Ég held að ég hafi verið send í tvær alvöru ferðir á vegum Morgunblaðsins. Önnur var til Dalvíkur. Hin var til London. Ég vann á föstudagskálfinum Daglegu lífi og allt var mögulegt efni. Þegar ég var unglingur hafði ég setið yfir Sunnudagsmogganum í dagrenningu eftir að heim var komið af sveitaböllunum, sötrað seríós úr skál og lesið um hugmyndir, atburði og áhugavert fólk, án þess að hugsa út í það að blaðamennirnir þyrftu að fá hugmyndir að þessum efnistökum sjálfir.
En á ritstjórninni lærðist fljótt sá siður: Að vera vakandi fyrir (góðu) efni. Þess vegna – og vegna þess að mér fannst óþægilegt að blaðið borgaði undir mig heila utanlandsferð til þess að skrifa um eina ferðasýningu – kom ég heim frá London með efni í tíu greinar í farteskinu. Ég var jafnvel farin að taka viðtöl við leigubílstjórana. Einn hafði átt föður í herþjónustu á Íslandi og út frá því spannst samtal sem rataði í blaðið. Charles Dickens-veitingahúsið sem ég snæddi á varð önnur grein, skóli íslenskra barna sú þriðja. Svo heyrði ég um skyndileg mótmæli við gríska sendiráðið, þar voru á ferð Kúrdar sem kveiktu í sér vegna frétta um að Grikkir hefðu framselt einn leiðtoga þeirra, Abdullah Öcalan, til handtöku. Ég hoppaði upp í taxa og sagði: Gríska sendiráðið! Sorry, miss, þar eru uppþot, svaraði bílstjórinn. Einmitt, sagði ég sigri hrósandi án þess beint að vita hverjir Kúrdar væru eða hvað þeir vildu. Einhvern veginn lánaðist mér samt að ná spjalli við fulltrúa úr útlagastjórn þeirra og næst rankaði ég við mér í höfuðstöðvum Reuters þar sem Einar Falur Ingólfsson myndstjóri hafði sambönd; þar tóku menn að sér að framkalla vettvangsmyndir mínar og víra til Íslands. Undir miðnætti las ég svo myndatextana fyrir í svartan skífusíma og fannst ég vera að rapportera úr heimsstyrjöld.
Ég efast um að ég hafi skrifað nokkra næturvinnu á tíu-greina-ferðina, hún lýsir ástríðu ungra blaðamanna sem finnst þeir þurfa að koma allri veröldinni á prent.
Ég hafði verið ráðin inn af Matthíasi Johannessen, öðrum tveggja ritstjóra. Atvinnuviðtalið var um það bil að hefjast þegar hann leit á mig og spurði hvort það hefði verið ég sem skrifaði fluggreinarnar. Ég játti því, en þær hafði hann beðið mig að skrifa þegar ég kjarkaði mig upp í að hringja í blaðið hálfu ári fyrr til þess að bjóða til birtingar það sem ég taldi vera áríðandi grein um Skakka turninn í Pisa. Matthías hafði í staðinn beðið mig um að lýsa pílagrímaflugi íslenskra ungmenna í þremur greinum og sagði nú að ég hefði gert það sem um var beðið – það dygði. Ritarinn gaf mér bendingu um að viðtalinu væri lokið.
Síðar, ef maður hætti sér upp á ritstjórahæðina í ræfildómi sínum, var manni auðveldlega kippt inn í spjall þar sem öðruvísi flug bar á góma, skáldlegt og streymandi, og maður fékk innsýn í það hvernig praktísku dagblaði var stýrt með menningarlegum slætti, og öfugt.
Það sem lærðist á Morgunblaðsárunum gildir allt enn, því auk hugarflugsins hafði það að gera með góð vinnubrögð. Ungur blaðamaður lærði að taka ábyrgð á eigin efni, bæði inntaki og formi. Þegar prófarkalesararnir hringdu var eins gott að standa á sínu, eða vera búinn undir lærdómsríkt samtal. Ljósmyndararnir bættu efnið undantekningarlaust og ómetanlegt var líka að ná síðustu pennastrikum alvöru útlitshönnuða sem handteiknuðu allar síður – áður en umbrotsforritin tóku yfir. Valgerður Þ. Jónsdóttir, lengi yfirmaður á Daglegu lífi, var ein þeirra og sýndi fram á að unglingarnir yfir seríósskálunum sofna síður ef opnurnar eru líflegar.
Eldveggur milli auglýsingadeildar og ritstjórnar var annað sem prentaðist inn í mann fyrstu árin, kurteisi við viðmælandann, virðing fyrir tíma annarra, gagnleg skoðanaskipti og frjó samvinna – þetta hljómar eins og hallærisfrasar úr kynningarbæklingi, en lýsir því sem ég vil kalla tíu ára óviðjafnanlegt starfsnám á ritstjórn Morgunblaðsins.