Kristinn Ingi Jónsson kij@mbl.is Verktakafyrirtækið Ístak sagði upp 75 starfsmönnum um mánaðamótin. Fimmtíu þeirra störfuðu á Íslandi en 25 í Grænlandi og Noregi.

Kristinn Ingi Jónsson

kij@mbl.is

Verktakafyrirtækið Ístak sagði upp 75 starfsmönnum um mánaðamótin. Fimmtíu þeirra störfuðu á Íslandi en 25 í Grænlandi og Noregi. Að sögn Kolbeins Kolbeinssonar, framkvæmdastjóra Ístaks, þurfti fyrirtækið einnig að segja upp 30 til 40 starfsmönnum um síðustu mánaðamót. Samanlagt hefur því yfir 100 manns verið sagt upp á stuttum tíma. „Þetta var stór hópur sem hefur unnið hjá okkur lengi,“ segir Kolbeinn.

Hann segir að uppsagnirnar megi að mestu leyti rekja til þess að framkvæmdum Ístaks við Búðarhálsvirkjun ljúki brátt. „Um 140 manns hafa starfað við virkjunina, sem er að klárast, og sárvantar okkur því fleiri verk hér heima,“ útskýrir hann. Stefnt er á að ljúka framkvæmdunum fyrir jól.

Horfa til Noregs

„Þetta er stóra höggið og var það heldur stærra en við ætluðum. Ástandið hér heima er mjög erfitt og er lítið að gerast. Við ætlum að hafa fleiri verkefni í Noregi og erum í dag að vinna hörðum höndum við að afla okkur verkefna þar.“

Hann segir að í raun hafi aðeins verið tvennt í stöðunni. „Annaðhvort að ná í verkefni erlendis eða að fækka mannskapnum. Það sem við finnum sérstaklega fyrir núna er að þetta er kjarnamannskapur. Við erum að fækka fólki sem við viljum eindregið halda í.“

Ístak er þó enn með nokkur verk í gangi hér á landi. Þar á meðal breikkun hringvegarins á Hellisheiði, framkvæmdir við endurnýjun Hverfisgötu og vegagerð í Mosfellsbæ. „Við vonuðumst til að verkefnið á Bakka myndi fara í gang fyrir veturinn en það hefur frestast til næsta vors í það minnsta. Það eru einfaldlega mjög fá verk sem verða í boði á útboðsmarkaðnum hér heima.“