Í dag, 2. nóvember, hefði amma mín, Björg Guðlaugsdóttir, orðið 100 ára. Foreldrar hennar voru þau Guðlaugur Gíslason og Guðrún Salbjörg Björnsdóttir en amma ólst upp hjá móður sinni sem var vinnukona að Lambastöðum í Garði. Amma var gjöful kona, góð fyrirmynd og hlýleg í alla staði. Hún gaf af sér og fékk hver og einn að njóta sín í návist hennar. Hún var stolt af því að vera jafngömul og Morgunblaðið. Lestur er undirstaða alls náms og kenndi amma börnum og barnabörnum að lesa. Ég leit upp til ömmu, hún átti stóra fjölskyldu sem hún hugsaði um af alúð, hún bauð líka einstæðingum í mat og spil. Peningar voru af skornum skammti en kærleikurinn og ljúflyndið streymdi um allt. Hún var með eindæmum jákvæð, hún amma, ræddi mál og leysti með æðruleysi. Oft held ég að það vanti svona „ömmu“ í samfélagið okkar. Tíminn líður hratt, tæknin heltekur okkur, augnablikið gleymist og fólk er hætt að tala saman auglitis til auglitis. Ég hugsa oft um ömmu sem í dag hefði orðið 100 ára, amma sem alltaf var svo jákvæð og gaf af sér með kærleik í hjarta.

Lífið gefur, lífið sefur

lífið leikur okkur við.

Lífið hefur, lífið gefur

lífið er, að eiga frið.

Kristbjörg Eyjólfsdóttir.