja í framkvæmdastjórn Samtaka um betri byggð.

Höf.: Gunnar H. Gunnarsson, Örn Sigurðsson