[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Tónlist brúar bil milli þjóða og það sást allra þjóða dögg á hvarmi í Eldborg enda frammistaða Sinfó og annarra sem á sviðið stigu hreinasta afbragð.

Af Airwaves

Jón Agnar Ólason

jonagnar@mbl.is

Allt verður Sinfóníuhljómsveit Íslands að vopni nú um stundir og virðist sveitin óstöðvandi að kalla eftir að hún fékk loks inni í skikkanlegu tónlistarhúsnæði. Virðist hún fara á feiknalegum kostum hvenær sem talið er í innan eldrauðra Eldborgarveggja, slíkur er slátturinn á Sinfó. Það var einmitt tilfellið í fyrrakvöld er hljómsveitin flutti framlag sitt til Iceland Airwaves í ár. Kvöldið var í takt við þá stefnu sveitarinnar að færa hana markvisst nær stærri hópi hlustenda með nýstárlegum viðfangsefnum því annars vegar var um að ræða flutning á minimalískri „endursamningu“ breska nýklassíkurtónskáldsins Max Richters á Árstíðunum fjórum eftir Vivaldi og svo hinsvegar síðustu plötu Ólafs Arnalds, þá með tónskáldið sjálft við flygilinn.

Fyrir hlé flutti Sinfó hinn fjórskipta fiðlukonsert Antonios Vivaldis í módernískum búningi Max Richters, þar sem einleikaraundrið Elfa Rún Kristinsdóttir fór fyrir mannskapnum. Sinfóníuhljómsveitin er í fantaformi og að mæra hljómburðinn í Eldborg er að bera í bakkafullan lækinn. En því skal samt haldið til haga að flutningurinn á tónverkinu skv. forskrift Richters var sérdeilis framúrskarandi og Elfa Rún fór hreinlega á kostum; undurfagrar froststillurnar í öðrum hluta Vetursins voru jafndásamlegar og undirritaður hefur nokkurn tíma heyrt þær, og bylgjandi regnskulfur lokakafla Sumarsins helltust yfir áheyrendur og framkölluðu slíka gæsahúð að lengi verður haldið á lofti. Largo, miðkafli Vorsins, var ennfremur geggjaður og ekki laust við að maður fengi móðu í augun, svo vel var að verki staðið. Stórbrotin frammistaða á alla kanta og fátt annað að gera en að þakka auðmjúklega fyrir sig.

Eftir hlé mætti Ólafur Arnalds á svið með strengjakvartett sér til fulltingis í viðbót við Sinfó auk þess sem Arnór Dan steig á svið og söng í fjórum lögum. For Now I Am Winter er þriðja breiðskífa Ólafs og líklega sú tilraunakenndasta því þar er mannsröddin komin í hóp hljóðfæranna sem notuð eru. Þó ungur sé að árum telst hann í framlínu nýklassískra tónlistarmanna á heimsvísu. Nýja platan sýnir svo ekki er um að villast að hann langar að teygja formið og leika sér með það. Er tónlistin teknóskotin klassík, ellegar raftónlist með klassísku yfirbragði? Og hvað þá þegar einstök rödd Arnórs Dans bætist við? Hún er jafn stórbrotin og óræð og tónlistin sjálf svo úr verður heild sem gengur feikivel upp og þarf því engan merkimiða. Ólafur hefur látið í veðri vaka að hann og Arnór hyggi á frekara samstarf og það eru frábærar fréttir. Þeir eiga fáránlega vel saman. Í Hörpunni voru samankomnir Airwaves-gestir af margvíslegu þjóðerni en allir nutu kvöldsins í botn, svo mikið skal fullyrt. Tónlist brúar bil milli þjóða og það sást allra þjóða dögg á hvarmi í Eldborg enda frammistaða Sinfó og annarra sem á sviðið stigu hreinasta afbragð. Óefað einn af hápunktunum þegar Iceland Airwaves 2013 verður gerð upp.