Starf mitt á Morgunblaðinu spannaði heilan aldarfjórðung. Ég byrjaði sem sumarstarfsmaður 1984, á ritstjórninni í Morgunblaðshúsinu við Aðalstræti. Mér finnst ég ævaforn þegar ég hugsa til þess að fyrsta kastið vann ég allar fréttir á ritvél. Það var hins vegar góð þjálfun í að móta fréttir í huganum áður en þær voru settar á blað og nýttist mér vel þegar fram í sótti.
Ég gekk fréttastjóravaktir á innlendri fréttadeild í nokkur ár. Laugardagsvaktirnar voru oft skrautlegar. Þá þurfti að klára helstu fréttasíður á hádegi og þegar gúrkutíðin var allsráðandi, á miðju sumri, voru fréttalistar oft ákaflega rýrir og stundum tæpt að ná að fylla síðurnar. Ljósmyndarar voru ánægðir, því myndirnar þeirra fengu miklu betra pláss en ella. Tvívegis man ég eftir að hafa klórað mér í hausnum rétt fyrir hádegi, búin að þurrausa alla lista og enn var eyða á baksíðu. Í annað skiptið greip ég til þess ráðs að fletta upp í ársgömlu blaði og sá þá að ári fyrr hafði verið settur upp símklefi í Flatey. Lesendur Morgunblaðsins fengu því frétt um hvernig blessaður símklefinn hafði reynst fyrsta árið – og mikið var nú hægt að teygja úr blessuðum símklefanum á hárri, eindálka mynd. Í annað skipti fékk ómerkileg frétt um verðhækkun á mjólkurvöru töluvert vægi þegar ljósmyndari rétti mér rjómafernu og smellti af mynd á meðan ég hellti úr henni. Úr varð önnur há og glæsileg mynd, sem lokaði síðasta gati á baksíðu. Ekki held ég að lesendur hafi almennt áttað sig á því hvernig sumar áherslur í fréttum fæddust fyrir tóma neyð í gúrkutíð.
Eftir fjórtán ára starf á fréttadeild flutti ég mig í greinaskrif. Um tveggja ára skeið starfaði ég sem blaðamaður Morgunblaðsins í Bandaríkjunum. Það voru ákaflega góð ár. Ég vann greinar fyrir Sunnudagsblaðið um allt sem mér fannst áhugaverðast í Kaliforníu, þar sem ég bjó, hvort sem það var Kísildalurinn, orkumál, stjórnmál, erfðavísindi, fjölmiðlar eða gullgrafaraæðið sem dró svo marga þangað vestur. Morgunblaðið sendi mig út og suður, á íslenska kvikmyndahátíð í Los Angeles, málþing um Íslendingasögurnar í Washington og ég fór á milli framboðsfunda í forkosningum í New Hampshire. Mér þótti nú ekki líklegt að George sem ég hitti á hamborgarabúllu yrði síðar Bush forseti, enda laut hann í lægra haldi fyrir John McCain í kosningum daginn eftir. Styrmir Gunnarsson var áhugasamur um þessa tilraun með blaðamann í Bandaríkjunum og studdi mig með ráðum og dáð.
Þegar ég hugsa til baka er ein lexía mér efst í minni. Matthías Johannessen ritstjóri var allra manna flinkastur blaðamaður og aldrei kom það betur í ljós en þegar mest á reyndi. Þegar náttúruhamfarir eða hörmuleg slys urðu var hann vakinn og sofinn yfir fréttaflutningi blaðsins. Ég man vel þegar hann brýndi fyrir okkur að lífið gengi alltaf framar dauðanum. Ef bátur fórst þá var áherslan í fréttunum alltaf fyrst á þá sem komust af, svo á þá sem fórust. Enginn bar meiri virðingu fyrir harmi eftirlifenda, en lexían var skýr: Lífið fyrst, dauðann svo. Ég vona að Morgunblaðið haldi þá reglu hans áfram í heiðri.