
Vonin „Snjóflóðin á Súðavík og Flateyri voru með eftirminnilegustu og erfiðustu verkefnum sem ég hef tekið að mér,“ segir Ragnar. Það hafi tekið á að koma inn í þetta umhverfi og þá miklu sorg sem ríkti eftir hamfarirnar 1995. „Maður þurfti að reyna að ná hörmungunum á mannlegan hátt. Öll þjóðin beið á milli vonar og ótta eftir því að vita hvort fólk hefði bjargast.“ Ragnar segir að myndirnar þrjár sem valdar eru á þessari síðu segi saman heilmikla sögu um þessa hræðilegu atburði. „Þessi mynd er tekin í minningarathöfn,“ segir Ragnar um myndina Vonin, sem var tekin á Flateyri. Barnið var aftast í kirkjunni ásamt móður sinni sem reyndi að hugga það. „Augnablikið þegar barnið leit upp í litla stund og hætti að gráta, var eins og ljósið í myrkrinu. Það vakti von um að fleiri myndu finnast á lífi.“
Ragnar Axelsson (RAX) ljósmyndari hefur verið viðloðandi Morgunblaðið frá árinu 1976. Á þeim tíma hefur hann haldið margar sýningar erlendis og hlotið alþjóðlegar viðurkenningar. Meðal annars hafa verið gefnar út þrjár bækur eftir hann, Andlit norðursins, Veiðimenn norðursins og Fjallaland.