[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Þórunn Kristjánsdóttir thorunn@mbl.is Þeir einstaklingar sem eru hiv-smitaðir og eru á lyfjum, sem hafa náð að bæla veiruna fullkomlega, smita ekki.

Baksvið

Þórunn Kristjánsdóttir

thorunn@mbl.is

Þeir einstaklingar sem eru hiv-smitaðir og eru á lyfjum, sem hafa náð að bæla veiruna fullkomlega, smita ekki. Greint er frá þessu í Rauða borðanum, nýútkomnu riti Hiv-samtakanna á Íslandi sem fagna 25 ára afmæli sínu um helgina.

Dönsku félagasamtökin, Hiv Danmark, greindu frá þessu í félagsriti sínu í september í grein sem ber yfirskriftina, Þess vegna meira kynlíf með hiv-smituðum (d. Mere sex med hiv-smittede fordi). Eva Gunnbjörnsdóttir þýðir umrædda grein í Rauða borðanum. Þar kemur fram að enginn vafi leiki á því að sá sem er smitaður og bregðist vel við lyfjagjöf eigi að nota smokk. Því smokkurinn er góð vörn gegn hiv-smiti og öðrum kynsjúkdómum. Ennfremur stendur: „Ef fólk veit þetta tvennt: að smokkar eru góð vörn og að hiv-jákvæðir á lyfjameðferð smita ekki, þá er allur ótti við að stunda kynlíf með hiv-jákvæðum einstaklingi óþarfur.“

Óhætt fyrir pör að stunda óvarið kynlíf og geta börn

Þá segir í greininni að óhætt sé fyrir pör, þar sem annar aðilinn er hiv-smitaður, að stunda óvarið kynlíf og geta börn á náttúrulegan hátt. Þar með hafa hiv-smitaðir endurheimt kynlíf sitt aftur.

Þessar fréttir eru byr í seglin fyrir allt forvarnastarf og vinna gegn þeim fordómum sem hiv-smitaðir verða fyrir.

Í sama streng taka forsvarsmenn hiv-samtakanna hér á landi sem telja þessar fréttir „sannkallað fagnaðarefni“, að náðst hafi að koma böndum á sjúkdóminn, í það minnsta að hefta útbreiðslu hans.

Tilfelli líklega færri í ár

Nýjustu tölur um fjölda þeirra einstaklinga sem hafa greinst með hiv á Íslandi benda allar til þess að þeim fækki í ár miðað við síðustu ár.

Það sem af er ári, eða frá 1. janúar 2013 til 1. október 2013 hafa fjögur tilfelli greinst. Í fyrra voru þau 20. Fjöldi þeirra sem greindust með hiv árið 2010, var sá mesti sem greinst hefur frá upphafi, þá greindust 24 einstaklingar.

Frá upphafi hafa 304 einstaklingar greinst með hiv, þar af hafa 39 látist af völdum sjúkdómsins.

Tíðni hiv-smita ætti að fara lækkandi en síðustu ár hefur fíkniefnaneytendum sem sprauta sig í æð fjölgað, og því hafa margir smitast í gegnum nálar. En 20% allra tilfella hafa smitast með sprautunálum. Þá er einnig í umræðunni hér á landi að eldra fólk, sem hefur verið smitað árum saman án þess að vita af því, hafi í auknum mæli verið að greinast með hiv-veiruna.

Nokkuð jafnt hlutfall smitaðra eru hommar og tvíkynhneigðir 37% og gagnkynhneigðir 38%. Þessi smit urðu gegnum kynmök. Þá er fjölmennasti hópur smitaðra á aldrinum 30-39 ára eða 38%.

Í dag hefst afmælishátíð félagsins í Ráðhúsi Reykjavíkur kl. 14.

Ljós í enda ganganna

„Við sjáum ljósið fyrir endanum á göngunum í þessum þunga róðri sem sjúkdómurinn hefur verið síðustu ár,“ segir Einar Þór Jónsson framkvæmdastjóri Hiv samtakanna á Íslandi og vísar til árangurs lyfja sem bæla niður veiruna. Á þessum tímamótum segist hann vera mjög þakklátur fyrir alla sem hafa unnið gott starf í þágu félagsins þó nöfn þeirra einstaklinga hafi ekki alltaf farið hátt. Jafnframt vill hann hvetja alla til að fara í próf til að kanna hvort þeir séu smitaðir af hiv. „Ef fólk myndi gera það þá myndi það létta róðurinn til muna.“ Hann bendir á að allir geta smitast af hiv, hvaða hóp sem þeir tilheyra í samfélaginu. Smám saman ætti að vera hægt að uppræta mýtuna um þá samfélagshópa sem alla jafna eru taldir líklegri en aðrir að smitast af hiv.