Morgunblaðið er kjörgripur nóvembermánaðar á vef Landsbókasafns Íslands, að því er fram kemur í tilkynningu frá safninu. Morgunblaðið kom fyrst út 2. nóvember 1913 og fagnar því 100 ára afmæli sínu í dag.

Morgunblaðið er kjörgripur nóvembermánaðar á vef Landsbókasafns Íslands, að því er fram kemur í tilkynningu frá safninu. Morgunblaðið kom fyrst út 2. nóvember 1913 og fagnar því 100 ára afmæli sínu í dag. „Blaðið hefur að geyma viðamiklar heimildir um samtímaviðburði og sögu þjóðarinnar og hefur það frá upphafi verið aðgengilegt í Landsbókasafninu,“ segir í tilkynningunni. Það var bundið inn á bókbandsstofu safnsins allt til 1980. Í byrjun árs 2000 kynnti Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn fyrir forsvarsmönnum Árvakurs, útgáfufélags Morgunblaðsins, áform um að mynda blaðið og birta á vefnum tímarit.is og strax var áhugi fyrir samstarfi. Vefurinn tímarit.is var opnaður almenningi vorið 2002 en samningur um stafræna myndun á Morgunblaðinu fram til ársins 2000 var gerður 2003. Það tók þrjú og hálft ár að mynda allt blaðið. Samningur um skil á pdf-skjölum frá Árvakri var gerður 2008. Morgunblaðið er nú aðgengilegt frá fyrsta útgáfudegi, 2. nóvember 1913 og út árið 2009 og telur nú að meðtalinni Lesbókinni 1.119.411 blaðsíður á vefnum.

Morgunblaðið hefur allt frá upphafi verið mest sótta blaðið á timarit.is. Samkvæmt upplýsingum frá Landsbókasafninu hafa 6,9 milljónir blaðsíðna verið sóttar af timarit.is það sem af er þessu ári. Þar af voru 1,9 milljónir blaðsíðna úr Morgunblaðinu. Til samanburðar er næsta rit á eftir, Dagblaðið Vísir – DV með rétt rúmar 600 þúsund blaðsíður og í þriðja sæti er Tíminn með 285 þúsund blaðsíður. sisi@mbl.is